152. fundur hreppsnefndar,09,03,05

lindaFundargerðir, Sveitastjórn

SVEITARSTJÓRN GRÍMSNES OG GRAFNINGSHREPPS

 

Fundargerð

 

Ár 2005, miðvikudag 9. mars var haldinn 152. fundur sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps í Félagsheimilinu Borg.

 

Fundinn sátu:              Gunnar Þorgeirsson

                                    Margrét Sigurðardóttir

                                    Guðmundur Þorvaldsson

                                    Sigurður Karl Jónsson

Böðvar Pálsson

 

Fundargerð ritaði Margrét Sigurðardóttir sveitarstjóri. Gunnar Þorgeirsson stýrði fundi. Fundur var settur kl. 13.30

 

1.      Fundargerð síðasta fundar lögð fram til yfirferðar

Fundargerð sveitarstjórnarfundar dags. 16. febrúar 2005 lögð fram.

2.      Fundargerð byggingarnefndarfundar

Fundargerð 2. fundar byggingarnefndar dags. 22. febrúar 2005 lögð fram og staðfest.

3.      Fundargerð skipulagsnefndar dags.

Fundargerð 12. fundar skipulagsnefndar dags. 24. febrúar 2005 lögð fram og staðfest.

4.      Skipulagsmál:

a)      Aðalskipulag Bláskógabyggðar, Þingvallasveit

Lögð fram til kynningar tillaga að aðalskipulagi Þingvallasveitar 2004-2016 sbr. 1. mgr. 17. gr. Skipulags-og byggingarlaga.

Sveitarstjórn Grímsnes-og Grafningshrepps gerir ekki athugasemdir við fyrirliggjandi tillögu.

b)     Breyting á aðalskipulagi Grímsnes-og Grafningshrepps, Bjarnastaðir

Tekið fyrir bréf frá Ólafi Hjaltested, dags. 28. febrúar 2005 þar sem óskað er eftir breytingu á aðalskipulagi Grímsnes-og Grafningshrepps að Heiðarbrún, Bjarnastöðum.

Svæðið er í dag skilgreint sem frístundasvæði eftir aðalskipulagsbreytingu frá síðasta ári.

Ástæðan fyrir beiðninni er sú að þrír aðilar sem keypt hafa lóðir á Heiðarbrún hafa áhuga á að reisa þar íbúðarhús.

Þar sem lóðirnar eru staðsettar nærri bæjarhúsum og geta þar af leiðandi nýtt sér vegtengingar og lagnaleiðir sem fyrir eru ásamt annarri þjónustu af hálfu sveitarfélagsins samþykkir sveitarstjórn breytinguna sbr. 2. mgr. 21. gr. skipulags-og byggingarlaga.

c)      Deiliskipulag lóðar Kringlu I

Lögð fram drög að deiliskipulagi lóðar nr. 200487 í landi Kringlu I.

Á skipulagsskilmálum kemur fram að landnotkun sé skv. aðalskipulagi athafnasvæði.

Deiliskipulagið gerir ráð fyrir einu iðnaðarhúsnæði, einu íbúðarhúsnæði og einu frístundarhúsi eða öðru íbúðarhúsi á 9,5 ha. lands með aðkomu frá Sólheimavegi.

Sveitarstjórn samþykkir að óska eftir aðalskipulagsbreytingu þar sem landið er skilgreint sem iðnaðarsvæði en ekki athafnasvæði samkvæmt aðalskipulagi.

d)     Aðalskipulagsbreyting, Borg

Kynning á stöðu mála varðandi aðalskipulagsbreytingu á Borg. Á fundi sveitarstjórnar 2. febrúar 2005 var tekin fyrir breyting á aðalskipulagi Grímsnes-og Grafningshrepps á Borg.

Sveitarstjórn taldi breytinguna óverulega og óskaði eftir afgreiðslu Skipulagsstofnunar í bréfi dags. 3. febrúar 2005 sbr. 2. mgr. 21. gr skipulags og byggingarlaga.

Skipulagstofnun féllst ekki á það sbr. bréf dags. 9. febrúar 2005 og taldi að þar sem verið væri að taka óbyggt svæði undir íbúðarbyggð í grennd við þegar byggt svæði gæti það varðað hagsmuni þeirra sem þar búa. Skipulagsstofnun féllst á að tillagan yrði auglýst í samræmi við 1. mgr. 21. gr. skipulags-og byggingarlaga.

Sveitarstjórn sendi þá bréf til Skipulagsstofnunar þar sem rök sveitarstjórnar fyrir óverulegri breytingu voru rakin en þau lúta m.a. að því að umrætt svæði er að mestu óbyggt og þéttleiki byggðar langt í frá umtalsverður. Á Borg eru örfá hús sem flest eru í eigu sveitarfélagsins. Einnig var bent á að þó svo að breytingin verði skilgreind sem óveruleg er eftir sem áður þriggja vikna athugasemdafrestur þar sem aðilum gefst kostur á að koma með athugasemdir.

Í bréfi Skipulagsstofnunar dags. 25. febrúar 2005 er því aftur hafnað að afgreiða tillöguna sem óverulega og sendi álit sitt til Umhverfisráðuneytis.

Sveitarstjóri hefur jafnframt sent álit sveitarstjórnar til Umhverfisráðuneytis og bíður úrskurðar þeirra.

5.      Skólaakstur

Þar sem stefnt er að því flytja skóla sveitarfélagsins að Borg haustið 2005 liggur fyrir að miklar breytingar verða á skólaakstri. Í ljósi þess og að samningar við skólabílstjóra verða lausir nú í vor samþykkir sveitarstjórn að aksturinn verði boðinn út. Óskað er eftir því að fræðslunefnd tilgreini einn aðila í undirbúningsvinnu ásamt sveitarstjóra. Verkfræðingi yrði síðan falið að bjóða aksturinn út innan sveitar.

6.      Steingrímsstöð

Umræður hafa verið um það undanfarið í fjölmiðlum að Steingrímsstöð í Efra-Sogi verði lögð af og jafnvel rifin til að tryggja vöxt og viðgang Þingvallaurriðans.

Sveitarstjórn Grímsnes-og Grafningshrepps mótmælir þessum hugmyndum og öllum öðrum hugmyndum er gætu valdið því að mýbit myndi aukast á svæðinu.

Það er stefna sveitarstjórnar að skapa sem heppilegust skilyrði fyrir frístunda- og íbúðabyggð í sveitarfélaginu og allar aðgerðir er leitt gætu til aukningar mýbits er í algjörri andstöðu við þær hugmyndir.

7.      Trúnaðarmál

8.      Aðalfundarboð Eignarhaldsfélagsins Fasteignar hf

Aðalfundur eignarhaldsfélagsins Fasteignar hf verður haldinn miðvikudaginn 16. mars n.k. kl. 17.00

Sveitarstjórn samþykkir að Gunnar Þorgeirsson verði fulltrúi sveitarfélagsins á fundinum.

9.      Bréf frá stjórn sumarbústaðafélagsins Selhóls

Tekið fyrir bréf frá stjórn sumarbústaðafélags Selhóls í landi Hæðarenda Grímsnesi dags. 2. mars 2005.

Í bréfinu er fjallað um að engin holræsi séu í þeirra byggð og því sé ólöglegt að setja á holræsagjald. Ennfremur sé það hlutverk byggingarfulltrúa að fylgjast með að fullnægjandi rotþrær séu settar við byggingu sumarhúsa.

Þá er einnig fjallað um það að innheimta gjald, 4.900 kr á ári án þess að vita hver kostnaður er sé óheimilt samkvæmt sveitarstjórnarlögum. Jafnframt það að ætlast til þess að sumarbústaðaeigendur skilji hlið sín eftir opin stóran hluta sumars sé óskiljanlegt.

Það er rétt að ekki er um holræsagjald að ræða heldur gjald vegna hirðu og meðhöndlunar seyru úr rotþróm samkvæmt samþykkt sveitarstjórnar frá 1. desember 2004. Samþykktin er byggð á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998, reglugerð um meðhöndlun seyru þar sem segir m.a. að sveitarstjórnir skulu sjá til þess að komið sé á kerfisbundinni tæmingu á seyru úr rotþróm og reglugerð um fráveitur og skólp. Séu rotþrær ekki til staðar eða í slæmu ásigkomulagi verður litið á það alvarlegum augum og kallar það á úttekt byggingarfulltrúa og heilbrigðiseftirlits.

Innheimta gjalds vegna losunar og meðhöndlunar seyru fór til umsagnar hjá Heilbrigðisnefnd Suðurlands sem afgreiddi gjaldskrá athugasemdalaust. Nú er það einnig svo að í flestum tilfellum stendur þjónustugjald ekki undir þeirri þjónustu sem veitt er. Verði það hinsvegar raunin í þessu tilfelli að gjaldtakan sé ekki í samræmi við kostnað verður gjaldskráin endurskoðuð.

10.    Bréf og samningsdrög vegna minkaveiða

Tekið fyrir bréf frá Reyni Bergsveinssyni og drög að samningi um minkaveiðar.

Sveitarstjórn samþykkir að semja við Reyni um minkaveiðar til eins árs.

Sveitarstjóra falið að ganga frá samningi við hann.

11.    Hönnunarvinna, Borg, Sogsbakkar

Óskað var eftir verðhugmyndum þriggja verkfræðistofa á Suðurlandi í hönnunarvinnu við Sogsbakka og á Borg.

Samþykkt er að semja við verkfræðistofuna Hönnun.

12.    Aðalfundarboð Atvinnuþróunarsjóðs og Eignarhaldsfélags Suðurlands

Aðalfundur Atvinnuþróunarsjóðs og Eignarhaldsfélags Suðurlands verður haldinn miðvikudaginn 16. mars n.k. á Hótel Höfðabrekku.

Sveitarstjórn samþykkir að Margrét Sigurðardóttir verði fulltrúi sveitarfélagsins á fundinum og Gunnar Þorgeirsson til vara.

13.    Til kynningar:

a)      72. fundur  Heilbrigðisnefndar Suðurlands das. 15. febrúar 2005

b)     382. stjórnarfundur SASS dags. 17. febrúar 2005

c)      Deiliskipulag Nesja

d)     Breyting á deiliskipulagi í landi Ásgarðs

e)      Erindi til Vegagerðar vegna snjómoksturs og viðhalds á Sólheimavegi

f)       Bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga dags. 1. mars 2005

g)      Bréf frá Eiði Guðnasyni dags. 7. mars 2005

h)     Áætlun um tekjuaukningu sveitarfélaga við hámarksálagningu útsvars

i)        Námsferð sveitarstjóra, oddvita, skipulags-, byggingar-, og ferðamálatrúa uppsveita til Norðurlanda

14.    Önnur mál:

a)      Fundargerð Fræðslunefndar

Lögð fram fundargerð fræðslunefndar dags. 28. febrúar 2005. Sveitarstjórn mun skoða mál varðandi óánægju barna í einum skólabílanna.

b)     Bréf frá Guðmundi Bjarnasyni til Vegagerðar ríkisins

Lagt fram til kynningar bréf frá Guðmundi Bjarnasyni til Vegagerðar ríkisins dags. 26. febrúar 2005 þar sem skorað er á Vegagerðina, samgönguráðherra, þingmenn Suðurkjördæmis og sveitarstjórn Grímsnes-og Grafningshrepps að hefja nú þegar undirbúning vegna uppbyggingar Búrfellsvegar og tryggja að fjárveitingar fáist til framkvæmda við næstu endurskoðun vegaáætlunar.

Sveitarstjórn tekur undir nauðsyn endurbóta á Búrfellsvegi.

c)      Veitingaleyfi Þrastalundar

Tekin fyrir bréf frá Sýslumanninum á Selfossi þar sem óskað er umsagnar Grímsnes-og Grafningshrepps vegna umsóknar Snorra Sigurfinnssonar um endurnýjun á leyfi til reksturs veitingahúss með útiveitingum og veisluþjónustu í Þrastarlundi.

Meðfylgjandi er umsókn Snorra Sigurfinnssonar.

Sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir við umsókn Snorra.

d)     Niðurfelling fasteignagjalda

Tekið fyrir bréf dags. 1. mars 2005 þar sem óskað er eftir niðurfellingu fasteignagjalda eða styrk vegna Gömlu Borgar.

Sveitarstjórn hafnar því að fasteignagjöld séu felld niður. Það er andstætt vinnureglum sveitarstjórnar og lögum um tekjustofna sveitarfélaga.

Sveitarstjórn samþykkir að veita styrk kr. 100.000 til viðhalds þeim menningarverðmætum sem bjargað var með endurbyggingu Gömlu Borgar.

Böðvar Pálsson sat hjá við afgreiðslu.

 

 

Fleira ekki tekið fyrir og fundi slitið kl. 16.30

 

 

 

Gunnar Þorgeirsson (sign)

                                    Margrét Sigurðardóttir (sign)

                                    Guðmundur Þorvaldsson (sign)

                                    Sigurður Karl Jónsson (sign)

Böðvar Pálsson (sign)