158. fundur hreppsnefndar,01,06,05

lindaFundargerðir, Sveitastjórn

SVEITARSTJÓRN GRÍMSNES OG GRAFNINGSHREPPS

 

Fundargerð

 

Ár 2005, miðvikudag 1. júní  var haldinn 158. fundur sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps í Félagsheimilinu Borg.

 

Fundinn sátu:              Gunnar Þorgeirsson

                                    Margrét Sigurðardóttir

                                    Guðmundur Þorvaldsson

                                    Ingvar Ingvarsson

Böðvar Pálsson

 

Fundargerð ritaði Margrét Sigurðardóttir sveitarstjóri. Gunnar Þorgeirsson stýrði fundi. Fundur var settur kl. 13.30

 

1.      Fundargerð síðasta fundar lögð fram

Fundargerð sveitarstjórnarfundar dags. 18. maí 2005 lögð fram. Varðandi lið 7., ráðning aðstoðarskólastjóra er talið rétt að tilnefna þá aðila sem sóttu um stöðuna.

Þeir voru:

Guðrún S. Thorsteinsson, Selfossi, Sverrir Kristinsson, Flateyri, Gísli Baldsvinsson, Akureyri, Vigfús Andrésson, Sandgerði og Hilmar Björgvinsson, Selfossi.

2.      Fundargerð byggingarnefndar lögð fram

Fundargerð byggingarnefndar dags. 17. maí 2005 lögð fram og hún staðfest.

3.      Fundargerð skipulagsnefndar lögð fram

Fundargerð skipulagsnefndar dags.19. maí 2005 lögð fram og hún staðfest.

4.      Skipulagsmál:

a)      Breyting á aðalskipulagi á Borg

Tekin fyrir breyting á aðalskipulagi á Borg.

Breytingin felst í því að svæði undir íbúabyggð á Borg í Grímsnesi stækkar um 3 ha.

Tillagan var auglýst frá 22. apríl til 20. maí 2005. Athugasemdafrestur er til 3. júní 2005.

Sveitarstjórn samþykkir fyrirliggjandi tillögu með fyrirvara um að engar athugasemdir berist og óskar eftir afgreiðslu Skipulagsstofnunar sbr. 21. gr. skipulags-og byggingarlaga.

5.      Ársreikningur Grímsnes-og Grafningshrepps 2004

Ársreikningur sveitarfélagsins fyrir árið 2004 lagður fram til seinni umræðu.

Helstu niðurstöður samantektar A og B hluta eru eftirfarandi:

Rekstrarniðurstaða                        kr.   66.396.221

Eigið fé                                         kr. 306.305.900

Skuldir                                          kr. 165.989.254

Eignir                                            kr. 472.295.154

Ársreikningur samþykktur samhljóða og áritaður.

6.      Kjör oddvita og varaoddvita

Kosningar fóru fram um

a)      oddvita

b)      varaoddvita

Gunnar Þorgeirsson var kjörinn oddviti og Margrét Sigurðardóttir varaoddviti.

7.      Skólaakstur

Tekið fyrir bréf dags. 24. maí 2005 þar sem gerðar eru athugasemdir við útboð á skólaakstri 2005-2009.

Einnig lagt fram bréf frá verkfræðingi hjá verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen hf. þar sem farið er yfir athugasemdir og ákvörðun rökstudd.

Sveitarstjórn óskaði eftir áliti óháðs aðila til að meta þau tilboð sem bárust. Fyrir liggur álit verkfræðiskrifstofu ásamt bréfi með rökstuðningi ákvörðunar.

Því staðfestir sveitarstjórn fyrri ákvörðun sína frá fundi dags. 18. maí s.l.

8.      Veiðileyfi fyrir landi Ásgarðs

Sveitarstjóri og oddviti áttu fund með forsvarsmönnum Búgarðs þann 24. maí s.l. þar sem reifuð voru hagsmunamál veiðirétthafa. Á þeim fundi var lagt til að veiðiréttindum verði skipt í samræmi við eignarhlutdeild þar sem hlutdeild sveitarfélags eru tvær stangir og Búgarðs ein stöng og hvor aðili veiði fyrir sínu landi.

Sveitarstjórn samþykkir ofangreind skipti og felur sveitarstjóra og oddvita að ganga frá samkomulagi þar um og jafnframt að ganga til samninga við Stangveiðifélag Reykjavíkur um leigu á veiðiréttindum sveitarfélagsins til allt að 6 ára.

9.      Lóðir í landi Klausturhóla nr. 9 og 9a

Sveitarstjórn hefur borist munnlegt tilboð til lausnar máls vegna lóða nr. 9 og 9a í landi Klausturhóla.

Sveitarstjórn samþykkir að fela sveitarstjóra og oddvita að vinna að lausn málsins.

10.    Grafningsvegur neðri

Tekið fyrir bréf frá Vegagerðinni dags. 18. maí 2005 þar sem kemur fram að ekki er gert ráð fyrir fjárveitingum á Samgönguáætlun 2005-2008 til Grafningsvegar neðri (350).

Vegagerðin óskar eftir staðfestingu á ósk sveitarfélagsins um lán fyrir framkvæmdum við að leggja bundið slitlag á efri hluta Grafningsvegar neðri.

Sveitarstjórn samþykkir að fresta ákvörðun um lán til framkvæmdanna til hausts þegar fyrir liggur endurskoðuð Samgönguáætlun til 12 ára.

11.    Reiðvegastyrkir

Reiðvegasjóður hefur samþykkt að veita 2.500.000 kr. styrk til hestamannafélagsins Trausta vegna reiðvegagerðar.

Sveitarstjórn samþykkir að þeir fjármunir sem lagðir verða til reiðvegagerðar í Grímsnes-og Grafningshrepps af Reiðvegasjóði verði tvöfaldaðir með framlagi frá sveitarfélaginu.

12.    Beiðni um tengingu við vatnsveitu sveitarfélagsins

Lagt fram bréf frá ábendum Miðengis dags. 26. maí 2005 þar sem óskað er eftir því að Grímsnes-og Grafningshreppur sjái um kaldavatnsveitu í nýtt sumarhúsahverfi, Farengi í landi Miðengis.

Sveitarstjórn samþykkir að fara í framkvæmdir við vatnslögn á svæðinu þegar Rarik leggur rafmagn í hverfið þannig að samnýta megi framkvæmdir við vatn og rafmagn.

13.    Bréf frá Gunnari Sigurðssyni vegna refaveiða

Tekið fyrir bréf frá Gunnari Sigurðssyni dags. 18. maí 2005 þar sem hann óskar eftir styrk til grenjaleitar.

Sveitarstjórn hafnar beiðninni. Ekki er gert ráð fyrir auknu fjármagni til refa-og minkaveiða frá fjárhagsáætlun 2005.

14.    Erindi frá Umhverfisstofnun

Lagt fram til kynningar erindi frá Umhverfisstofnun dags. 18. maí 2005 þar sem fram kemur að gert er ráð fyrir óbreyttum viðmiðunartaxta launa og verðlauna fyrir refi og minka.

Áætlað er að endurgreiðsluhlutfall verði lækkað í a.m.k. 30% svo hægt verði að standa við fjárlög.

Sveitarstjórn harmar afstöðu ríkisins gagnvart þessum vágestum sem refur og minkur er í náttúru Íslands og telur að frekar ætti að auka fé til veiða í stað þess að draga úr því.

15.    Bréf frá Ómari G. Jónssyni vegna Þingvallasiglinga

Lagt fram til kynningar bréf rá Ómari G. Jónssyni dags. 26. maí 2005 vegna Þingvallasiglinga ehf.

Áform eru um að að hefja á ný siglingar og aðra ferðaþjónustu á vegum Þingvallasiglinga.

Sveitarstjórn fagnar framtakinu.

16.    Styrkbeiðni

Tekið fyrir bréf frá Kára Jónssyni dags. 20. maí 2005 þar sem óskað er eftir styrk frá sveitarfélaginu til útgáfu og dreifingar á tímariti uppsveita, Laugdælingi.

Sveitarstjórn samþykkir að veita sambærilegan styrk og á síðasta ári enda verði kynning á viðburðum sveitarfélagsins í blaðinu.

17.    Til kynningar:

a)      247., 248.  fundur og 25. aðalfundur Atvinnuþróunarsjóðs Suðurlands

b)     80. fundur Skólaskrifstofu Suðurlands dags. 25. maí 2005

c)      75. og 76. fundur Heilbrigðiseftirlits Suðurlands

d)     Aðalfundur Sorpstöðvar Suðurlands dags. 10. maí 2005

e)      Fundargerð Félagsmálanefndar dags. 12. maí 2005

f)       Athugasemdir við deiliskipulag í Öndverðarnesi og Miðengi

g)      Bréf frá Skipulagsstofnun dags. 20. maí 2005

18.    Önnur mál:

a)      Deiliskipulag Borg

Lagt fram til kynningar deiliskipulag á Borg. Gerðar hafa verið breytingar á auglýstu skipulagi sem felast í því að Hlíðarbraut fellur úr skipulagi en þess í stað gerðir hliðarvegir frá Hraunbraut inn í íbúabyggð.

Sveitarstjórn telur að þetta sé svæðinu til hagsbóta vegna landhalla og tæknilegra ástæðna.

b)     Lögheimili í frístundahúsi

Lagt fram til kynningar beiðni um lögheimilisflutning í frístundahús.

Sveitarstjórn samþykkir að óska eftir því að landnotkun verði breytt úr frístundabyggð til samræmis við notkun á landi.

 

Fleira ekki tekið fyrir og fundi slitið kl.  16.30

 

Gunnar Þorgeirsson (sign)

                                    Margrét Sigurðardóttir (sign)

                                    Guðmundur Þorvaldsson (sign)

                                    Ingvar Ingvarsson (sign)

Böðvar Pálsson (sign)