172. fundur hreppsnefndar,18,01,06

lindaFundargerðir, Sveitastjórn

SVEITARSTJÓRN GRÍMSNES OG GRAFNINGSHREPPS

 

Fundargerð

 

Ár 2006, miðvikudag 18. janúar  var haldinn 172. fundur sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps í Stjórnsýsluhúsinu Borg.

 

Fundinn sátu:                Gunnar Þorgeirsson

                                    Margrét Sigurðardóttir

Guðmundur Þorvaldsson

                                    Sigurður Karl Jónsson

Böðvar Pálsson

 

Fundargerð ritaði Margrét Sigurðardóttir sveitarstjóri. Gunnar Þorgeirsson stýrði fundi. Fundur var settur kl. 11.00

 

1.      Fundargerð sveitarstjórnar

Fundargerð sveitarstjórnar dags. 21. desember lögð fram.

2.      Skipulagsmál:

a)      Klausturgata C, beiðni um heilsársbyggð

Tekin fyrir beiðni um að fjórar lóðir sem liggja að Biskupstungnabraut, Klausturgata C nr. 6, 8, 16 og 18, verði breytt úr frístundabyggðalóðum í íbúðarhúsalóðir.

Sveitarstjórn samþykkti á fundi 7. desember 2005 að vísa málinu til umsagnar skipulagsnefndar.

Skipulagsnefnd mælti með því að heimila auglýsingu tillagna að breytingum aðal-og deiliskipulags ef frístundahúsaeigendur við C-götu lýstu sig reiðubúna til að taka á sig gatnagerðargjöld, gefa eftir land undir breiðari götu og standa undir öðrum kostnaði sem hlýst af breyttri landnýtingu.

Sveitarstjórn Grímsness- og Grafningshrepps hefur samþykkt tillögu skipulagsnefndar uppsveita Árnessýslu frá 23. júní 2005 varðandi reglur sem fylgja þarf eftir þegar umsóknir berast um skráningu lögheimilis í frístundabyggð. 

Reglurnar kveða m.a. á um að viðkomandi húsnæði uppfylli kröfur til fastrar búsetu og að sækja þurfi um breytingu á aðalskipulagi til samræmis við breytta landnotkun.

Sveitarstjórn getur fallist á að allar lóðir við Klausturgötu C verði breytt úr frístundalóðum í íbúðarhúsalóðir með fyrirvara um eftirfarandi:

Að allir frístundahúsaeigendur við C-götu séu samþykkir breytingum á aðalskipulagi sem gerir ráð fyrir breyttri landnotkun, þ.e. að frístundabyggð breytist í íbúðarbyggð. Einnig að lagt verði fram nýtt deiliskipulag.

Að allir frístundahúsaeigendur við C-götu lýsi sig reiðubúna til að taka á sig gatnagerðargjöld samkvæmt gjaldskrá sveitarfélagsins.

Að allir frístundahúsaeigendur við C-götu gefi eftir land undir breiðari götu og standi undir öðrum kostnaði sem hlýst af breyttri landnýtingu.

 

 

b)      Breyting á aðalskipulagi, Borg

Lögð fram tillaga að breytingu á aðalskipulagi á Borg.

Breytingin felst í  því að um 4.000 m2 spilda norðan við félagsheimili breytist í opið svæði til sérstakra nota úr verslunar- og þjónustusvæði. Breytingin er gerð þar sem reiknað er með uppbyggingu verslunar og þjónustu við þjóðveginn og að lögð verði áhersla á að halda samfelldu svæði fyrir leikskóla og skóla.

Einnig er gert ráð fyrir því að 4.000 m2 svæði fyrir þjónustustofnanir og verslunar-og þjónustusvæði norðan við verslunina Borg breytist í íbúðarsvæði.

Tillagan var í auglýsingu frá 16. nóvember til 14. desember 2005. Frestur til að skila inn athugasemdum var til 28. desember 2005.

Engar athugasemdir bárust.

Sveitarstjórn samþykkir tillöguna og óskar eftir afgreiðslu Skipulagsstofnunar sbr. 1. mgr. 21. gr. skipulags-og byggingarlaga.

c)      Deiliskipulag íbúabyggðar, Borg

Lögð fram tillaga að nýju deiliskipulagi íbúabyggðar á Borg þar sem m.a. er gert ráð fyrir að aðkoma að lóðum verði beggja megin Hólsbrautar. Einnig er gert ráð fyrir hreinsistöð norðvestan við félagsheimili.

Sveitarstjórn samþykkir að heimila auglýsingu á tillögunni sbr. 1. mgr. 25. gr. skipulags-og byggingarlaga.

d)      Frárennslismál, Borg

Sveitarstjórn samþykkir að óska eftir tilboði í hönnunarvinnu við frárennslismál á Borg samkvæmt drögum að deiliskipulagi á Borg sem liggur fyrir fundi.

e)      Lóðamál við félagsheimili, skóla og stjórnsýsluhús, Borg

Lögð fram til kynningar tillaga að lóðafrágangi við félagsheimili, skóla og stjórnsýsluhús að Borg frá teiknistofunni Tröð.

Sveitarstjórn samþykkir að óska eftir nánari útfærslu á teikningunni.

f)       Breyting á aðalskipulagi, Úlfljótsvatn

Lagt fram til kynningar bréf frá Skipulagsstofnun dags. 29. desember 2005 þar sem gerðar eru athugasemdir við tillögu að breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins í landi Úlfljótsvatn.

Einnig er lögð fram endurskoðuð tillaga að breytingu aðalskipulags.

Sveitarstjórn samþykkir að óska eftir afgreiðslu Skipulagsstofnunar sbr.1. mgr. 21. skipulags-og byggingarlaga með fyrirvara um að beiðendur afli þeirra umsagna sem hugsanlega verður óskað eftir.

g)      Lagnir (rafmagn, vatn, sími) í skipulagsuppdráttum

Bilanir hafa verið tíðar undanfarið á rafmagni í hluta sveitarfélagsins sem rekja má til þess að lagnir hafa verið teknar í sundur vegna jarðvegsframkvæmda.

Sveitarstjórn samþykkir að framvegis verði það hluti af hönnun deiliskipulags að merkja inn lagnir s.s. rafmagn, síma og vatn.

Samþykkt að vísa málinu til skipulagsnefndar til frekari úrvinnslu.

h)      Framkvæmdaleyfi við Úlfljótsvatn

Tekin fyrir beiðni um framkvæmdaleyfi við varnir gegn landbroti við austanvert Úlfljótsvatn.

Sveitarstjórn samþykkir að óska umsagnar Umhverfisstofnunar sbr. b. lið 37. gr. náttúruverndarlaga.

i)        Breyting á aðalskipulagi, Syðri Brú

Tekin fyrir tillaga að breytingu aðalskipulagslags í landi Syðri Brúar.

Breytingin gerir ráð fyrir að um 8.800m2 lands verði breytt úr frístundabyggð í landbúnaðarsvæði.

Ekki er um skipulagða frístundabyggð að ræða.

Sveitarstjórn samþykkir að óska eftir afgreiðslu Skipulagsstofnunar sbr. 1. mgr. 21. gr. skipulags-og byggingarlaga.

3.      Þriggja ára fjárhagsáætlun, fyrri umræða

Þriggja ára fjárhagsáætlun sveitarfélagsins tekin til fyrri umræðu.

Sveitarstjórn samþykkir að vísa fjárhagsáætlun til seinni umræðu.

4.      Vatnsvernd við vatnsból í Búrfellslandi

Lagt fram bréf frá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands dags. 23. desember 2005 vegna vatnsverndar við vatnsból í landi Búrfells.

Sveitarstjórn samþykkti á fundi   að óska eftir umsögn Heilbrigðiseftirlits þar sem skipulögð frístundabyggð í landi Búrfells er að hluta til á brunnsvæði vatnslindar.

Heilbrigðiseftirlit leggur til að skilgreint verði nýtt brunnsvæði í kringum og ofan við vatnsból í straumstefnu vatnsins.

Í bréfinu kemur einnig fram að þrátt fyrir mögulega minnkun á fyrrgreindu brunnsvæði verði að breyta deiliskipulagi og a.m.k. þrjár lóðir þurfi að víkja vegna vatnsverndar.

Sveitarstjórn samþykkir tillögu Heilbrigðiseftirlits.

Samþykkt að fá Odd Hermannsson til að teikna upp brunnsvæði með nýjum hnitum.

Einnig þarf að gera ráð fyrir brunnsvæði vatnsverndar á deiliskipulagi í landi Búrfells I.

5.      Gjaldskrá hitaveitna sveitarfélagsins

Lögð fram tillaga að breytingu á samþykktum hitaveitna sveitarfélagsins. Tillagan gerir ráð fyrir að veiturnar verði sameinaðar og kallist Hitaveita Grímsnes-og Grafningshrepps með einni gjaldskrá á báðum veitusvæðum.

Veiturnar hafa verið aðskildar hingað til.

Sveitarstjórn samþykkir fyrirliggjandi breytingu á samþykktum og gjaldskrá með eftirfarandi breytingum:

Rúmmetragjald samkvæmt mæli verði kr. 45,-

Þar sem vatn er keypt samkvæmt hemli beint úr stofnlögn miðað við eldri samninga (B líður, 5. gr) verður 10% hækkun

Sveitarfélagið sér um lagnir heim að mæli í þéttbýli.

6.      Auglýsing um samkeppni vegna merkis sveitarfélags

Sveitarstjórn samþykkir að auglýsa samkeppni um merki (logo) sveitarfélagsins og veita verðlaun fyrir bestu tillöguna, kr. 100.000,-.

Sveitarstjórn mun velja úr innsendum tillögum.

7.      Beiðni um umsögn vegna veitingaleyfis

Lögð fram beiðni frá Sýslumanni á Selfossi um umsögn sveitarstjórnar varðandi umsókn um leyfi til reksturs veitingahúss í Þrastalundi, Grímsnes-og Grafningshreppi.

Umsækjandi er Garðar Kjartansson.

Sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir við fyrirliggjandi umsókn.

8.      Áfýjun íslenska ríkisins

Lagt fram bréf dags. 16. desember 2005 þar sem segir að íslenska ríkið hafi áfrýjað dómi Héraðsdóms Suðurlands til Hæstaréttar Íslands um makaskiptaland frá 1896.

Sveitarstjórn samþykkir að fela Málflutningsskrifstofunni að sjá um málið fyrir hönd sveitarfélagsins.

9.      Reiðvegur með Sólheimavegi

Tekinn fyrir tölvupóstur frá Vegagerð dags. 28. desember 2005 þar sem óskað er eftir efni til reiðvegagerðar meðfram Sólheimavegi.

Einnig lagður fram tölvupóstur frá reiðveganefnd hestamannafélagsins Trausta dags. 15. janúar 2006 þar sem óskað er eftir árlegum stuðningi sveitarfélagsins til reiðvegagerðar.

Sveitarstjórn samþykkti við gerð fjárhagsáæltunar fyrir árið 2006 að styrkja hestamannafélagið um kr. 2.500.000 á árinu.

Sveitarfélagið samþykkir að ræða við Vegagerð um efnisval vegna reiðavegagerðar meðfram Sólheimavegi.

Ekki verður tekin afstaða vegna fjármagns til reiðvegagerðar nema að fyrir liggi umsókn fyrir hvert ár.

10.    Erindi frá Félagsmálaráðuneyti

Lagt fram til kynningar bréf frá Félagsmálaráðuneyti dags. 27. desember 2005 þar sem kvartað er yfir málsmeðferð sveitarfélagsins varðandi skráningu flutningstilkynningar í sumarhús í sveitarfélaginu.

Einnig lagt fram svarbréf sveitarstjóra dags. 4. janúar 2005 vegna erindisins.

Sveitarstjórn ítrekar að ekki er leyfð heilsársbúseta í frístundabyggð í sveitarfélaginu nema að undangenginni breytingu á aðalskipulagi sbr. tillögu skipulagsnefndar dags. 23. júní 2005.

Með því að heimila aðsetur í sumarhúsi í skipulagðri frístundabyggð lítur sveitarstjórn svo á að verið sé að brjóta skipulags-og byggingarlög og skipulagsreglugerð.

11.    Erindi frá Yfirfasteignamatsnefnd

Lögð fram erindi frá Yfirfasteignamatsnefnd dags. 23. desember 2005 og 5. janúar 2006 þar sem kærður er úrskurður Fasteignamats ríkisins um endurmat fasteigna í sveitarfélaginu.

Sveitarstjórn tekur ekki afstöðu til mats á einstökum fasteignum í sveitarfélaginu.

12.    Bréf frá skólaskrifstofu Suðurlands

Lagt fram erindi frá tveimur nemendum Kennaraháskóla Íslands dags. 15. desember 2005 þar sem óskað er eftir leyfi til að starfa að rannsóknum um náttúrufræði-og tæknimenntun í skólum á þjónustusvæði Skólaskrifstofu Suðurlands. Rannsóknin nær til allra skóla á Íslandi.

Sveitarstjórn Grímsnes-og Grafningshrepps veitir leyfi til rannsóknarinnar fyrir sitt leiti.

13.    Sæludagar eldri borgara á hótel Örk

Sveitarstjórn samþykkir að greiða fyrir dvöl eldri borgara sem lögheimili eiga í sveitarfélaginu á sæludögum hótel Arkar dagana 19. – 24. febrúar n.k.

14.    Íbúafjöldi sveitarfélagsins

Samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands voru íbúar sveitarfélagsins 356 að tölu 1. desember 2005, karlar eru 192 og konur 164.

15.    Fundartími sveitarstjórnar í mars

Samþykkt að fundir sveitarstjórnar í mars verði 8. mars og 22. mars, þ.e. annar og fjórði miðvikudagur í mánuðinum.

16.    Rotþróarstyrkir

Sveitarstjórn samþykkir að styrkir vegna rotþróa á lögbýli í sveitarfélaginu framlengist til og með 1. júní 2006.

Gert verður ráð fyrir viðbótarfjármagni til verksins í endurskoðaðri fjárhagsáætlun seinna á árinu.

17.    Samningur um sorphirðu

Sveitarstjórn samþykkir að segja upp samningi um sorphirðu í sveitarfélaginu frá og með 1. maí 2006 en þá fellur úr gildi samningur sem gerður var 9. febrúar 2000.

18.    Útfærsla nafngiftar, Ljósaborg

Sveitarstjórn samþykkir að nýr skóli á Borg, Ljósaborg, heiti Grunnskólinn Ljósaborg.

19.    Til kynningar:

a)      390. fundur stjórnar SASS dags. 16. desember 2005

b)      391. fundur stjórnar SASS dags. 5. janúar 2006

c)      129. fundur stjórnar Sorpstöðvar Suðurlands dags. 15. desember 2005

d)      34. fundur framkvæmdaráðs Almannavarnarnefndar dags. 16. desember 2005

e)      Tillaga að fjárhagsáætlun Almannavarna 2006

f)       Framlög sveitarfélaga 2006 til Atvinnuþróunarsjóðs Suðurlands

g)      Framlög sveitarfélaga 2006 til Tónlistarskóla Árnessýslu

h)      Bréf frá Félagsmálaráðuneyti dags. 14. desember 2005

i)        Reglugerð um fasteignaskatt

j)        Erindi frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga dags. 21. desember 2005

k)     Bréf frá Sorpstöð Suðurlands varðandi svæðisáætlun úrgangs 2005-2020

l)        Sundurliðun á verðmæti Ljósafossskóla auk kennarabústaða og lóðar

m)    Kynningarefni frá FOSS og Launanefnd

20.    Önnur mál:

a)      Viðbygging við Sjúkrahús Suðurlands

Sveitarstjórn Grímsnes-og Grafningshrepps lýsir áhuga sínum á að taka þátt í uppbyggingu þriðju hæðar á sjúkrahúsi Suðurlands fyrir hjúkrunarrými að því gefnu að Ljósheimar verði seldir og andvirðið verði látið renna til framkvæmdarinnar.

Kostnaðarhlutdeild sveitarfélaganna yrði um 30% sem skiptist eftir íbúafjölda.

 

 

Fleira ekki tekið fyrir og fundi slitið kl.  14.00

 

 

            Gunnar Þorgeirsson (sign)

                                    Margrét Sigurðardóttir (sign)

Guðmundur Þorvaldsson (sign)

                                    Sigurður Karl Jónsson (sign)

Böðvar Pálsson (sign)