175. fundur – sveitarstjórnar

lindaFundargerðir, Sveitastjórn

Fundur nr. 175-08.03.06

SVEITARSTJÓRN GRÍMSNES- OG GRAFNINGSHREPPS

Fundargerð

Ár 2006, miðvikudag 8. mars var haldinn 175. fundur sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps í Stjórnsýsluhúsinu Borg.

Fundinn sátu: Gunnar Þorgeirsson

Margrét Sigurðardóttir

Guðmundur Þorvaldsson

Sigurður Karl Jónsson

Böðvar Pálsson

Fundargerð ritaði Margrét Sigurðardóttir sveitarstjóri. Gunnar Þorgeirsson stýrði fundi. Fundur var settur kl. 13.30

1. Fundargerð sveitarstjórnar

Fundargerð sveitarstjórnar dags. 15. febrúar lögð fram.

2. Fundargerð byggingarnefndar

Fundargerð byggingarnefndar dags. 28. febrúar lögð fram. Eftirfarandi liðir eru staðfestir með fyrirvara um að deiliskipulag viðkomandi svæða sé samþykkt af skipulagsnefnd/sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepp.

2961, 2990, 2991, 2992 og 2994.

3. Skipulagsmál:

a) Kiðjaberg, deiliskipulag frístundabyggðar

Tekin fyrir tillaga að deiliskipulagi frístundahúslóðar við Hvítá næst landamerkjum að Hesti.

Gert er ráð fyrir tveimur frístundalóðum, 5.540 m2 og 6.098 m2 að stærð.

Skipulagssvæðið er 5,4 ha að stærð.

Tillagan var í auglýsingu frá 11. janúar til 8. febrúar 2006 og frestur til að skila inn athugasemdum var til 22. febrúar 2006. Engar athugasemdir bárust.

Sveitarstjórn gerir athugasemd við tillöguna þar sem byggingarskilmálar leyfa mænishæð 6,5 m og stærð aukahúsa 35 m2.

Tillagan verður ekki samþykkt fyrr en að byggingarskilmálum hefur verið breytt til samræmis við það sem almennar reglur sveitarstjórnar kveða á um eða mænishæð 6,0 m og stærð aukahúsa 25 m2.

b) Miðengi, lóð nr. 200

Tekin fyrir tillaga að breytingu á deiliskipulagi lóðar nr. [200] í landi Miðengis. Tillagan gerir ráð fyrir því að hámarksstærð frístundahúss verði 496 m2 í stað 380 m2. Einnig er gert ráð fyrir 64 m2 bílskúr og 86 m2 sumarhúsi sem munu standa á sérlóð innan marka skipulagsins.

Tillagan var í auglýsingu frá 11. janúar til 8. febrúar 2006 og frestur til að skila inn athugasemdum var til 22. febrúar 2006.

Athugasemdir bárust frá Jóni H. Steingrímssyni fyrir hönd eigenda að landi nr. 190 og frá Kristjáni M. Gunnarssyni.

Eigendur lands nr. 190 telja að upphaflega deiliskipulagið fyrir lóð nr. 200 hafi ekki verið kynnt með nægilega góðum hætti þar sem ekki hafi farið fram grenndarkynning.

Mikið álag verði á sameiginlegum vegi við framkvæmdir slíkrar stórbyggingar.

Í bréfinu kemur fram að miðað við stærð húss falli það ágætlega inn í umhverfið.

Gerðar eru athugasemdir við staðsetningu hússins þar sem því var snúið miðað við það sem fram kemur á samþykktu deiliskipulagi.

Einnig er gerð krafa um að sveitarfélagið kanni til hlýtar hættu á mengun sem gæti komið upp vegna frárennslismála sökum byggingarmagns og sett er út á staðsetningu rotþróar.

Kristján M. Gunnarsson spyr hvort ekki hafi farið fram grenndarkynning nema fyrir fáeina útvalda og mótmælir öllum frekari stækkunum þar sem húsið sé þegar farið að byrgja fyrir útsýni.

Sveitarstjórn hefur fylgt öllum lögum og reglum varðandi meðferð á deiliskipulagstillögu lóðar nr. 200, bæði árið 2002 og nú. Tillagan var auglýst og þar með öllum gefinn kostur á að koma með athugasemdir við hana.

Ástæða þess að staðsetningu húss var breytt er sú að deiliskipulagsuppdráttur var ekki réttur varðandi áttir en eftir sem áður er húsið innan þess byggingarreits sem gert var ráð fyrir á deiliskipulagstillögu.

Þó svo að húsið sé stærra heldur en gengur og gerist í sumarhúsahverfinu við 5. braut, fellur það vel að umhverfi og byrgir ekki útsýni manna enda er trjágróður á svæðinu gamall og gróinn og stendur í mörgum tilfellum mun hærra heldur en viðkomandi bygging.

Hins vegar má taka undir það sjónarmið að hugsanlega þarf að marka stefnu varðandi byggingarmagn, sér í lagi í þegar byggðum hverfum.

Gert er ráð fyrir að rotþró verður staðsett í um 15 m. fjarlægð frá lóðarmörkum og uppfyllir því reglur um 10m. lágmarksfjarlægð.

Þótt húsið sé stórt eru ekki nema fjögur herbergi í því og engin ástæða til að ætla að þar verði meiri hætta á mengun í tengslum við frárennslismál vegna byggingarmagns.

Varðandi álag á vegi vegna framkvæmda liggur fyrir fundi bréf þar sem tekin er ábyrgð á viðgerðum á vegi verði skemmdir á honum vegna framkvæmdanna.

Sveitarstjórn þakkar fyrir fram komnar athugasemdir og ábendingar en telur ekki ástæðu til annars en að samþykkja fyrirliggjandi deiliskipulagsbreytingu sbr. 26. gr. skipulags-og byggingarlaga samkvæmt ofangreindum rökum.

c) Framkvæmdaleyfi við Úlfljótsvatn

Á fundi sveitarstjórnar 18. janúar s.l. var tekin fyrir beiðni um framkvæmdaleyfi við varnir gegn landbroti við austanvert Úlfljótsvatn.

Það voru landeigendur við austanvert Úlfljótsvatn sem óskuðu eftir framkvæmdaleyfi sbr. tölvupóst dags. 17. janúar 2006.

Sveitarstjórn samþykkti að óska eftir umsögn Umhverfisstofnunar sbr. b. lið 37. gr. náttúruverndarlaga. Einnig var óskað eftir umsögn veiðimálastjórnar Landbúnaðarstofnunar.

Ofangreindar umsagnir liggja fyrir og eru ekki gerðar athugasemdir við ofangreinda framkvæmd.

Sveitarstjórn samþykkir að veita framkvæmdaleyfi sbr.27. gr. skipulags-og byggingarlaga.

d) Umsögn vegna kæru um ákvörðun skipulagsnefndar

Lögð fram til kynningar umsögn vegna kæru á ákvörðun skipulagsnefndar uppsveita Árnessýslu um synjun á umsókn um byggingu 81, 8 m2 frístundahúss og 31,5 m2 aukahúss í landi Vaðness. Nefndin samþykkti ekki stærra aukahús en 25 m2 í samræmi við reglur sveitarfélagsins og lýtur ágreiningur fyrst og fremst að því.

Skipulagsnefnd afgreiddi umsókn um byggingu aukahúss í samræmi við gildandi deiliskipulag og reglur sveitarfélagsins.

e) Skilmálabreytingar í landi Ormsstaða

Lögð fram tillaga að breytingu á deiliskipulagsskilmálum fyrir sumarhúsalóðir í landi Ormsstaða.

Beiðandi er Tómas Jón Brandsson, Ormsstöðum.

Tillagan gerir ráð fyrir að hámarksstærð frístundahúsa verði 150 m2 í stað 100 m2. Einnig að heimilt verði að byggja aukahús allt að 25 m2 í stað 10-15 m2.

Sveitarstjórn samþykkir að heimila auglýsingu á fyrirliggjandi tillögu sbr. 26. gr. skipulags-og byggingarlaga.

4. Kauptilboð í land sveitarfélagsins við Kerhraun

Tekið fyrir kauptilboð dags. 17. febrúar 2006 í land sveitarfélagsins við Kerhraun sbr. meðfylgjandi yfirlitsmynd.

Sveitarstjórn samþykkir að láta gera lóðablað fyrir viðkomandi svæði og taka fyrirliggjandi tilboði.

5. Kauptilboð í Ljósafossskóla

Tekið fyrir kauptilboð í Ljósafossskóla ásamt kennaraíbúðunum Ás, Brúarás 1 og 2 og um 8 ha. lands.

Sveitarstjórn samþykkir fyrirliggjandi tilboð með fjórum atkvæðum gegn einu.

Sigurður Karl Jónsson greiðir atkvæði gegn samþykktinni.

6. Námur í Seyðishólum

Rætt um námu sveitarfélagsins í Seyðishólum og framtíðarskipan á henni.

Samþykkt að leita samninga við aðila sem fæli í sér umsjón með námu sveitarfélagsins ásamt umsjón með losunarstað fyrir jarðvegsúrgang.

Samningur verður lagður fyrir sveitarstjórn til staðfestingar þegar hann liggur fyrir.

7. Refaveiðar

Á fundi sveitarstjórnar 15. febrúar s.l. var samþykkt að refaveiðar væru frá 1. apríl til 31. ágúst árið 2006.

Sveitarstjórn samþykkir að breyta veiðitímabili fyrir refaveiðar þannig að þær standi frá 1. maí til 30. september 2006.

8. Tillaga til þingsályktunar um stefnamótandi byggðaáætlun 2006-2009

Lögð fram tillaga til þingsályktunar ums tefnumótandi byggðaáætlun 2006-2009. Óskað er eftir umsögn sveitarfélagsins fyrir 8. mars 2006.

Sveitarstjórn Grímsnes-og Grafningshrepps ítrekar bókun sína frá 17. október 2005 um að Byggðastofnun verði lögð niður og því fé sem varið er til hennar verði varið í eflingu atvinnuþróunarfélaga landsbyggðarinnar.

9. Íbúaskrá

Lögð fram íbúaskrá Grímsnes-og Grafningshrepps 1. desember 2005.

Ekki eru gerðar athugasemdir við fyrirliggjandi skrá.

10. Til kynningar:

a) Norræn sveitarstjórnarráðstefna

b) Ráðstefna um staðardagskrá 21

c) Áætluð útgjaldajöfnunarframlög 2006

d) Áætlun um greiðslur almennra jöfnunarframlaga 2006

e) Kynningarrit um Þorlákshöfn

11. Önnur mál:

a) Uppsögn félagsmálafulltrúa

Sólveig Pétursdóttir, félagsmálafulltrúi uppsveita Árnessýslu hefur sagt upp störfum sínum frá og með 1. mars n.k.

Sólveigu eru þökkuð góð störf í þágu sveitarfélagsins á undanförnum árum.

b) Lóðablað úr landi Brjánsstaða

Lagt fram leiðrétt lóðablað úr landi Brjánsstaða, 11,475 ha.

Beiðandi er Minniborgir hf.

Fyrirliggjandi lóðablað er samþykkt samkvæmt 30. gr. skipulags-og byggingarlaga með fyrirvara um staðfestingu nærliggjandi landeigenda.

Fleira ekki tekið fyrir og fundi slitið kl. 16.00

Gunnar Þorgeirsson (sign)

Margrét Sigurðardóttir (sign)

Guðmundur Þorvaldsson (sign)

Sigurður Karl Jónsson (sign)

Böðvar Pálsson (sign)