180. fundur hreppsnefndar,17,05,06

lindaFundargerðir, Sveitastjórn

SVEITARSTJÓRN GRÍMSNES- OG GRAFNINGSHREPPS

 

Fundargerð

 

Ár 2006, miðvikudag 17. maí  var haldinn 180. fundur sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps í Stjórnsýsluhúsinu Borg.

 

Fundinn sátu:              Gunnar Þorgeirsson

Guðmundur Þorvaldsson

                                    Margrét Sigurðardóttir

                                    Sigurður Karl Jónsson

Böðvar Pálsson

 

Fundargerð ritaði Margrét Sigurðardóttir sveitarstjóri. Gunnar Þorgeirsson stýrði fundi. Fundur var settur kl. 13.30

 

Þar sem um er að ræða síðasta fund sveitarstjórnar þetta kjörtímabil þakkar oddviti fulltrúum í sveitarstjórn fyrir ánægjulegt samstarf.

Sérstaklega er aldursforsetum, Böðvari Pálssyni og Guðmundi Þorvaldssyni þökkuð þeirra störf í þágu samfélagsins.

Böðvar þakkaði fyrir gott samstarf.

Guðmundur þakkaði einnig fyrir ánægjulegt samstarf.

 

Sigurður Karl Jónsson óskaði eftir því að þau málefni sem ekki fylgja gögn með verði vísað frá eða tekin til kynningar.

Gunnar Þorgeirsson benti á að samkvæmt samþykktum sveitarfélagsins og sveitarstjórnarlögum er ekki skylda að senda öll gögn með fundarboði. Fundarboð var sent út á tilskyldum tíma .

 

1.      Fundargerð sveitarstjórnar

Fundargerð sveitarstjórnar dags. 3. maí lögð fram.

2.      Fundargerð fulltrúaráðs Grunnskóla Bláskógabyggðar og Grunnskólans Ljósuborgar

Fundargerð fulltrúaráðs Grunnskóla Bláskógabyggðar og Grunnskólans Ljósuborgar dags. 8. maí 2006 lögð fram ásamt samstarfssamningi um samvinnu í skólamálum. Fundargerð og samningur samþykkt með fjórum atkvæðum.

Sigurður Karl Jónsson situr hjá.

3.      Skipulagsmál:

a)      Tillaga að lóð við félagsheimili, sundlaug og skóla á Borg

Lögð fram tillaga að frágangi lóðar við félagsheimili, sundlaug og skóla á Borg, unnin af Birki Einarssyni landslagsarkitekt.

Tillagan gerir ráð fyrir að aðkoma (Skólabraut) færist til vesturs sem er í samræmi við deiliskipulag af Borgarsvæðinu. Einnig er gert ráð fyrir sparkvelli og körfuboltavelli við skóla, torgi fyrir framan skóla og bílastæðum fyrir félagsheimili, skóla og sundlaug.

Sveitarstjórn samþykkir tillöguna með fjórum atkvæðum gegn einu og að tillögunni verði vísað til hönnuðar með breytingarhugmyndum aðstoðarskólastjóra. Einnig er samþykkt að áfangaskipta verkinu.

Sigurður Karl Jónsson bókar mótmæli gegn tillögunni og leggur til að hönnunin verði boðin út.

4.      Kjörskrá vegna sveitarstjórnarkosninga 2006 (gögn lögð fram á fundi)

Kjörskrá vegna sveitarstjórnarkosninga 2006 lögð fram og yfirfarin. Á kjörskrá eru 271 aðilar, 123 konur og 148 karlar.

Kjörskráin mun liggja frammi á skrifstofu sveitarfélagsins til 27. maí n.k.

5.      Laun kjörstjórnar vegna sveitarstjórnarkosninga 2006

Sveitarstjórn samþykkir að heildarlaun kjörstjórnar vegna sveitarstjórnarkosninga 2006 verði eftirfarandi:

Formaður kr. 50.000

Aðrir nefndarmenn kr. 25.000

Dyraverðir kr. 1.500 pr/klst.

6.      Samþykkt um hundahald í Grímsnes-og Grafningshreppi

Tekin fyrir til seinni umræðu samþykkt um hundahald í Grímsnes-og Grafningshreppi ásamt gjaldskrá.

Samþykktin gerir ráð fyrir að hundar verði örmerktir og að eigendur verði ábyrgir fyrir því tjóni sem hundar þeirra kunna að valda.

Hundar verði ekki lausir á almannafæri og að þeir raski ekki ró íbúa sveitarfélagsins.

Hundaeiganda ber skylda til að láta hreinsa hund sinn árlega.

Sveitarstjórn samþykkir fyrirliggjandi samþykkt ásamt gjaldskrá sem send verður til umsagnar Heilbrigðisnefnd Suðurlands.

7.      Beiðni um umsögn vegna draga að reglugerð um verndun lífríkis og vatnasviðs Þingvallavatns

Tekin fyrir beiðni um umsögn draga að reglugerð um verndun lífríkis og vatnasviðs Þingvallavatns, sbr. 1. mgr. 3. gr. og 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/225 um verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess.

Sveitarstjórn hefur ekki breytt afstöðu sinni frá fundi sínum 13. apríl 2004 þar sem bókuð voru mótmæli  gegn sérstökum lögum um verndun vatnasviðs Þingvallavatns og tekur því ekki afstöðu til fyrirliggjandi reglugerðar.

8.      Hreinsistöð á Borg

Lagt fram tilboð Bólholts ehf. um hreinsivirki fyrir fráveitu að Borg. Tilboðið gerir ráð fyrir 19.900.000 kr. án vsk.

Sveitarstjórn samþykkir fyrirliggjandi tilboð með fjórum atkvæðum gegn einu ásamt því að framkvæmdir við fráveituna verði boðin út og gerð á árinu.

Sigurður Karl Jónsson bókar mótmæli og vill að málinu verði frestað.

9.      Hitaveita á Borg

Lagt fram minnisblað frá Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen hf. vegna hitaveitu frá Vaðnesi að Borg.

Samþykkt að fá endurskoðunarskrifstofu KPMG til ráðgjafar varðandi fjármögnun og hugsanlega hlutafélagsvæðingu veitustofnana sveitarfélagsins

Sveitarstjórn samþykkir með fjórum atkvæðum gegn einu að tryggja efni vegna framkvæmda við lagningu hitaveitu frá Vaðnesi að Borg.

Sigurður Karl Jónsson vill að málinu verði frestað fram yfir kosningar og vill að sveitarfélagið stofni hlutafélag varðandi veitur sínar fyrir hugsanlegar framkvæmdir.

10.    Kauptilboð í Torfastaði II

Tekið fyrir kauptilboð í jörð sveitarfélagsins, Torfastaði II.

Sveitarstjórn samþykkir með fjórum atkvæðum gegn einu að hafna fyrirliggjandi tilboði en gerir tilboðshafa gagntilboð um að kaupa Torfastaði II á sambærilegu verði og Torfastaðir I voru seldir á, á uppfærðu verði til dagsins í dag.

Gagntilboðið gildir til 26. maí n.k.

Sigurður Karl Jónsson bókar mótmæli við sölu jarðarinnar og gagntilboði sveitarfélagsins. Hann telur verðið of lágt, um 15.000.000 kr.

11.    Kauptilboð í land sveitarfélagsins sunnan Biskupstungnabrautar

Tekið fyrir kauptilboð í land sveitarfélagsins sunnan Biskupstungnabrautar, um 50 ha.

Sveitarstjórn samþykkir að hafna fyrirliggjandi tilboði.

12.    Svar KSÍ vegna umsóknar um sparkvöll frá KSÍ

Lagt fram til kynningar svar KSí vegna umsóknar sveitarfélagsins um sparkvöll við grunnskólann.

Svarið var jákvætt og sveitarstjórn fagnar samþykki KSÍ við umsókn sveitarfélagsins. Sveitarstjórn samþykkir að hefja framkvæmdir við undirbúning sparkvallar sem fyrst.

13.    Opnunartími leikskóla

Lagt fram bréf frá fræðslunefnd Bláskógabyggðar og Grímsnes-og Grafningshrepps vegna opnunartíma leikskólans Kátuborgar.

Í bréfinu kemur fram að fræðslunefnd hefur ekki samræmt opnunartíma þeirra leikskóla sem falla undir nefndina. Stefnan hefur ekki verið að hafa vistunarvalkosti eins fáa og kostur er en þó þannig að þörfum samfélagsins á hverjum stað sé sinnt. Vistunarvalkostir eru ákveðnir að vori fyrir komandi skólaár og þeim ekki breytt á öðrum tíma nema sérstaklega standi á.

Fræðslunefnd hefur því ákveðið opnunartíma í samvinnu við leikskólastjóra/yfirvöld á hverjum stað.

Í upphafi síðasta starfsárs var opnunartími leikskólans Kátuborgar ákveðinn miðað við óskir foreldra þá og starfsfólk ráðið til samræmis við það.

Sveitarstjórn samþykkir að opnunartími leikskóla verði í samræmi við óskir foreldra í upphafi næsta skólaárs.

Sigurður Karl Jónsson bókar að hann vilji að breyta megi opnunartíma eftir þörfum foreldra til kl. 17.00

14.    Umsögn Málflutningsskrifstofunnar ehf vegna byggingarleyfis sumarhúss í landi Miðengis

Tekin fyrir umræða um kröfu Haraldar Ellingsen um fjarlægingu á sumarhúsinu Sunnuhvol, sem er í eigu Margrétar og Sigrúnar Óskarsdætra.  Á fundinum lágu fyrir bréf lögmanna aðila sem og umsögn Óskars Sigurðssonar, hrl.  Sveitarstjórn samþykkir eftirfarandi:

Hér er um að ræða deilu aðila, sem eiga land í sameign, og í ljósi dóms Hæstaréttar frá 19. janúar s.l. í máli þeirra er ljóst að hvorugur aðilinn getur framkvæmt nokkuð á landinu nema með samþykki hins.  Við mat á því hvort fallast beri á kröfu um fjarlægingu hinnar umdeildu byggingar verður að hafa í huga þá hagsmuni, sem í húfi eru.  Annars vegar hagsmunir Haraldar um að fá að vera í friði á sinni eign og að framkvæmdir verði í lágmarki á landinu.  Þó ber hér á að líta að hann fékk sjálfur leyfi til að stækka sumarbústað sinn árið 1996 án þess að aflað væri formlega samþykkis frá meðeigendum hans og hefði þar af leiðandi mátt búast við, að þeim yrði einnig leyft það.  Tekið skal þó fram að þar var um minni stækkun að ræða en þá er hér um ræðir.  Hins vegar eru það hagsmunir Margrétar og Sigrúnar, sem reist hafa og kostað til byggingu þessa húss á landinu á grundvelli útgefins byggingarleyfis og samþykktra teikninga.  M.ö.o. má segja að matið á hagsmunum aðila lúti að því að bera saman meint tjón Haraldar vegna byggingarinnar við hugsanlegan kostnað og eyðileggingu verðmæta yrði byggingin fjarlægð sem og röskun og óþægindi, sem slík framkvæmd hefði í för með sér fyrir aðila.

Hið umdeilda sumarhús er fullbúið.  Fasteignin fellur vel að umhverfi sínu og er frágangur og umbúnaður mjög góður.  Gerð var séraðkoma að húsinu, malarvegur og plan fyrir framan bygginguna.  Húsið er reist á byggingarreit eldri byggingar en stækkun þess gengur öll í átt frá sumarhúsi Haraldar.  Á milli sumarhúsanna er þéttvaxinn skógur, há grenitré sem eru um 50 ára gömul.  Á milli sérafnotalóða aðila rennur lækur og fer bygging Margrétar og Sigrúnar hvergi nær læknum en 10 metrar eins og var með eldri byggingu.  Það er því ekki sjónlína á milli húsanna.  Á grasflöt fyrir framan hús Haraldar er þó hægt að sjá í skjólgirðingu á verönd Margrétar og Sigrúnar.  Að mati sveitarstjórnar verður því Haraldur ekki fyrir tjóni eða óþægindum í skilningi nábýlisréttar vegna byggingarinnar.  Hugsanleg óþægindi eru ekki meiri en það sem almennt þekkist í öðrum sumarhúsahverfum auk þess sem hin umdeilda bygging eða hagnýting hennar kemur ekki í veg fyrir að Haraldur geti notið friðar á fasteign sinni.  Endurbygging eignarinnar er í samræmi við það sem hefur verið að gerast á þessu svæði á undanförnum árum.

Í ljósi alls framangreinds getur sveitarstjórn ekki fallist á kröfu um niðurrif eða fjarlægingu sumarhússins.  Hugsanlegt tjón eða óþægindi Haraldar verður að telja óveruleg miðað við verðmætaröskun sem myndi óhjákvæmilega leiða af slíkri aðgerð.  Haraldur Ellingsen verður í þessu tilviki því að láta sér nægja skaðabætur, geti hann sýnt fram á að hann verði fyrir tjóni af þessum sökum og/eða að óþægindi hans vegna byggingarinnar fari fram úr því sem honum er skylt að þola samkvæmt nábýlisrétti.

Sveitarstjórn tekur einnig fram að mjög erfitt sé fyrir sveitarstjórn hvort heldur sem er að fallast á kröfu um fjarlægingu eignarinnar meðan ekki liggur fyrir skýr heimild dómstóls fyrir slíkri aðgerð.  Minnt skal á í þessu sambandi að Hæstiréttur tók ekki afstöðu til þeirra sjónarmiða að verðmæti færu forgörðum er hann fjallaði um kröfu Haraldar um ógildingu byggingarleyfis.

15.    Beiðni um styrk vegna barna-og unglinganámskeiðs á Sólheimum

Lagt fram bréf frá Valgeir Backman dags. 9. maí 2006 þar sem óskað er eftir styrk frá sveitarfélaginu vegna íþrótta-og leikjanámskeiða fyrir börn á Sólheimum.

Sveitarstjórn samþykkir að greiða kr.300.000 í styrk.

16.    Hlutverk sveitarstjórna vegna sveitarstjórnakosninga 2006

Lagt fram til kynningar upplýsingar frá Félagsmálaráðuneyti um hlutverk sveitarstjórna í sveitarstjórnarkosningum.

17.    Erindi frá Umhverfisstofnun vegna refa-og minkaveiða

Lagt fram til kynningar bréf erindi frá Umhverfisstofnun dags. 10. maí 2006 varðandi viðmiðunartaxta ríkisins vegna refa-og minkaveiða uppgjörstímabilið 1. september 2005 til 31. ágúst 2006.

Fram kemur að ríkissjóður endurgreiðir allt að 50% útlagðs kostnaðar og verðlauna svo fremi að greiðslur fari ekki fram úr viðmiðunartölum.

Viðmiðunartaxtar eru óbreyttir frá fyrra ári.

18.    Erindi frá Héraðssambandinu Skarphéðni

Lagt fram til kynningar erindi frá Héraðssambandinu Skarphéðni dags. 10. maí 2006.

19.    Bréf frá Sigurði Jónssyni

Lagt fram bréf frá Sigurði Jónssyni dags. 14. maí 2006 þar sem óskað er svara við spurningum varðandi úthlutun lóða á Borg 2006, fjölda þeirra og greiðslum fyrir þær.

Einnig er óskað eftir upplýsingum um hversu margar lóðir séu óseldar í dag og hver verkstaða á útboði gatnagerða á Borgarsvæði sé í upphæðum.

Á þessu ári hefur verið úthlutað 8 parhúsalóðum og 8 einbýlishúsalóðum. Áður hefur verið úthlutað 10 parhúsalóðum og 2 einbýlishúsalóðum.

Vegna úthlutunar lóða á þessu ári eru mótteknar greiðslur sveitarfélagsins vegna gatnagerðargjalda kr.11.787.944.

Gatnagerðargjöld greiðast í þrennu lagi, 30% við undirskrift samnings, 30% sex mánuðum seinna og 40% þegar frágangi við götu er lokið.

Þeim lóðum sem enn er óúthlutað er 1 parhúsalóð og 9 einbýlishúsalóðir.

Verkstaða á útboði gatnagerða er kr. 35.104.401,-

20.    Tölvupóstur frá Ingvari Ingvarssyni

Lagt fram bréf frá Ingvari Ingvarssyni dags. 14. maí 2006 þar sem hann kynnir lista óháðra kjósenda, K-listann sem hann er í forsvari fyrir.

Einnig lagt fram bréf frá Ingvari þar sem hann óskar eftir upplýsingum um hversu margir nemendur úr Grímsnes-og Grafningshreppi séu keyrðir í Reykholtsskóla til kennslu, hversu mikið sveitarfélagið greiðir fyrir hvern nemenda, hversu mikið greitt sé fyrir börn með lögheimili utan sveitarfélagsins, með búsetu í Grímsnes-og Grafningshreppi en stunda nám í Grunnskólanum Bláskógabyggð og hverjar séu viðmiðunarreglur Sambands íslenskra sveitarfélaga varðandi greiðslur barna með lögheimili utan sveitarfélags.

16 nemendur úr sveitarfélaginu stunda nám í Grunnskóla Bláskógabyggðar, Reykholti og greiðir sveitarfélagið samkvæmt viðmiðunarreglum Sambands íslenskra sveitarfélaga. Einnig er innheimt samkvæmt sömu viðmiðunarreglum fyrir börn sem eiga lögheimili annars staðar en í sveitarfélaginu.

21.    Bréf frá Guðjóni Smára Valgeirssyni

Tekið fyrir bréf frá Guðjóni Smára Valgeirssyni dags. 13. maí 2006 þar sem óskað er eftir styrk vegna uppsetningu nýrra teygaskilta á golfvellinum Kiðjabergi.

Sveitarstjórn samþykkir veita styrk kr. 100.000 á teygaskilti á golfvöllinn í Kiðjabergi.

22.    Vegmerkingar

Á fundi sveitarstjórnar þann 5. apríl s.l. var tekið fyrir bréf frá Vegagerðinni dags. 21. mars 2006 um merkingu sveitabæja.

Vegagerðin bauð sveitarfélögum að hanna merkingar í samráði við heimamenn, smíða þau og setja upp. Sveitarfélagið greiðir fyrir merkin og uppsetningu þeirra og að verki loknu muni Vegagerðin taka að sér að halda merkjunum við á sinn kostnað. Tilboð þetta mun standa næstu tvö ár, 2006 og 2007.

Sveitarstjórn samþykkti að nýta fyrirliggjandi tilboð frá Vegagerðinni.

Nú liggur fyrir fundi úttekt Vegagerðar á merkingum í sveitarfélaginu og er áætlaður kostnaður vegna skilta sem vantar eða þarf að laga og uppsetningu þeirra 1.216.000 kr.

Sveitarstjórn samþykkir að á árinu 2006 verði tekin fyrir lögbýli þar sem merkingum er ábótavant og að gert verði ráð fyrir merkingum sumarhúsahverfa við gerð fjárhagasáæltunar fyrir árið 2007.

23.    Fundargerð fræðslunefndar (gögn afhent á fundi)

Lögð fram fundargerð fræðslunefndar dags. 8. maí 2006.

24.    Til kynningar:

a)      Aukaaðalfundur SASS dags. 25. apríl 2006 (fundargerð liggur frammi á fundi)

b)     Erindi frá Félagsmálaráðuneyti dags. 26 apríl 2006

c)      Erindi frá ÖBÍ dags. 9. maí 2006

d)     Álagning fasteignagjalda í Landskrá fasteigna

e)      Erindi frá Menntamálaráðuneyti dags. 5. maí 2006

 

Fleira ekki tekið fyrir og fundi slitið kl. 

 

            Gunnar Þorgeirsson (sign)

            Guðmundur Þorvaldsson (sign)

                                    Margrét Sigurðardóttir (sign)

                                    Sigurður Karl Jónsson (sign)

Böðvar Pálsson (sign)