3. fundur samráðshóps um sameiningu skóla

gretarFundargerðir

Þriðji fundur samráðshóps um sameiningu leik- og grunnskóla haldinn í stjórnsýsluhúsinu Borg, mánudaginn 23. janúar 2011.

 

Fundinn sátu

Hilmar Björgvinsson, skólastjóri

Guðný Tómasdóttir, formaður fræðslunefndar

Benedikt Gústavsson, fulltrúi fræðslunefndar

Vigdís Garðarsdóttir, fulltrúi fræðslunefndar

Linda Sverrisdóttir, fulltrúi kennara leikskólans

Sigmar Ólafsson, fulltrúi kennara grunnskólans

Birna Guðrún Jónsdóttir, fulltrúi foreldra leikskólans

Pétur Thomsen, fulltrúi foreldra grunnskólans

Ingibjörg Harðardóttir, sveitarstjóri

Fundargerð færð í tölvu og hana ritaði Ingibjörg Harðardóttir.

Fundarstjóri Hilmar Björvinsson, skólastjóri.

1. Samantekt af skólaheimsóknum.

Þriðjudaginn 11. janúar heimsóttu fulltrúar samráðshópsins Krikaskóla í Mosfellsbæ og Dalskóla í Úlfljótsárdal í Reykjavík en báðir skólarnir eru leik- og grunnskólar.

Fulltrúar hópsins kynntu hver og einn upplifun sína frá þessum heimsóknum og voru listaðar upp annars vegar góðar hugmyndir og hins vegar þættir sem ber að varast. Margar hugmyndir komu fram og þær ræddar. Sjá fylgiskjal 1.

2. Stjórnskipulag.

Skólastjóri las upp bréf sem hann sendi fulltrúum samráðshópsins þann 15. desember. Bréfið hljóðaði svo:

Á fyrsta fundi samráðshópsins lagði skólastjóri fram tillögu um að auglýsa innanhúss eftir deildarstjóra yngra stigs, þ.e. frá 18 mánaða til 10 ára. Samþykkt var að skólastjóri kæmi tillögunni til sveitarstjórnar.

Í framhaldi af umræðum í samráðshópnum, umræðum á kennarafundi grunnskólans og í skólaráði grunnskólans legg ég til að þeirri ákvörðun um að auglýsa eftir deildarstjóra verði frestað um sinn. Ég hef því ekki komið tillögunni enn formlega til sveitarstjórnar.

Hugsanlegt er að annað fyrirkomulag en framangreint geti reynst betur og því mun skólastjóri taka málið upp að nýju í samráðshópnum.

Á meðan mun ég leita til eins kennara leikskólans og eins kennara grunnskólans til að starfa með mér í teymi til að undirbúa og samræma innra starf skólans á fyrstu mánuðum hans.

Þar sem þetta er ekki það sem við ákváðum 1. fundi samráðshópsins mun ég taka málið upp á næsta fundi.

Skólastjóri gerði grein fyrir því að hann hafi talið skynsamlegt að byrja með þriggja manna teymi til að auðvelda sameininguna og að gera sem minnstar breytingar á skólastarfinu þessa fyrstu mánuði. Í teyminu eru auk skólastjóra Linda Sverrisdóttir leikskólaliði og Ragna Björnsdóttir grunnskólakennari.

Skólastjóri leggur til að umræða um stjórnskipulag skólans verði tekin upp síðar.

3. Skýrslur um framtíðarskipulag skólans, húsnæðismál og könnun á framkvæmd samreksturs skóla

Skólastjóri kynnti skýrslurnar lauslega. Eftir það fóru fram umræður um skýrslurnar. Skýrslurnar þykja góðar og gildar en margt breytt síðan þær voru gerðar. Allir voru sammála um að gott sé að styðjast við þær en vera opin fyrir breytingum.

4. Leik- og grunnskólinn á Borg. Húsnæðismöguleikar, fjöldi árganga og könnun.

Fulltrúar hópsins kynntu hugmyndir sínar varðandi húsnæði skólans og aldursbil nemenda.

Birna og Linda kynntu hugmynd sína um að byggja tengibyggingu yfir í félagsheimilið og aldursbil nemenda yrði frá 12 mánaða og upp í 10. bekk. Inn í þeirri hugmynd var að skrifstofa sveitarfélagsins færi út úr húsinu.

Sveitarstjóri gerði grein fyrir þeim hugmyndum sem meirihluti sveitarstjórnar sér varðandi húsnæðismál leik- og grunnskólans. Sú hugmyndin er að byggja 200 – 250m2 tengibygginu milli grunnskólans og félagsheimilisins. Skólinn héldi leikskólahúsnæðinu sem list- og verkgreinahúsi og skrifstofa sveitarfélagsins yrði áfram á sínum stað. Viðbótarrými yrði þá fyrir leik- og grunnskólann frá því sem nú er 200 – 250m2. Nýbyggingin gæti orðið tilbúin haustið 2012 og verður hönnuð með það í huga að auðvelt verði að byggja ofan á hana síðar ef nemendum fjölgar eða ef fleiri árgangar verða teknir inn.

Rætt var um að senda út könnun meðal foreldra, nemenda og kennara um hve hátt skólinn á að vaxa og skólastjóra falið að útbúa könnun og senda út til hópsins til samþykktar.

5. Næstu skref

Nýtt nafn á skólann.

Umræður urðu um hvað nýr skóli ætti að heita. Leikskólinn Kátaborg og Grunnskólinn Ljósaborg eru ekki nógu lýsandi fyrir sameiginlegan skóla og því eitt nafn betra. Samráðshópurinn er sammála um að koma af stað nafnasamkeppni um nafn á nýja skólann og auglýsa nafnasamkeppnina í næsta Hvatarblaði. Samráðshópurinn yrði dómnefnd vegna samkeppninnar og ætlast yrði til þess að þátttakendur skiluðu inn tillögum undir dulnefni. Skólastjóra er falið að gera uppkast að auglýsingu.

Næsti fundur er ákveðinn þriðjudaginn 8. febrúar kl. 9:00.

Ekki fleira tekið fyrir og fundi slitið kl. 14:50