lindaUncategorized

Í byrjun október prófaði Linda Sverrisdóttir  samskiptaverkefni, sem við á Kátuborg kölluðum SÓLARGEISLARNIR Í KÁTUBORG, og var það mjög skemmtilegt og gefandi.

 

Hugmyndina að verkefninu fann ég í :

Lokaskýrslu til Þróunarsjóðs leikskóla

Þróunarverkefnið

Virðing og Jákvæð samskipti

Leikskólinn Gefnarborg, Garði

Júní 2008

Þar var verkefnið ætlað fullorðnum og verkefninu lýst svona:

„Allir starfsmenn komu með mynd af sér frá því að þeir voru lítil börn. Myndin var límd á hring sem klipptur var út úr gulu kartoni. Hringirnir voru hengdir upp á vegg í kaffistofu starfsfólks. Hver og einn skrifaði eitthvað fallegt um samstarfsfólk sitt á gula strimla og hengdi við myndirnar, sem mynduðu sól og strimlarnir sólargeisla.

Markmiðið með þessu var að allir einbeittu sér að sterkum hliðum samstarfsfólksins og að starfsfólk fengi hrós og speglun frá samstarfsfólki. Forðast átti að hrósa útliti, en rýna frekar í innri mann og mannkosti.“

Ég ákvað að breyta verkefninu og prófa þetta á 3-5 ára börnunum á leikskólanum hjá mér, því ég sá að þetta myndi geta þjálfað markvisst svo marga þætti í samskiptum og öðru, t.d. kenna þeim að tjá sig, hrósa og að taka hrósi, hugsa frekar jákvætt en neikvætt, virka hlustun, orðskilning og fl. Ég ákvað einnig að setja ekki útá það ef þau hrósa útliti, fötum og þ.h., en benda góðlátlega á aðra möguleika.

Ég byrjaði á því að taka myndir af öllum börnunum, límdi þær á gult karton sem klippt var í hring, plastaði þær og hengdi upp vegg, þar sem við erum með samverustundir. Börnin voru voða spennt og spurðu hvers vegna ég væri að hengja myndirnar upp þarna. Ég sagði þeim að þetta tengdist verkefni sem við ætluðum að vinna saman.

Við settumst í hring á gólfinu og ég útskýrði fyrir þeim út á hvað verkefnið gengi . Þ.e.a.s. að þau væru sólir og við ætluðum að búa til sólargeisla á sólirnar, þannig að allar sólirnar myndu skína skært. Svo sagði ég að við ætluðum að æfa okkur í því að segja eitthvað fallegt um og við hvort annað, og æfa okkur í að hugsa jákvætt. Ég sýndi þeim geislanna sem ég var búin að klippa út og útskýrði framkvæmdina. Verkefnið stóð í c.a. 8.daga. Við settumst saman í hring, á hverjum morgni fyrir morgunmat og þau sögðu eitthvað fallegt við einn í hópnum sem ég skrifði svo á geisla og þau hengdu hjá viðkomandi barni. T.d. Palli sagði eitthvað fallegt um Gunnu, og Palli átti að horfa á Gunnu meðan hann segði eitthvað fallegt við hana, ég skrifaði það svo á geisla og Palli setti geislann hjá myndinni af Gunnu. Ég stjórnaði því svo þannig að allir sögðu eitthvað fallegt um alla. En fyrsta geislann hengdu þau hjá sjálfum sér, þau litu í spegil og sögðu eitthvað fallegt um sjálfan sig.

Það setti svolítið strik í reikninginn veikindi og frí hjá börnunum þennan tíma, en við leystum það þannig að við fundum saman falleg orð og sendum hlýjar hugsanir til þeirra sem voru ekki við, og lásum það svo fyrir viðkomandi þegar hann kom aftur.

Ég spurði þau hvaða orð við gætum notað, hvað þeim þættu falleg orð, ég laumaði svo inn nokkurum orðum sem mér fannst að þau gætu hugsanlega notað. Ég sagði þeim líka að það væri mjög gott að æfa sig heima, við mömmu, pabba og systkyni, í útivistinni hjá okkur og bara allstaðar að segja eitthvað fallegt við þá sem eru nálægt okkur. Því að þegar við segjum eitthvað fallegt við einhvern þá fáum við oft bros og eitthvað fallegt á móti.

Nú er verkefninu lokið og gekk það framar vonum, þau að vísu spegluðu hvort annað frekar mikið en það er allt í lagi, hugsunin að baki var falleg.

Vinsælasta setningin, og sú sem er á flestum geislum er „Ég elska þig“ ekki amalegt þaðJ

Kærleiksknús,

Linda Sverrisdóttir.