8. bekkur í Grunnskólanum Ljósuborg næsta vetur

lindaFréttir

Á sveitarstjórnarfundi þ. 18. desember var ákveðið að 1. – 8. bekkur verði kennt í Grunnskólanum Ljósuborg næsta vetur. Í vetur hefur sá árgangur verið í skólanum en alla jafna hefur 8. – 10. bekkur farið í Reykholt.

Allt frá því síðast liðið vor hefur verið unnin stefnumótunarvinna í skólamálum sveitarfélagsins og liggur nú fyrir skýrsla Hrannar Pétursdóttur um fyrirkomulag skólamála- greining valkosta- en ráðist var í þá vinnu í kjölfar ákvörðunar sveitarstjórnar að starfrækja 8. bekk í Grunnskólanum Ljósuborg skólaárið 2008/2009.

Skýrslan hefur verið kynnt og rædd í sveitarstjórn, leik- og grunnskólaráði og íbúafundi þann 11. desember sl. Þá hafa kennarar fjallað um efni hennar. Á fundi leik- og grunnskólaráðs þann 16. desember sl. var samþykkt sú ályktun að mæla með því við sveitarstjórn að áfram verði starfræktur 1-8. bekkur í Grunnskólanum Ljósaborg skólaárið 2009/2010 með tilliti til þess að fundin verði ásættanleg og hentug lausn á húsnæðismálum skólans.

Sveitarstjórn samþykkti á þessum fundi að starfræktur verði áfram 1-8. bekkur skólaárið 2009/2010 í Grunnskólanum Ljósaborg. Sveitarstjórn samþykkir jafnframt að stefna að því að hafa heildstæðan skóla 1.-10. bekk á Borg og að leggja frekari vinnu í greiningu á húsnæðiskosti sveitarfélagins vegna leik- og grunnskóla.

Byggt á fundargerð sveitarstjórnar 18. des. 2008