Ævintýrin gerast enn

lindaFréttir

Það verður mikið um dýrðir í Grímsnesinu um helgina en á morgun laugardag eru hin árlegu Grímsævintýri, með sinni víðfrægu tombólu, markaði, Leikhópnum Lottu, Ingó og ekki má heldur gleyma því að allir 16 ára og yngri frá frítt í sund! Hátíðin hefst klukkan 13:00 en þá opnar markaðurinn.  Rauðhetta verður á ferðinni við skólann klukkan 13:30 og reikna má með því að þar sem stúlkan sú er á ferð sé úlfurinn ógurlegi ekki langt undan – verið því við öllu búin!

Krakkar geta fengið blöðrur og andlitsmálningu við andyri Grunnskólans Ljósuborgar en skólalóðin hefur upp á margt skemmtilegt að bjóða, sparkvöll, leiktæki, hoppukastala fyrir stóra sem smáa og körfuboltavöll.  Og eftir að hafa fengið útrás við leiki er upplagt að skella sér í sund og versla sér eitthvað í gogginn á markaðnum.

Í Gömlu Borg verður kaffihlaðborð og Verslunin Borg býður ís á ævintýralegu verði! 

En rúsínan í pylsuendanum er tombóla Kvenfélagsins sem er með allra elstu tombólum landsins en hún er rúmlega níræð – og aldrei ferskari.  Fjölmörg fyrirtæki hafa gefið muni á hana og einstaklingar hafa ekki látið sitt eftir liggja heldur.  Flottir útilegumunir frá Olís, stafrænn 7″ myndarammi frá TRS, gisting í Grímsnesinu og á Selfossi, gjafabréf og hvur veit hvað!  Engin núll!  Ágóði Grímsævintýra rennur til líknarmála.

Við minnum á tjaldsvæði við Borg og bjóðum ykkur öll velkomin í Grímsnesið.

Grímsnes og Grafningshreppur og Landsvirkjun styrkja hátíðina.