Árshátíð skólans á miðvikudag

lindaFréttir

Grunnskólinn Ljósaborg verður með árshátíð sína miðvikudaginn 12. mars næstkomandi. Skemmtunin hefst kl. 17:00 í Félagsheimilinu Borg. Nemendur þurfa að mæta kl. 16:30.

 

Ingibjörg Erlingsdóttir tónlistarkennari hefur verið að aðstoða okkur með að setja upp leikrit með nemendum. Æfingar ganga ágætlega og eru foreldrar beðnir um að aðstoða börnin sín við að læra sinn texta ef þau kunna hann ekki nú þegar. Textana verða þau helst að ljúka við að læra um helgina.

Nokkrir nemendur sem eru að læra á hljóðfæri hjá Hirti Hjartarssyni á vegum Tónlistarskóla Árnesinga munu spila nokkur lög og nemendur í 2. bekk sem eru að læra á blokkflautur verða með atriði.

Drög að dagskrá:

  1. Tónlistaratriði
  2. Skilaboðaskjóðan
  3. Dansatriði
  4. Kaffihlaðborð

Kaffihlaðborðið verður með svipuðu sniði og undanfarin tvö ár. Allir foreldrar koma með kaffimeðlæti sem sett er á hlaðborð.

Aðgangseyrir verður 500 kr. fyrir 16 ára og eldri. Frítt fyrir börn og ellilífeyrisþega.

Nemendur 7. bekkjar og forráðamenn þeirra aðstoða við að raða upp stólum og borðum, leggja á borð, skreyta salinn, ganga frá o.fl. Skipulag kemur frá stjórn foreldrafélagsins.

Nemendur 7. bekkjar hafa yfirumsjón með skemmtuninni og aðgangseyririnn er notaður til að greiða niður ferð þeirra í Skólabúðirnar í Reykjaskóla í Hrútafirði sem þau fóru í um daginn. Við gerum ráð fyrir því að 7. bekkur fari framvegis í skólabúðir og safni upp í kostnað á þennan hátt.

Foreldrar, afar og ömmur, systkini og aðrir gestir eru hjartanlega velkomnir á árshátíðina.

Starfsfólk Grunnskólans Ljósuborgar