Baðstofukvöld SSK

lindaFréttir

Nú er ætlunin að halda áfram að hittast á baðstofukvöldum eins og gert var síðasta vetur þegar saumaðar voru myndir í tilefni afmælis SSK. Á formannafundinum í haust kom fram ósk um að kennt yrði eitthvert gamalt handverk sem fáir kunna og er kannski alveg að týnast í tímans rás.

Skipuð var nefnd til að sjá um verkefnið en í henni eru Kristín Stefánsdóttir, Guðný A. Valberg og Guðbjörg Björgvinsdóttir. Fyrsta baðstofukvöldið verður í Selinu á Selfossi fimmtudagskvöldið 15. janúar kl. 20.00 og 22. janúar í Árhúsum á Hellu á sama tíma. Það sem kennt verður er að gimba, sem er hekl með sérstökum hætti og er þá notaður gimbugaffall með heklunálinni. Stjörnuheklið verður rifjað upp en það var alltaf notað þegar lopateppin voru hekluð hér áður fyrr. Einnig verður kennt að kríla, það er sérstök aðferð við að búa til snúru.

Þær konur sem hafa áhuga á að vera með í verkefninu eru beðnar að taka með sér garn, léttlopa eða plötulopa og heklunálar sem hæfa grófleika garnsins. Gimbugafflarnir verða á staðnum fyrir þær sem ekki eiga hann.

Undirbúningsnefndin