Breytt tilhögun í sorphirðu

lindaFréttir

Sveitarfélögin Bláskógabyggð og Grímsnes- og Grafningshreppur taka upp nýja tilhögun í sorphirðu frá og með 1. október 2009. Markmiðið með þeirri tilhögun er að bæta þjónustu við íbúa sveitarfélaganna, auka við endurvinnslu úrgangs af svæðinu og lágmarka þann úrgang sem fer til förgunar. Íbúar og sumarhúsaeigendur í sveitarfélaginu eru beðnir um að kynna sér vel breytt fyrirkomulag.

 

 

Heimilissorp

Frá og með 1. október verða tvö sorpílát staðsett við öll íbúðarhúsnæði í sveitarfélögunum, Blátunnan og Grátunnan. Stærð ílátanna er frá 240 litrum upp í 1100 lítra og miðast við þörf hvers heimilis.

Blátunnan er skilgreining á íláti undir pappírsúrgang frá heimilum. Þessi úrgangur fer svo til endurvinnslu erlendis. Um er að ræða dagblöð, tímarit, auglýsingapóst og prentpappír. Einnig hreinar og tómar umbúðir úr sléttum pappa eins og fernur, morgunkornspakka, eggjabakka og pakkningar utan af matvælum eins og kexi og pasta. Þetta ílát er með bláu loki.

Grátunnan er skilgreining á íláti undir almennan úrgang frá heimilum annan en þann sem flokkast í Blátunnuna. Þetta ílát er með gráu loki.

Athugið: Bylgjupappír má ekki fara í Blátunnuna, heldur ber að skila honum í sérstakt ílát á móttökustöðvum. Skil á bylgjupappír til móttökustöðva er gjaldfrí.

Blátunnan er hirt á átta vikna fresti og Grátunnan á tveggja vikna fresti. Þjónustuaðili sorphirðunnar er Gámaþjónustan hf.

Móttökugámar á opnum svæðum

Frá og með 1. október verða móttökugámar fyrir heimilissorp, sem eru á vegum sveitarfélaganna, fjarlægðir af öllum opnum svæðum og framvegis eingöngu staðsettir á móttökustöðvum sveitarfélaganna.

Rekstraraðilar

Frá og með 1. október hafa rekstraraðilar möguleika á að losa sig við úrgang á móttökustöðum sveitarfélaganna í samræmi við opnunartíma þeirra, gjaldskrá og kröfu um flokkun. Einnig býður þjónustuaðili sorphirðunnar, Gámaþjónustan hf, upp á aðra möguleika byggða á sömu forsendum og heimilissorpið byggir á, þ.e. Blátunnan og Grátunnan. Þjónustusími Gámaþjónustunnar hf vegna slíkrar þjónustu er 535-2500.

Frístundabyggðir

Frá og með 1. október hafa frístundabyggðir möguleika á að losa sig við úrgang á móttökustöðum sveitarfélaganna í samræmi við opnunartíma þeirra, gjaldskrá og kröfu um flokkun. Einnig býður þjónustuaðili sorphirðunnar, Gámaþjónustan hf, upp á aðra möguleika byggða á sömu forsendum og heimilissorpið byggir á, þ.e. Blátunnan og Grátunnan. Þjónustusími Gámaþjónustunnar hf vegna slíkrar þjónustu er 535 2510.

Móttökustöðvar fyrir úrgang

Frá og með 1. október verða starfandi þrjár móttökustöðvar fyrir úrgang í sveitarfélögunum. Þær verða starfandi alla mánuði ársins á eftirfarandi stöðum:

Laugarvatn – Lindarskógum 12-14

– Lindarskógum 12-14

Reykholt – Vegholti 8

– Vegholti 8

Grímsnes- og Grafningshreppur – Seyðishólum

– Seyðishólum

Einnig verður opin sameiginleg móttökustöð sveitarfélaganna við Heiðabæ í Þingvallasveit fjóra mánuði ársins, yfir sumarmánuðina. Opnunartími móttökustöðvanna er takmarkaður og getur verið breytilegur milli stöðva. Stíf krafa er um flokkun úrgangs og er hluti hans gjaldskyldur við losun.

Opnunartímar móttökustöðva

Opnunartímar móttökustöðva úrgangs verður kynntur fyrir 1. október

Gjaldtaka móttökustöðva

Gjaldtaka á móttökustöðvum mun miðast við rúmmál þess úrgangs sem losaður verður og greiðist við komu á móttökustöð. Úrgangur sem ber úrvinnslugjald verður þó gjaldfrjáls. Gjaldtaka hefst á móttökustöðvum 1. janúar 2010 og munu þær verða gjaldfrjálsar þangað til. Ákvörðun um gjaldskrá verður kynnt síðar.

Flokkun úrgangs á móttökustöðvum

Stíf krafa er um flokkun úrgangs á móttökustöðvum. Helstu flokkar úrgangs sem verða skilgreindir á móttökusvæðunum eru:

Almennur heimilisúrgangur (úrgangur sem fellur til við heimilisstörf og matseld)

Allur pappírsúrgangur (annar en bylgjupappi)

Bylgjupappi

Mjúkt plast og plastbrúsar (nema heyrúlluplast)

Heyrúlluplast

Hart plast (plaströr, garðhúsgögn úr plasti o.s.frv.)

Ómálað timbur (timbur sem engin efni hafa verið borin á)

Málað timbur (þó ekki innréttinga)

Garðúrgangur (eins og gras, plöntur, garðamold í litlu magni)

Trjáúrgangur (greinar og tré, umfangsminnkað eins og hægt er)

Grófur úrgangur (ónýt húsgögn, gólfteppi, dýnur, innréttingar o.s.frv.)

Óvirkur úrgangur (gler, flísar, grjót og möl í litlu magni)

Raftækjaúrgangur (brauðristar, kaffivélar, ísskápar, eldavélar o.s.frv.)

Málmar (dósir, krukkulok, álpappír, felgur, reiðhjól, bílhræ o.s.frv.)

Hjólbarðar

Kertavax

Spilliefni (rafgeymar, málningarafgangar, olíuúrgangur, rafhlöður o.s.frv.)

Drykkjarumbúðir

Nytjagámur

Þetta er sú grunnflokkun sem móttökustöðvarnar leggja upp með en búast má við að þær verði enn ítarlegri þegar fram líða stundir.