Dagur leikskólans verður haldinn hátíðlegur 5. febrúar

lindaFréttir

Dagur leikskólans er 6. febrúar ár hvert en þann dag árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara fyrstu samtök sín og halda því í ár upp á 60 ára afmæli sitt jafnframt.  Félag leikskólakennara í samstarfi við menntamálaráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga og Heimili og skóli hrundu verkefninu af stað árið 2008 og haldið hefur verið upp á daginn síðan og með því stuðlað að jákvæðri umræðu um leikskólastarf og kynningu þess út á við.

 

.

En þar sem daginn ber upp á laugardag í ár munu leikskólar halda hann hátíðlegan nk. föstudag, 5. febrúar og hafa um það frjálsar hendur hvernig þeir gera sér dagamun í tilefni dagsins. Útfærslur verið afar fjölbreytilegar undanfarin ár. Sem dæmi má nefna að gefin hafa verið út veggspjöld með myndum af börnum og upplýsingum um hvernig þau læra í leikskólanum, gerður bæklingur um leikskólann, farnar meðmælagöngur, foreldrum boðið í kaffi og haldnar listasýningar. Menntamálaráðuneytið gaf út bæklinginn „Dagur leikskólans“ fyrsta árið sem haldið var upp á Dag leikskólans og er hann aðgengilegur á rafrænu formi á netslóðinni  http://bella.mrn.stjr.is/utgafur/dagur_leikskolans.pdf.

Sveitarstjórnar- og fræðslunefndarfólk er hvatt til þess að fylgjast vel með starfsemi leikskólanna þennan dag og líta í heimsókn í samráði við stjórnendur og starfsfólk skólanna. Samband íslenskra sveitarfélaga sendir Félagi leikskólakennara árnaðaróskir í tilefni 60 ára afmælis samtaka leikskólakennara.