Fimmtudagur á ferðinni

lindaFréttir

Hann reyndist mörgum strembinn fimmtudagurinn í vikunni sem leið og ekki að ósekju. Nemendur Grunnskólans Ljósuborgar eyddu fyrri partinum við golfiðkun á Kiðjabergi eða í Alviðru við náttúruskoðun.

 

Hjá 5. – 7. bekk er ljóst að margan framtíðargylfinginn er að finna og víst er að sá sem hyggur á golfiðkun úr þeim fríða hópi býr í réttu sveitinni því hér er að finna marga öndvegisvelli.

En þó svo að golfmótið og náttúrskoðunin hafi reynt á, þá var það ekkert miðað við það sem við tók er nemendur og starfsfólk skólans hélt heim á leið eftir velheppnaðan dag.

Flestir nemendur skólans voru sem betur fór í skólabílunum og fundu því ekki mikið fyrir skjálftanum stóra sem skók Suðurland þennan eftirmiðdag.

Kennarar Ljósuborgar þau Ragna, Nói Mar (nemandi), Sigmar Karls og Kristín Konráðs voru einnig á ferðinni á þessum tíma en þau voru öll stödd undir eða við Ingólfsfjallið þegar skjálftinn reið yfir.

Öll héldu þau hið sama – að það væri eitthvað mikið athugavert við hjólabúnað bifreiðanna, enda ekki nema von þar sem þau sveifluðust akreinanna á milli fjórum sinnum. Þegar Ragna fór út úr bílnum til þess að kanna hverju þetta sætti, sá hún þó að öll hjólin voru undir bílnum – og það reyndist ekki einu sinni sprungið! Ástæðan fyrir stjórnleysi bifreiðarinnar var þó ekki lengi  að opinberast henni þegar hún  heyrði ógnarinnar hávaða og fjallið iðaði fyrir framan hana– þetta var jarðskjálfti!

Sigmar og Kristín áðu undir fjallinu og hörfðu á steinana rúlla niður hlíðar fjallsins og rykmökkinn sem kom í kjölfarið og vonuð hið besta, að enginn steinn myndi ná til þeirra. Sú varð sem betur fer raunin. Ragna var heldur fjær fjallinu en sá það iða í kjölfar skjálftans og grjótið hrynja niður hlíðar þess eða eins og einn sjónvarvottur orðaði það: Það var hreinlega eins og fjallið hefði tyllt sér á trampólín og væri að prófa sig áfram með hopp á því. Slíkur var hristingurinn.

Það er mikil blessun að nemendur voru komnir heim frá Alviðru og að allir hafi skilað sér heilir heim í hremmingum sem þessum – sem hljóta að vekja upp minningar hjá fólki hér í sveit, frá því í júní 2000 þegar Grímsnesið skókst með svipuðum hætti og alvarlegum afleiðingum fyrir marga. Nú sem fyrr  sluppu allir við alvarleg meiðsl og er það mest um vert.

Vegna jarðskjálftanna var göngu á Mosfell frestað enda kennararnir frá Selfossi hálf kjarklitlir eftir vökunótt og mikinn tilfinningarússíbana. Undirrituð var að minnsta kosti ekki til stórræðanna eftir að hafa hossast og hrist með sínu- að því er virðist ofur hreyfanlega timburhúsi, sem henni til undrunar er þó enn við sömu götu og merkilegt nokk, á sama grunni og fyrr, í Selfossbæ. Mosfell er heldur ekki farið neitt –þrátt fyrir hristinginn og því munu elstu nemendur skólans ganga á það næsta haust.

IE