Frá haustfundi Kvenfélags Grímsnesinga

lindaFréttir

Kvenfélagið í Grímsnesi hélt haustfund sinn á dögunum þar sem farið var yfir starfsemi ársins, það sem er að baki og eins það sem framundan er. Stærsta viðfangsefni Kvenfélagsins ár hvert eru Grímsævintýrin en þau eru haldin árlega helgina eftir verslunarmannahelgina.

Grímsævintýrin eru lang stærsta fjáröflun félagsins og mun ágóði þeirra að stórum hluta vera notaður til þess að styðja góð málefni. Á fundinum var m.a. samþykkt að styrkja söfnunarátakið Tekið á rás fyrir Grensás, Rauða kross Íslands sem vinnur með Hjálparstofnun kirkjunnar með stuðningi við fólk sem á við erfiðleika að stríða vegna þjóðfélagsaðstæðna.

Fjölmargir lögðu hönd á plóginn þessa helgi og þakkar Kvenfélagið öllum þeim sem litu við, aðstoðuðu og gáfu muni á tombóluna – án dyggrar aðstoðar fyrirtækja og einstaklinga hefði verið erfitt að ná svo góðum árangri og raun bara vitni.

Sérstakar þakkir fá starfsmenn sveitarfélagsins, þeir Dóri, Pálmar og Þorkell, sem þó var í sumarfríi fyrir ótal mörg handtök sem léttu mikið undir.

En Kvenfélagið sinnir fleiri verkefnum og farin var frábær ferð um Reykjanesið í sumar sem þótti einstaklega vel heppnuð. Veðrið lék við heldri borgarana sem fóru í ferðina og mætingin var mjög góð.

Í haust verður sömuleiðis farið í ferð um Suðurland og ýmis starfsemi sem þrífst í sveitunum skoðuð og einnig ætlar Erla Thomsen á Sólheimum að halda kertagerðarnámskeið fyrir kvenfélagskonur.

Síðustu ár hefur jólafundur félagsins verið haldinn með kvenfélagskonum úr Laugardalnum og hefur það verið sérlega notalegar stundir. Hvert fyrirkomulagið verður í ár er ekki alveg víst en alltaf er gaman að því að fá til sín góða gesti.

Það er því margt sem hið síunga Kvenfélag sveitarinnar fæst við og gaman að heyra að enn blómstrar starfsemin eftir 90 ár.