Framkvæmdir við byggingar hreppsins

lindaFréttir

Það er mikið um að vera í kringum mannvirki sveitarfélagsins á Borg þar sem unnið er að malbikun bílastæðis meðal annars.

Það er þó greinilega ekki einfalt mál að malbika þau, því það þarf að grafa holur, fylla þær aftur, búa til hrúgur og færa þær til og jafnvel aka þeim í burtu til þess að koma með nýjar á risastórum vörubílum.  Fyrr en varir er þó búið að slétta úr öllu saman og fáfróðum fer að gruna að e.t.v. verði einhvern tímann slétt bílastæði til úr öllu þessu bauki mannanna hans Sigurjóns Hjartarsonar.

Það stendur reyndar til að bílastæðið við Félagsheimilið, stjórnsýsluhúsið og grunnskólann auk Íþróttamiðstöðvarinnar verði tilbúið fyrir 17. júní.

Einnig á að malbika götur og stíga á öllu Borgarsvæðinu en því á að vera lokið 1. september og hlýtur það að vera mörgum íbúanum á Borg mikið fagnaðarefni.

Tilboð í framkvæmdir á skólalóðinni verður opnað 27. maí og þá kemur í ljós hver fær það verk og hvenær verði byrjað á því en vonir standa til að sem allra mest af þeirri vinni verði lokið á haustdögum.  Það má þó búast við að framkvæmdirnar hafi einhver áhrif á nemendur í haust en vonandi verður sem allra mest tilbúið þegar nemendur mæta í haust.