Fréttir af gömlu heimasíðunni – 1. hluti

lindaFréttir

Aðstoðarmaður byggingarfulltrúa

Hilmar Einarsson byggingarfulltrúi, Valtýr Valtýsson sveitarstjóri Bláskógabyggðar og Margrét Sigurðardóttir fóru yfir innsendar umsóknir um starf aðstoðarmanns byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu þann 20. apríl s.l.
Umsóknarfrestur var til 19. apríl 2006.
Alls bárust fjórar umsóknir og var samþykkt að gerður yrði ráðningarsamningur við Guðmund Böðvarsson, Laugarvatni.
 
 Hagyrðingakvöld

Að kvöldi síðasta vetrardags var haldið hagyrðingaköld í félagsheimilinu Borg. Rúmlega eitthundrað gestir mættu á skemmtunina sem heppnaðist vel og það er ljóst að þessi viðburður er kominn til að vera.
Hagyrðingar kvöldsins voru Ragnar Ingi Aðalsteinsson, Reykjavík, Samúel Örn Erlingsson, Kópavogi, Unnur Halldórsdóttir, Borgarnesi og Sigurjón Jónsson, Selfossi. Stjórnandi var Ómar Ragnarsson.
Margar góðar vísur flugu þetta kvöld, m.a. eftirfarandi vísa sem Sigurjón Jónsson samdi og birtist hér með leyfi höfundar.

GRÍMSNESIÐ
Hreppurinn sín hefur gæði
hingað leitar margur fús
að vera hér er algjört æði
og eiga fallegt sumarhús

Grímsnesið er góður hreppur
frá Guði strauma hér ég finn
hentugur svona helgarskreppur
hingað renna í bústaðinn

Og það virðist ekkert stopp´ann
áfram hér er mikið byggt
svo er hér gamla Olíssjoppan
með yndislegri sveitalykt
 
 Úlfljótsvatn

Á fundi skipulagsnefndar uppsveita Árnessýslu þann 19. apríl s.l. var tekin fyrir breyting á aðalskipulagi í landi Úlfljótsvatns. Einnig var tekin fyrir tillaga að deiliskipulagi frístundabyggðar á Úlfljótsvatni en það eru Orkuveita Reykjavíkur og Klasi hf sem eru umsækjendur þessa.
Í heild bárust 19 athugasemdabréf við tillögunum auk þess sem borist hafa umsagnir frá Fornleifavernd ríkisins, Umhverfisstofnun, Veiðimálastofnun, Landsneti, Vegagerðinni og Heilbrigðiseftirliti Suðurlands.
Helstu athugasemdir/ábendingar eru eftirfarandi:
Þéttleiki byggðar talinn of mikill (um 600 hús).

Fjarlægð byggðar frá vatni verði meiri en 50 m, jafnvel allt að 200 m.

Skortur á upplýsingum um lífríki Úlfljótsvatns og áhrif byggðar á lífríki.

Skortur á upplýsingum um fyrirkomulag fráveitu og mótmæli við að veita skolpi í Úlfljótsvatn.

Lagst gegn skerðingu verndarsvæða, bæði hverfisverndar og vatnsverndar.

Lagst er gegn áætlunum um skerðingu votlendis (sérstaklega Kermýri og svæði í Dælum) fyrir frístundabyggð og golfvöll.

Krafa um ítarlega hreinsun fráveituvatns.

Skortur á samráði við núverandi notendur landsins og þá helst skáta og veiðifélag Úlfljótsvatns.

Vantar upplýsingar um áætlanir um bátaumferð og hugsanleg áhrif á lífríki og veiðar.

Lagst gegn frístundabyggð innan verndarsvæðis vatnasviðs Þingvallavatns (lög um verndun vatnasviðs Þingvallavatns).

Bent á gildandi leigusamninga um notkun á stórum hluta landsins og mótmælt skerðingu á þeirri notkun. Farið fram á að frístundabyggð verði skert verulega.

Landnotkun við Borgarvík mótmælt.

 
 Ársreikningur Grímsnes-og Grafningshrepps 2005

Ársreikningur sveitarfélagsins fyrir árið 2005 lagður fram til seinni umræðu á fundi sveitarstjórnar þann 19. apríl s.l.
Helstu niðurstöður samantektar A og B hluta eru eftirfarandi:

Rekstrarniðurstaða kr. 123.204.900
Eigið fé kr. 429.510.800
Skuldir kr. 194.103.447
Eignir kr. 623.614.247

Ársreikningur var samþykktur samhljóða og áritaður af sveitarstjórn.
Ársreikning má nálgast í heild sinni hér á heimasíðunni.
 
 Logo sveitarfélagsins, samkeppni

Á fundi sveitarstjórnar þann 5. apríl s.l. voru lagðar fram tillögur að merki sveitarfélagsins (logo) en frestur til að skila inn tillögum rann út 31. mars s.l. Þrír aðilar voru fengnir í nefnd til að yfirfara innsendar hugmyndir, Ásborg Arnþórsdóttir ferðamálafulltrúi, Haraldur Óskarsson prentari og Margrét Sigurðardóttir sveitarstjóri og koma með tillögur fyrir sveitarstjórn. Sveitarstjórn samþykkir að það merki sem valið verði sé það merki sem nefndin taldi best enda fáist leyfi til frekari útfærslu á því merki. Höfundur tillögunnar er Herbert Viðarsson. Stefnt er að því að sýna tillögurnar í stjórnsýsluhúsinu. 
 
 
Framkvæmdaleyfi við Úlfljótsvatn

Á fundi sveitarstjórnar 18. janúar s.l. var tekin fyrir beiðni um framkvæmdaleyfi við varnir gegn landbroti við austanvert Úlfljótsvatn.
Það voru landeigendur við austanvert Úlfljótsvatn sem óskuðu eftir framkvæmdaleyfi.
Sveitarstjórn samþykkti að óska eftir umsögn Umhverfisstofnunar sbr. b. lið 37. gr. náttúruverndarlaga. Einnig var óskað eftir umsögn veiðimálastjórnar Landbúnaðarstofnunar.
Ofangreindar umsagnir hafa borist og voru ekki gerðar athugasemdir við ofangreinda framkvæmd.
Sveitarstjórn samþykkti að veita framkvæmdaleyfiið.
 
 
 
Kauptilboð í land sveitarfélagsins við Kerhraun

Sveitarstjórn tók fyrir á fundi sínum þann 8. mars s.l., kauptilboð í land sveitarfélagsins við Kerhraun vestan megin Seyðishóla, um 20 ha.
Sveitarstjórn samþykkti að láta gera lóðablað fyrir viðkomandi svæði og taka fyrirliggjandi tilboði.
 
 
 
Kauptilboð í Ljósafossskóla

Á fundi sveitarstjórnar þann 8. mars s.l. var tekið fyrir kauptilboð í Ljósafossskóla ásamt kennaraíbúðunum Ás, Brúarás 1 og 2 og um 8 ha. lands.
Sveitarstjórn samþykkir fyrirliggjandi tilboð með fjórum atkvæðum gegn einu.
Kaupendur eru Gospel Channel Evrópa ehf, sem reka kristilega sjónvarpsstöð víða um heim.
 
 
 
Uppsögn félagsmálafulltrúa

Sólveig Pétursdóttir, félagsmálafulltrúi uppsveita Árnessýslu hefur sagt upp störfum sínum frá og með 1. mars n.k.
Sólveigu eru þökkuð góð störf í þágu sveitarfélagsins á undanförnum árum.
 
 
 
Kauptilboð í heilsárslóðir, Ásborgir

Sveitarstjórn tók fyrir nýlega á fundi sínum kauptilboð í óseldar heilsárslóðir við Ásborgir, Ásgarðslandi.
Sveitarstjórn samþykkti að hafna fyrirliggjandi kauptilboði.
 
 
 
Kosning fulltrúa í kjörstjórn

Tveir kjörnir fulltrúar í kjörstjórn hafa óskað eftir lausn frá embætti í kjörstjórn vegna sveitarstjórnarkosninga þann 27. maí n.k.
Sveitarstjórn samþykkti að Guðrún Bergmann og Árni Þorvaldsson taki sæti í kjörstjórn til loka kjörtímabils. Einnig hefur verið samþykkt að Anna Margrét Sigurðardóttir verði varamaður í kjörstjórn.
 
 
 
Fasteignaskattur, undanþágur

Á fundi sveitarstjórnar þann 22. mars s.l. voru tekin fyrir drög að reglum um lækkun, niðurfellingu eða styrkjum vegna fasteignaskatts í Grímsnes-og Grafningshreppi.
Reglurnar gera ráð fyrir að starfsemi sem ekki er rekin í ágóðaskyni s.s. menningar,- æskulýðs,- mannúðar og tómastundastarfsemi geti sótt um styrki til greiðslu fasteignaskatts af fasteignum félaganna.
Jafnframt geta tekjulitlir elli-og örorkulífeyrisþegar fengið lækkun eða niðurfellingu á fasteignaskatti eins og verið hefur undanfarin ár og kynnt áður hefur verið kynnt.
Eigendur friðaðra húsa geta sótt um lækkun eða niðurfellingu fasteignaskatts af friðuðum húsum ef staðið hefur verið að endurbótum eða endurbyggingu þeirra.
Reglurnar verður aðgengilegar í heild sinni á heimasíðu sveitarfélagins innan skamms.
 
 
 
Reiðvegir

Sveitarstjórn hefur samþykkt að greiða árlega kr. 200.000 til reiðvegagerðar í sveitarfélaginu á árunum 2007-2009.
 
 
 
Opnun urðunarstaðar í Kirkjuferjuhjáleigu

Sveitarstjórn ræddi á dögunum um opnunartíma urðunarstaðar sorps í Kirkjuferjuhjáleigu. Erfitt hefur verið að losna við sorp til urðunar á vorin og fram eftir sumri þegar sumarhúsaeigendur standa í tiltekt og endurbótum. Sorp hefur safnast upp á gámasvæðum sveitarfélagsins eða að þjónustuaðilar hafa þurft að flytja það til Reykjavíkur með tilheyrandi kostnaði.
Sveitarstjórn samþykkti að óska eftir því við Sorpstöð Suðurlands að opnunartími verði rýmkaður þannig að unnt verði að taka á móti sorpi hluta úr degi um helgar frá páskum og fram í júlíbyrjun.
 
 
 
Vegslóði frá Söðulhólum að Hlöðuvöllum

Sveitarstjórn hefur samþykkt að leita eftir samstarfi við sveitarstjórn Bláskógabyggðar um að vegslóði frá Söðulhólum að Hlöðuvöllum á afrétti sveitarfélaganna verði lagfærður.
 
 
 
Tiltekt í sveitarfélaginu

Íbúar sveitarfélagsins eru hvattir til að snyrta umhverfi sitt í vor. Sveitarfélagið mun lána gáma á lögbýli til hreinsunar í apríl og maí. Eftir þann tíma verður ekki hægt að fá gáma þar sem háannatími verður hafinn hjá Gámaþjónustunni. 
 
 
Rúlluplast

Fundur var haldinn á Borg þann 4. apríl s.l. um reglulega söfnun á heyrúlluplasti frá lögbýlum.
Á fundinn mættu fulltrúar Gámaþjónustannar hf og leiðbeindu um meðferð plastins.
Söfnun þess verður með svipuðu sniði og verið hefur, þ.e. bíll frá Gámaþjónustunni mun fara um sveitina og safna plastinu en stefnt er að því að fjölga ferðum. Sveitarfélagið ber kostnað af akstri.
Plastið þarf að vera aðgreint frá öðrum úrgangi, ekki mega vera bönd og net í því. Hins vegar má allt annað mjúkt plast, svo og allir plastbrúsar vera með.
Einnig er Gámaþjónustan tilbúin að taka hjólbarða í söfnunarbílinn.
Fljótlega verður gefinn út leiðbeiningabæklingur sem dreift verður til íbúa með upplýsingum um meðhöndlun plastins.
 
 
 
Lóðir til úthlutunar

Í Grímsnes-og Grafningshreppi eru lóðir lausar til úthlutunar á Borg. Lóðirnar eru alls 55, þar af eru 17 einbýlishúsalóðir og 38 parhúsalóðir. Íbúðarhúsalóðirnar eru að stærð -2.019 fm. Ekki er um eignarlóðir að ræða en lóðirnar eru leigðar til 50 ára með forleigurétti . Fjarlægð frá Reykjavík er um 70 km., bundið slitlag alla leið.
Á Borg er leikskóli og nýr grunnskóli. Grunnskólinn Ljósaborg er fyrir börn í 1.-7. bekk þar sem lögð er áhersla á persónulega kennslu og góðan tækjakost. Unglingar í 8. – 10. bekk eru keyrðir í grunnskóla Bláskógabyggðar, Reykholti, í um 20 km. fjarlægð. Leikskólinn Kátaborg er vel búinn einnar deildar leikskóli með rými fyrir um 30 börn. Framkvæmdir við íþróttahús og sundlaug standa yfir og er reiknað með þeim ljúki sumar 2006. Verslun er rekin á svæðinu og undirbúningur golfvallar hefst fljótlega. Deiliskipulag
Allar frekari upplýsingar eru veittar í síma 486-4400 mánudaga til fimmtudaga frá kl. 9.00-14.00
Þeir sem hafa áhuga á að sækja um lóðir eru beðnir að gera það skriflega:
Grímsnes-og Grafningshreppur
Borg
801 Selfossi
Sveitarstjóri 
 
 
 Bilanir

Lagnir (rafmagn, vatn, sími) í skipulagsuppdráttum Bilanir hafa verið tíðar undanfarið á rafmagni í hluta sveitarfélagsins sem rekja má til þess að lagnir hafa verið teknar í sundur vegna jarðvegsframkvæmda.
Umdæmisstjóri Rarik á Suðurlandi hefur verið beðinn um að taka út tíðni bilana í sveitarfélaginu til samanburðar við nágrannasveitarfélög.
Sveitarstjórn samþykkti á fundi 18.janúar s.l. að framvegis verði það hluti af hönnun deiliskipulags að merkja inn lagnir s.s. rafmagn, síma og vatn til að koma megi í veg fyrir það að verið sé að taka lagnir í sundur með tilheyrandi óþægindum.
 
 
 
Gjaldskrá hitaveitna sveitarfélagsins

Samþykkt hefur verið að sameina hitaveitur sveitarfélagsins og kallast þær nú Hitaveita Grímsnes-og Grafningshrepps með einni gjaldskrá á báðum veitusvæðum, þ.e. í landi Þórisstaða og nágrennis og á Borg og nágrenni.
Veiturnar hafa verið aðskildar hingað til.
Samþykkt um Hitaveituna og gjaldskrá hennar verður hægt að nálgast á heimasíðunni bráðlega. 
 
 
Áfrýjun íslenska ríkisins

Íslenska ríkið hefur áfrýjað dómi Hérðasdóms Suðurlands til Hæstaréttar Íslands um makaskiptaland frá 1896.
Sveitarstjórn samþykkti á fundi 18. janúar að fela Málflutningsskrifstofunni að sjá um málið fyrir hönd sveitarfélagsins.
Eins og kunnugt var héraðsdómur kveðinn upp í málinu þar sem fallist var á kröfur sveitarfélagsins um ógildingu á úrskurði Óbyggðanefndar og að landið sem sveitarfélagið fékk í makaskiptum við Þingvallakirkju 1986 væri eignarland.
 
 
 
Fundartími sveitarstjórnar í mars

Sveitarstjórn hefur samþykkt að fundir hennar í mars verði 8. mars og 22. mars, þ.e. annar og fjórði miðvikudagur í mánuðinum.
Mál sem taka á fyrir fundum þurfa að hafa borist á skrifstofu sveitarfélagsins föstudagana 3. mars og 17. mars.
 
 
 
Samningur um sorphirðu

Sveitarstjórn hefur samþykkt að framlengja samning við Gámaþjónustuna hf. til eins árs en samningur rennur út 1. maí n.k.
Í nýjum samingi verður lögð áhersla á að stuðla að minnkun úrgangs sem fer til urðunar og auka endurvinnslu.
Stefnt verður að því aukinn verði skilningur og vitund íbúa á meðferð og aðgreiningu sorps með ávinning í umhverfismálum í huga.
Gámaþjónustan og þau sveitarfélög sem að samningnum koma, Grímsnes-og Grafningshreppur og Bláskógabyggð, munu vinna að þróunar-og samstarfssamningi næstu vikur.
 
 
 
Viðbygging við Sjúkrahús Suðurlands

Sveitarstjórn Grímsnes-og Grafningshrepps hefur lýst áhuga sínum á að taka þátt í uppbyggingu þriðju hæðar á sjúkrahúsi Suðurlands fyrir hjúkrunarrými að því gefnu að Ljósheimar verði seldir og andvirðið verði látið renna til framkvæmdarinnar.
Kostnaðarhlutdeild sveitarfélaganna yrði um 30% sem skiptist eftir íbúafjölda.
 
 

Nýr skipulagsfulltrúi

Sveitarstjórnir uppsveita Árnessýslu hafa samþykkt að ráða Pétur Inga Haraldsson sem skipulagsfulltrúa uppsveitanna.
Pétur gegnir í dag starfi skipulagsfræðings hjá Skipulagsstofnun.
Hann mun að hefja störf um leið og hann fær sig lausan frá núverandi starfi.
 
 

 

Þriggja ára fjárhagsáætlun, seinni umræða Sveitarstjórn hefur samþykkt þriggja ára fjárhagsáætlun sveitarfélagsins.
Áætlunin verður aðgengileg á heimasíðunni, www.gogg.is bráðlega.
 
 

Samþykkt LN vegna launamála

Á fundi sveitarstjórnar 1. febrúar s.l. var lagt fram erindi frá Launanefnd sveitarfélaga dags. 28. janúar 2006 þar sem nefndin heimilar sveitarfélögum að ákvarða tímabundnar launaviðbætur við gildandi kjarasamninga við Samflot bæjarstarfsmanna frá 29. maí 2005.
Heimildin gerir ráð fyrir að lágmarkslaun starfsmanna sveitarfélagsins hækki.
Sveitarstjórn samþykkti að nýta sér heimildina fyrir þá starfsmenn sem í hlut eiga í samræmi við leiðbeiningar frá launanefnd og mun hækkunin vera afturvirk til 1. janúar s.l.
 
 

Breyting á ráðningarsamning veitustjóra

Sveitarstjórn hefur samþykkt að breyta ráðningarsamningi Þorkels Gunnarssonar veitustjóra þannig að hann verði í 50% föstu starfi hjá sveitarfélaginu.
Þorkell og Halldór Maríasson, starfsmaður áhaldahúss, munu deila með sér vöktum vatnsveitu sveitarfélagsins.
Nýr sími vöktunar vatnsveitu er 898-2183.
 
 

Drög að landbóta-og landnýtingaráætlun 2006-2010 fyrir Grímsnesafrétt

Gerð hefur verið landbóta- og landnýtingaráætlun 2006-2010 fyrir Grímsnesafrétt í samstarfi við Landgræðslu ríkisins með það í huga að tryggja sjálfbæra nýtingu landsins og stuðla að því að þeir sem nýta afréttinn til sauðfjárbeitar geti notið álagsgreiðslna samkvæmt gæðastýringarkerfi búvörusamningsins.
Áætlunin gerir ráð fyrir upprekstur á afrétt hefjist ekki fyrr en um mánaðarmótin júní- júlí ár hvert og að flutningi fjár á afrétt verður dreift á a.m.k 15 daga tímabil.
Markmið með landbótum á Grímsnesafrétti er að stuðla að áframhaldandi gróðurframvindu á svæðinu sunnan og suðaustan við Skjaldbreið og sunnan við Söðulhóla til að stöðva jarðvegseyðingu þar.
Gert er ráð fyrir landgræðslu á Grímsnesafrétti með því að dreifa úr heyrúllum úr Grímsnesi og með sáningu grasfræs þar sem það á við.
Félagar í Búnaðarfélagi Grímsness munu sjá um dreifingu og sáningu og útvega hey en sveitarfélagið mun standa straum af kostnaði við flutning á rúllum og kaupum á áburði og grasfræi.
 
 

Snjómoksturreglur

Þó hafi vel hafi viðrað undanfarið þegar þetta er skrifað, er rétt að ítreka snjómoksturreglur sem gilda hjá Vegagerðinni og sveitarfélaginu.
Allir þjóðvegir eru mokaðir allt að 5 daga vikunnar.
Allir tengivegir eru mokaðir allt að 5 daga vikunnar.
Reiknað er með ofangreindir vegir hafi verið mokaðir fyrir morgunumferð.
Safnvegir eru mokaðir tvisar á ári á kostnað sveitarfélagsins en hægt er að fá mokstur umfram það gegn greiðslu, kr. 5.000 hvert skipti. Biðja þarf um mokstur á safnvegum.
Þjóðvegir eru:
Biskupstungnabraut, Sólheimavegur að vestanverðu að Sólheimum og Þingvallavegur.
Tengivegir eru:
Grafningsvegur, Búrfellsvegur, Kiðjabergsvegur, Sólheimavegur að austanverðu, Stærribæjarvegur, Hagavegur, Efribrúarvegur, Miðengisvegur, Eyvíkurvegur, Ormsstaðavegur.
Safnvegir eru afleggjarar.
Snjómokstur fyrir sveitarfélagið er á höndum Ólafs Jónssonar og Helga Jónssonar, verktaka. Vegagerðin greiðir helming snjómoksturs á móti sveitarfélaginu á tengivegum allt að fimm dögum vikunnar.
Vegagerðin sér um allan snjómokstur á þjóðvegum og greiðir allan kostnað við mokstur þessara leiða.
Til frekari upplýsinga um snjómokstur er bent á heimasíðu Vegagerðar, www.vegagerdin.is 
 

Fjárhagsáætlun 2006

Á fundi sveitarstjórnar Grímsnes-og Grafningshrepps þann 21. desember var fjárhagsáætlun sveitarfélagsins samþykkt. Gert er ráð fyrir að rekstrarniðurstaða fjárhagsáætlunar 2006 fyrir A og B hluta, þ.e. aðalsjóð og stofnanir sveitarfélagsins verði 34.763 þús. Rekstrarhlutfall aðalsjóðs nemur um 86% af tekjum. Veltufé frá rekstri verði 25.853 þús., fjárfesting í varanlegum rekstrarfjármunum 169.364 þús. og afborganir langtímalána er áætluð 13.634 þús. Helstu liðir í fjárfestingaráætlun eru fráveita, hitaveita og vegagerð vegna framkvæmda á Borg við uppbyggingu nýs þéttbýliskjarna. Fjárhagsáætlun má nálgast í heild sinni hér.
 
 

Íbúafjöldi

Samkvæmt bráðabirgðatölum frá Hagstofu Íslands voru íbúar sveitarfélagsins 356 að tölu 1. desember 2005, karlar eru 192 og konur 164. Það er ánægjulegt að sjá að íbúum er að fjölga en þeir hafa verið um 345 undanfarin ár. 
 

Álagningarstofnar fyrir árið 2006

Sveitarstjórn hefur samþykkt eftirfarandi álagningarstofna vegna ársins 2006.
1. a-flokkur fasteignagjalda lækkar úr 0,50% í 0,475% af fasteignamati.

(Undir a-flokk falla íbúðir, íbúðarhús ásamt lóðarréttindum, erfðafestulönd í dreifbýli og jarðeignir, útihús og mannvirki á bújörðum sem tengd eru landbúnaði, öll hlunnindi og sumarbústaðir ásamt lóðarréttindum)
. 2. b-flokkur fasteignagjalda verður óbreytt eða 1,45% af fasteignamati.

(Undir b-flokk falla allar aðrar fasteignir sem sem iðnaðar-, skrifstofu og verslunarhúsnæði, fiskeldismannvirki, veiðihús og mannvirki sem nýtt eru fyrir ferðaþjónustu).
3. Álagningarprósenta útsvars verður óbreytt frá fyrra ári, 12,74%.
4. Vatnsgjald verður 0,2% af fasteignamati eignar sem tengst geta vatnsveitum sveitarfélagsins.
Hámarksálagning verði kr. 20.000 fyrir sumarhús og kr. 20.000 fyrir íbúðarhús.
Tengigjöld (stofngjöld) fyrir frístundahús og íbúðarhús verða kr. 180.000
Tengigjöld fyrir lögbýli að meðtöldu einu íbúðarhúsi verða kr. 295.000.
Fyrirtæki sem safna vatni í eigin miðlun fá 30% afslátt af vatnsskatti.
5. Gjaldskrá hitaveitu á Borg verði samræmd gjaldskrá hitaveitu Kringlu.
6. Álagning vegna sorpeyðingar verði:
Íbúðarhús kr. 6.979
Sumarhús kr. 4.285
Fyrirtæki/smárekstur kr. 8.448
Lögbýli kr. 8.448
Losun úr gámum kr. 393 pr/kg
7. Seyrulosunargjald vegna kostnaðar við seyrulosun/fráveitukerfi lækkar í kr. 4.500.

Seyrulosunargjald greiðist fyrir hvert íbúðarhús, sumarhús og fyrirtæki sem ber samkvæmt byggingarskilmálum að hafa rotþró eða tengt viðurkenndu fráveitukerfi.
 

Kirkjugarðurinn á Klausturhólum

Sveitarstjórn hefur samþykkt að veita fjárstyrk, kr. 500.000,- til lagfæringar á kirkjugarðinum Klausturhólum. 
 

Merki sveitarfélagsins

Sveitarstjórn hefur samþykkt að standa fyrir samkeppni um merki (logo) sveitarfélagsins. Verðlaun verða veitt fyrir þrjár bestu hugmyndirnar. Nánar auglýst síðar. 
 

Hátíð á Borg

Föstudaginn 2. desember var nýtt hús á Borg, grunnskólinn Ljósaborg og skrifstofur sveitarfélagsins, formlega tekið í notkun og blessað. Ávörp voru flutt, m.a. af oddvita sveitarfélagsins, Gunnari Þorgeirssyni, aðstoðarskólastjóra, Hilmari Björgvinssyni og skólastjóra, Arndísi Jónsdóttur. Fjöldi gesta kom og skólanum bárust gjafir víða að, m.a. frá kvenfélagi Grímsness, lionsklúbbinum Skjaldbreið, JÁ verktökum, Guðmundi Guðmundssyni frá Efri Brú og Fasteign hf. Kammerkór Biskupstungna söng nokkur lög undir stjórn Hilmars Arnar Agnarssonar. Kveikt var á jólaljósum á jólatréi og það voru börn úr grunnskólanum Ljósuborg sem sáu um að setja ljósin í samband. Þau sungu fyrir viðstadda jólalög. Það var sr. Sigurður Sigurðsson, vígslubiskup í Skálholti sem blessaði nýbygginguna. Gestir gengu um hið nýja húsnæði og þáðu síðan veitingar í félagsheimilinu. Kennsla hófst í haust, 29. ágúst og var aðstaða kennara og aðstoðarskólastjóra á neðri hæð hússins til að byrja með. 10. nóvember flutti skrifstofa sveitarfélagsins ásamt starfsfólki skólans á efri hæðina í björt og góð húsakynni. Skoða myndir 
 

Sala Ljósafossskóla

Haldinn var aukafundur sveitarstjórnar 17. nóvember vegna tilboða sem bárust í Ljósafossskóla ásamt kennaraíbúðunum Ási, Brúarási 1 og 2 og um 8 ha. lands. Sveitarstjórn ákvað að taka því tilboði sem henni fannst hagstæðast en það var fyrirtækið Auðsalir ehf. sem áttu það tilboð. Fyrirtækið hyggst nýta eigirnar til reksturs heilsuhótels og tengdri starfsemi. Reiknað er með talsverðri uppbyggingu á svæðinu og eflingu atvinnulífs í sveitarfélaginu. 
 

Stjórnsýsluhús

Skrifstofa sveitarfélagsins er flutt í nýtt húsnæði, í stjórnsýsluhúsi sveitarfélagsins. Á sama tíma flutti aðstaða kennara á efri hæð skólans. Flutningar gengu vel fyrir sig og það fer vel um starfsmenn í rúmbetri og björtum húsakynnum. Skóli og stjórnsýsluhús verður formlega tekið í notkun 2. desember n.k og er öllum íbúum boðið til veislu við það tækifæri. 
 

Sameiningarkosningar

Þann 8. október s.l. fóru fram kosningar í sveitarfélaginu þar sem kosið var um sameiningu fjögurra sveitarfélaga, Grímsnes-og Grafningshrepps, Bláskógabyggðar, Hrunamannahrepps og Skeiða-og Gnúpverjahrepps. Á kjörskrá í Grímsnes-og Grafningshreppi voru 265 einstaklingar, 120 konur og 145 karlar. Alls kusu 131 einstaklingar, 74 karlar og 57 konur. Niðurstaða kosninga var eftirfarandi: Já sögðu 21 en nei sögðu 108. Tveir skiluðu auðu. Í heildina kusu 967, 410 sögðu já en 540 sögðu nei. Kosning um sameiningu var felld. 
 

Dómur um úrskurð óbyggðanefndar

Þann 13. október s.l. kvað Héraðsdómur Suðurlands upp dóm í máli Grímsnes-og Grafningshrepps gegn íslenska ríkinu um úrskurð óbyggðanefndar frá 21. mars 2002. Dómsorð voru eftirfarandi:
Úrskurður Óbyggðanefndar frá 21. mars 2002 í máli nr. 2/2002:
Grímsnesafréttur og jarðir umhverfis Lyngdalsheiði í Grímsnes-og Grafningshreppi er felldur úr gildi, að því leyti sem úrskurðurinn tekur til lands, sem Grímsneshreppur fékk í makaskiptum við Þingvallakirkju 7. september 1896. Kröfu stefnanda, Grímsnes-og Grafningshrepps, um að viðurkenndur verði beinn eignarréttur hans að sama landi er vísað frá dómi. Stefndi, íslenska ríkið, skal greiða stefnanda 46.681 króna. Að öðru leyti er fjárkröfu stefnanda vísað frá dómi. Stefndi skal greiða stefnanda 1.200.000 krónur í málskostnað. 
 

Byggðaáætlun

Á fundi sveitarstjórnar Grímsnes-og Grafningshrepps þann 17. október s.l. voru tekin fyrir drög að byggðaáætlun 2006-2009. Frestur til að gera athugasemdir og koma með ábendingar er til 28. október n.k. Sveitarstjórn Grímsnes-og Grafningshrepps telur að í áætlunina vanti aðgerðaráætlun. Aðeins er um að ræða marklaust hjal um ályktarnir annara stofnana þar sem vitnað er m.a. í samgöngu-og fjarskiptaáætlun. Í ljósi þess að verið er að vinna vaxtasamninga um allt land þar sem tekið er á ýmsum nauðsynlegum verkefnum hinna dreifðu byggða leggur sveitarstjórn Grímsnes-og Grafningshrepps til að Byggðastofnun verði lögð niður og að því fé sem varið er til hennar verði varið í eflingu atvinnuþróunarfélaga landsbyggðarinnar. 
 

Starfsmenn skóla

Við Ljósuborg, grunnskólann að Borg, starfa nú um 11 kennarar og leiðbeinendur. Skólastjóri er Arndís Jónsdóttir og aðstoðarskólastjóri Hilmar Björgvinsson. Umsjónarkennari 1.-3. bekkjar er Sólrún Héðinsdóttir, umsjónarkennari 4.-5.bekkjar er Jórunn Helena Jónsdóttir og umsjónarkennari 6.-7. bekkjar er Hilmar Björgvinsson. Kristín Konráðsdóttir kennir m.a. textilmennt og er stuðningsfulltrúi í bekk. Hún sér einnig um bókasafn skólans. Áslaug Guðmundsdóttir kennir heimilisfræði og Sigurborg Kjartansdóttir kennir umhverfismennt. Helgi Kjartansson kennir íþróttir í Reykholti og Karl Pálsson kennir íþróttir á Borg. Frá Reykholti koma Sigríður Jónsdóttir sem kennir samfélagsfræði, Valbjörg Jónsdóttir kennir náttúrufræði og Katrín Briem sem kennir myndmennt. Skólaliði er Kristín Gísladóttir og Ursula Filmer aðstoðar í mötuneyti. Helga Gústavsdóttir og Anna Margrét Sigurðardóttir hafa leyst af í forföllum starfsmanna. 1. október hefja tveir nýjir starfsmenn störf, stuðningsfulltrúi og skólaliði. Kristín Gísladóttir mun láta af störfum en hún réði sig tímabundið til starfa. 
 

Nýjir starfsmenn á skrifstofu byggingar-og skipulagsfulltrúa

Í byrjun júnímánaðar hóf Sigríður Mikaelsdóttir störf við skrifstofu byggingar-og skipulagsfulltrúa. Hún var ráðin í fullt starf til frambúðar frá og með 1. september s.l. Sigríður er búsett á Laugarvatni og vann áður við Búnaðarbankann á Laugarvatni.
Einnig hefur Kristjana Kjartansdóttir verið ráðin tímabundið til starfa hjá skipulagsfulltrúa. Kristjana, sem gegnt hefur starfi skrifstofustjóra við skipulags-og byggingarembættið, snýr nú aftur til starfa eftir ársleyfi vegna náms. 
 

Styrkur fyrir framhaldsskólanema

Eins og undanfarin ár mun Grímsnes-og Grafningshreppur veita framhaldsskólanemum 16-20 ára, styrk að upphæð kr. 30.000. Þeir aðilar sem vilja nýta sér þetta eru beðnir um að senda vottorð um skólavist fyrir haustönn 2005 sem allra fyrst til skrifstofu sveitarfélagsins. Hægt er að senda staðfestingu á faxnúmerið 486-4490. 
 

Vegbætur í frístundabyggð

Samkvæmt reglum sveitarfélagsins um vegbætur í frístundabyggð voru teknar fyrir á fundi sveitarstjórnar umsóknir félaga frístundabyggða og sumarhúsaeigenda þar sem óskað er eftir styrk til vegbóta. Fjórar umsóknir bárust og samþykkti sveitarstjórn að veita þeim aðilum styrk sem uppfylltu reglur um úthlutun.
Félag sumarhúsaeigenda við 5. braut
Félag sumarhúsaeigenda í Nesjaskógi
Félag sumarbústaðaeigenda í Oddsholti
Reglurnar má nálgast á heimasíðu sveitarafélagsins, www.gogg.is 
 

Vegamál

Á fundi sveitarstjórnar Grímsnes-og Grafningshrepps þann 21. september 2005 komu fulltrúar Vegagerðarinnar til skrafs og ráðagerða um úrbætur í samgöngumálum sveitarfélagins. Þar var meðal annars upplýst um stöðu safnvegasjóðs og hugsanlega úthlutun hans. Jafnframt kom fram að framkvæmdir við Sólheimaveg verði boðnar út fljótlega. Gert er ráð fyrir fjárveitingu til Búrfellsvegar á árinu 2008 til hefja uppbyggingu á honum frá Biskupstungnabraut. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir fjárveitingu til Grafningsvegar neðri í samþykktri samgönguáætlun. Vegagerð og Samgöngunefnd Alþingis hefur í kjölfar fundar, verið sent bréf þar sem óskað er fjárveitingu vegna hringtorgs á Biskupstungnabraut við Borg samanber samþykkt deiliskipulag. Einnig að afleggjarar við Sólheimaveg verði lagfærður í tengslum við framkvæmdir þar. Jafnframt var óskað eftir fjármagni til að ljúka gerð Grafningsvegar neðri. 
 

Breyting á aðalskipulagi í landi Úlfljótsvatns

Lagt fram til kynningar fyrir sveitarstjórn, breyting á aðalskipulagi Grímsnes-og Grafninghrepps 2002-2014 í landi Úlfljótsvatns. Þar eru áform um framkvæmdir við uppbyggingu frístundabyggðar og þjónustu þeim tengdum. 
 

Norðurvegar ehf. vegna uppbyggingar Kjalvegar

Á fundi 21. september s.l. tók sveitarstjórn fyrir bréf Atvinnuþróunarsjóðs Suðurlands dags. 6. september 2005. Í bréfinu er óskað eftir afstöðu sveitarfélagsins varðandi uppbyggingu heilsársvegar um Kjöl milli Norður-og Suðurlands og áhuga á aðkomu að verkefninu. Stofnað hefur verið hlutafélagið Norðurvegur ehf. um úttekt og undirbúning verkefnisins. Sveitarstjórn telur að heilsársvegur um Kjöl sé góð samgöngubót sem hefði áhrif til hins betra fyrir fyrirtæki og ferðafólk bæði á Suður-og Norðurlandi og samþykkir að taka þátt í verkefninu með því að leggja fram hlutafé til Norðurvegar ehf. að upphæð kr. 500.000 
 

Styrkbeiðni frá skákfélaginu Hróknum

Sveitarstjórn samþykkti á fundi sínum þann 21. september s.l. að styrkja skákfélagið Hrókinn um 25.000 kr.
Skákfélagið er hefja fjórðu hringferð um landið þar sem allir grunnskólar eru heimsóttir og börn fædd 1997 fá að gjöf bókina Skák og mát. 
 

Fundartími sveitarstjórnar í október

Á fundi sveitarstjórnar Grímsnes-og Grafningshrepps þann 21. september s.l var eftirfarandi breyting samþykkt á fundartíma í október 2005.
Fyrri fundur: þriðjudag 4. október
Seinni fundur: mánudag 17. október
Sveitarstjóri 
 

Lóðir til úthlutunar

Í Grímsnes-og Grafningshreppi eru lóðir lausar til úthlutunar á Borg. Lóðirnar eru alls 48, þar af eru 20 einbýlishúsalóðir og 28 parhúsalóðir. Íbúðarhúsalóðirnar eru að stærð 390-1.888 fm. Ekki er um eignarlóðir að ræða. Á Borg er nýr grunnskóli fyrir börn frá 1.-7. bekk, leikskóli ásamt skrifstofum sveitarfélagsins. Verið er að hefja framkvæmdir við sundlaug og íþróttahús. Deiliskipulag
Þeir sem hafa áhuga á að sækja um lóðir eru beðnir að gera það skriflega:
Grímsnes-og Grafningshreppur
Borg
801 Selfossi
Sveitarstjóri 
 

Ljósaborg

Nýr skóli á Borg, Ljósaborg, var settur þann 22. ágúst s.l. Arndís Jónsdóttir skólastjóri hélt setningarræðu þar sem hún sagði frá fyrirkomulagi skólamála. Kennsla hófst 29. ágúst í stað 23. ágúst eins og áætlað var en ýmis lokafrágangur tafðist lítillega. Starfsfólk skólans ásamt umsjónarmanni fasteigna hafa unnið ötullega að því að koma málum í lag þannig að unnt sé að taka á móti nemendum og hefja starfsemi. Félagar úr björgunarsveitinni Tintron hafa aðstoðað við flutning á húsgögnum og munum úr Ljósafossskóla á Borg og eru þeim færðar þakkir fyrir. Verktakar eru að störfum á efri hæð hússins þar sem skrifstofur aðstoðarskólastjóra og kennara verða ásamt skrifstofum sveitarfélagsins. Þeir munu reyna að haga vinnu sinni þannig að sem minnst ónæði verði fyrir kennara og nemendur. Áætlað er að efri hæðin verði tilbúin um mánaðarmótin september/október. Á næstunni verður unnið að því að flytja leiktæki frá Ljósafossskóla og koma þeim fyrir á Borg. Keypt verður nýtt trampólín sem uppfyllir öryggisreglur. Keypt hafa verið ný borð, stólar, hillusamstæður á hjólum, bókahillur og vélar í smíðastofu. Súluborðvél, saumavélaborð og fleira kemur á næstunni. Starfið er þróast og mótast og allt að komast í fastar skorður en auðvitað er það svo að þegar verið er að hefja rekstur á nýjum stað þarf ákveðinn aðlögunartíma.