Fréttir af gömlu heimasíðunni – 2. hluti

lindaFréttir

Sameiningarmál

Íbúafundur vegna sameiningar sveitarféalga var haldinn á Borg 6. september s.l. Oddviti gerði grein fyrir starfi samstarfsnefndar um sameiningu þeirra fjögurra sveitarfélaga sem kosið verður um 8. október n.k. og baðst velvirðingar á þeim mistökum sem urðu við dreifingu gagna er áttu að berast á hvert á heimili fyrir fund. Haldnir hafa verið sex fundir, íbúaþing skipulagt í samstarfi við ráðgjafafyrirtækið Alta og kynningarbæklingum hefur verið dreift á heimili. Íbúaþingið var haldið í Skálholti þann 29. júní s.l, og bar yfirskriftina ,,Sóknarfæri í uppsveitunum. Sundur eða saman?’’ Tilgangur þingsins var að gefa íbúum viðkomandi sveitarfélaga kost á að ræða og móta framtíðarsýn fyrir svæðið hvort sem um sameiningu verður að ræða eða áframhaldandi samvinnu. Á íbúafundinn mætti félagsmálaráðherra, Árni Magnússon og fjallaði um kosti sameiningar. Íbúar fengu síðan að beina til hans spurningum sem hann svaraði eftir bestu getu. Þau mál sem fengu mesta athygli á fundinum voru samgöngumál, skólamál og öldrunarmál. Rætt var um mikilvægi þess að hraða framkvæmdum við breikkun vegar á Hellisheiði. Það er stefna samstarfsnefndar að ákveða ekki hvar stjórnsýslan, skólar og svo framvegis verði staðsett. Með því móti er verið að lofa upp í ermar næstu sveitarstjórnar. Rætt var um eldri sameiningu, þ.e. Grímsneshrepps og Grafningshrepps og voru flestir sammála um að sú sameining hefði heppnast vel. Ýmislegt fleira bar á góma og tóku gestir virkan þátt í umræðum. 
 

FMR

Á fund sveitarstjórnar þann 24. ágúst s.l. var lagt fram til kynningar erindi frá Fasteignamati ríkisins dags. 5. júlí 2005 um endurmat á sumarbústöðum og sumarbústaðalóðum. Mat sumarbústaða og sumarbústaðalóða í Grímsnes-og Grafningshreppi hækkaði um 19,8% en mat óbyggðra sumarbústaðalóða lækkaði um 6,2%. 
 

Gámasvæði

Nú er gámasvæðið nánast tilbúið eftir miklar endurbætur. Rampur er tilbúinn til malbikunar, lagt hefur verið vatn og rafmagn á svæðið og er það nú upplýst. Búið er hækka planið og steypa hluta af því. Það eru Hákon Gunnlaugsson og Sigurjón Hjartarson sem unnið hafa að framkvæmdum. Nú er enn meiri hvati til að ganga vel um svæðið og flokka rétt í gámana. Einnig er bent á mikilvægi þess að ganga vel um gámana sem staðsettir eru víða um sveitarfélagið og að ekkert sé sett í þá nema heimilissorp. 
 

Sogsbakkar

Framkvæmdum við Sogsbakka, nýtt sumarhúsahverfi, miðar ágætlega og á verkinu að ljúka nú á næstu vikum. Það er Sigurður Jónsson sem hefur unnið að framkvæmdum við götur, gönguleiðir og veitur á svæðinu. 
 

Borg

Framkvæmdir við íbúabyggðina á Borg eru hafnar og eru í umsjón Sigurjóns Hjartarsonar. Verkinu miðar samkvæmt áætlun en endanleg verklok eru áætluð 15. desember 2005. 
 

Grímsævintýri-Grímsævintýri

Fjöldi manns lagði leið sína í Grímsnesið þann 6. ágúst s.l. þegar Grímsævintýrið var haldið. Sterkustu menn landsins kepptu um titilinn Uppsveitarvíkingurinn 2005 og það var austfjarðartröllið Guðjón Gíslason sem bar sigur úr býtum. Í markaðstjaldinu var boðið upp á ýmsan varning s.s. lífrænt ræktað grænmeti, kökur, braut, sultur og alls kyns handverk. Tombólan var á sínum stað og seldust miðar upp á skömmum tíma. Um alla sveit var síðan boðið upp á ýmis tilboð og atburði. Á Minniborgum var kynning á svokölluðum skógarþorpum sem er sjálfstæð eining sjö sumarhúsa girt af með skjólvegg. Landsvirkjun bauð upp á skoðunarferðir um virkjunina á Ýrufossi ásamt ljósmynda og myndlistasýningum í Ljósafossvirkjun. Í versluninni á Borg var tilboð á ís og kaffi með heimabökuðum kökum var selt á Gömlu Borg. Í Þrastarlundi var síðan boðið upp á mat og myndlist. Dagurinn heppnaðist vel, sífellt fleiri gestir mæta á Grímsævintýrið og ljóst að það er komið til að vera.
 

Sameining sveitarfélaga

Eins og fram hefur komið munu sveitarfélögin í uppsveitum Árnessýslu kjósa um sameiningu þann 8. október n.k. Til að fá íbúa svæðisins með í umræðu um framtíð uppsveitanna hélt sameiningarnefndin íbúaþing í Skálholti þann 29. júní síðastliðinn við góðar undirtektir. Þinginu stjórnaði vaskur hópur ráðgjafa frá ráðgjafafyrirtækinu Alta og mættu um 80 manns á þingið. Yfirskrift þingsins var Sóknarfæri í uppsveitunum: Sundur eða saman? Þar gafst íbúum tækifæri til að ræða sína framtíðarsýn fyrir uppsveitirnar hvort sem er í samstarfi eða sameiningu. Helstu niðurstöður þingsins eru þær að samgöngur eru forsendur fyrir samtengingu og samvinnu uppsveitanna. Ýmsar gagnlegar ábendingar um skólamál, félagsmál, skipulagsmál og stjórnsýslu komu fram en segja má að lykillinn að farsælum lausnum á öllum þessum málum séu bættar samgöngur og lagði þingið til að lögð yrði Uppsveitabraut sem lægi frá Þingvöllum í gegnum Laugarvatn, Reykholt, Flúðir og Árnes. Niðurstöður þingsins verða aðgengilegar á sameiginlegri heimasíðu uppsveitanna www.sveitir.is en einnig munu niðurstöðurnar verða kynntar og ræddar frekar á íbúafundum í hverju sveitarfélagi fyrir sig í september. Sameiningarnefnd þakkar íbúum uppsveitanna fyrir frábæra þátttöku á þinginu og vonar að samstarfið verði áfram á þeim jákvæðu nótum sem þar komu fram. 
 

Sundlaug og íþróttahús

Sveitarstjórn ákvað á fundi þann 18. maí að gengið yrði til samninga við fasteignafélagið Fasteign hf. um byggingu íþróttahúss og sundlaugar á Borg. Áætlaður kostnaður er um 290 milljónir kr. Hugmyndin hafði áður verið kynnt á íbúafundi 16. nóvember 2004. Teikningar af mannvirkjum voru lagðar fram á fundinum og er áhugasömum velkomið að koma á skrifstofuna og kynna sér þær. 

Fulltrúar í fræðslunefnd

Guðrún Þórðardóttir verður fulltrúi sveitarfélagsins í þriggja manna fræðslunefnd tveggja sveitarfélaga, Bláskógabyggðar og Grímsnes-og Grafningshrepps og varamaður Árni Þorvaldsson. Áheyrnarfulltrúi í fræðslunefnd verður Sigríður Jónsdóttir. 

Samgöngumál

Vegagerð hefur sent sveitarstjórn bréf þar sem fram kemur að gert er ráð fyrir 121 milljónum króna á árunum 2005-2007 til að ljúka uppbyggingu Sólheimavegar. Einnig er gert ráð fyrir 36 milljónum króna fjárveitingu til Búrfellsvegar á árinu 2008 til að hefja uppbyggingu á honum frá Biskupstungnabraut. Ekki er gert ráð fyrir fjárveitingum á Samgönguáætlun 2005-2008 til Grafningsvegar neðri (350). 

Reiðvegir

Reiðvegasjóður hefur samþykkt að veita 2.5 milljón króna styrk til hestamannafélagsins Trausta vegna reiðvegagerðar. Sveitarstjórn samþykkti á fundi 1. júní að þeir fjármunir sem lagðir verða til reiðvegagerðar í Grímsnes-og Grafningshrepps af Reiðvegasjóði verði tvöfaldaðir með framlagi frá sveitarfélaginu. 

Refir og minkar

Á fundi sveitarstjórnar þann 1. júní var lagt fram til kynningar erindi frá Umhverfisstofnun þar sem fram kemur að gert er ráð fyrir óbreyttum viðmiðunartaxta launa og verðlauna fyrir refi og minka. Áætlað er að endurgreiðsluhlutfall verði lækkað í a.m.k. 30% svo hægt verði að standa við fjárlög. Sveitarstjórn harmar afstöðu ríkisins gagnvart þessum vágestum sem refur og minkur er í náttúru Íslands og telur að frekar ætti að auka fé til veiða í stað þess að draga úr því. 

Grímsævintýri

Tombólu-og markaðsdagur, Grímsævintýri verður haldið þann 6. ágúst næstkomandi. Æskulýðs-og menningarmálanefnd hefur komið saman tvisar til að undirbúa þann dag ásamt 17. júní. 

17. JÚNÍ Í GRÍMSNES-OG GRAFNINGSHREPPI

17. júní var haldinn hátíðlegur í Grímsnes-og Grafningshreppi. Veðrið lék við hátíðargesti eins og aðra sunnlendinga. Dagskráin hófst með skrúðgöngu frá verlsuninni Borg þar sem allir sem vildu fengu gefins blöðrur, fána og rellur. Frá versluninni var gengið að félagsheimilinu þar sem Böðvar Pálsson flutti hátíðarræðu og fjallkonan, Friðsemd Erla Þórðardóttir flutti ávarp. Að því loknu fóru gestir út í sólina og tóku þátt í fjölskylduhlaupi þar sem allir þátttakendur fengu verðlaunapening. Farið var í reipitog, hoppað á trampólíni og margt fleira. Sveitarstjórn bauð að venju upp á grillaðar pylsur og gos sem gestir kunna vel að meta. Flestir þyrpast svo í verslunina Borg til Hildar Magnúsdóttur og fá sér þjóðhátíðarís sem seldur er á 50 kr. í tilefni dagsins og í kaffihlaðborð til Lisu Thomsen á veitingastaðnum Gömlu Borg þar sem boðið er upp á heimabakaðar kökur og listsýningar.

Ljósafosslaug

Sundlaugin á Ljósafossi hefur verið seld til einkaaðila. Það var Steinar Árnason eigandi Syðri-Brúar sem keypti sundlaugina. Sundlaugin verður til að byrja með opin föstudaga, laugardaga og sunnudaga frá kl. 10.00-19.00 Hópar geta pantað tíma í síma 847-3684. 

Skólamál

Bláskógabyggð og Grímsnes-og Grafningshreppur vinna þessa dagana að samstarfssamningi sem gerir ráð fyrir aukinni samvinnu milli skóla sveitarfélaganna. Reiknað er með að allt starfsfólk verði ráðið við grunnskóla Bláskógabyggðar og Grímsnes-og Grafningshreppur kaupi þjónustu þaðan. Allur annar rekstrarkostnaður s.s. efniskaup, skólaakstur og húsnæðiskostnaður verður óbreyttur, þ.e. á vegum hvors sveitarfélags fyrir sig. Starf skólastjóra Ljósafossskóla verður lagt niður en allir aðrir starfsmenn sem starfa við Ljósafossskóla fá áframhaldandi starf við Ljósuborgarskóla. Ein þriggja manna sameiginleg fræðslunefnd verður starfandi fyrir báða skólana og jafnframt fyrir leikskóla sveitarfélaganna. Bláskógabyggð mun eiga tvo fulltrúa í nefndinni og Grímsnes- og Grafningshreppur einn fulltrúa. Samningurinn gengur út á að efla skólastarf og faglegt samstarf kennara við grunnskóla sveitarfélaganna og draga úr faglegri einangrun. Markmið samstarfsins er að auka fjölbreytni og fjölga fagmenntuðu starfsfólki og viðhalda faglegum gæðum. 

Aðstoðarskólastjóri

Ráðinn hefur verið aðstoðarskólastjóri við Ljósaborg, Hilmar Björgvinsson sem gengt hefur starfi deildarstjóra við Vallaskóla á Selfossi. 

Samgöngumál

Sveitarstjórn óskaði eftir því við Vegagerðina að Búrfellsvegur verði byggður upp og sett á hann bundið slitlag hið fyrsta. Mikil umferð er um veginn, malarflutningar frá Seyðishólum og fjöldi manns leggur leið sína á gámasvæði við Seyðishóla þar sem aðalmóttaka og flokkun á sorpi er í sveitarfélaginu. Fjöldi sumarhúsa er við veginn sem eru í notkun jafnt sumar sem vetur. Rykmökkur liggur yfir öllu svæðinu á sumrin þegar veður er gott og er það með öllu óþolandi fyrir íbúa og þá sem vilja eyða frístundum sínum þar. Skorað var á Vegagerðina að hefja framkvæmdir við uppbyggingu vegarins hið fyrsta þannig að hann beri þá umferð sem um hann fer. Einnig var ítrekuð ósk um samstarf við Vegagerðina varðandi framkvæmdir við Grafningsveg neðri Þingmönnum Suðurlands var sent afrit af bréfinu. Áframhaldandi framkvæmdir við Sólheimaveg verða boðnar út í haust af Vegagerðinni. Umsögn um þingsályktun vegna samgönguáætlunar 2005 –2008 Sameiginlegur fundur oddvita og sveitarstjóra í uppsveitum Árnessýslu, Bláskógabyggðar, Grímsnes-og Grafningshrepps, Hrunamannahrepps og Skeiða-og Gnúpverjahrepps mánudaginn 25. apríl 2005 samþykkti eftirfarandi bókun vegna samgöngumála í uppsveitum Árnessýslu. Sveitarstjórnirnar eru sammála um að samgöngumál sveitarfélaganna séu grundvallaratriði í búsetu og þróun byggðar og atvinnuuppbyggingar í sveitarfélögunum. Samgöngubætur á þessu svæði eru einnig grundvallarforsenda viðræðna um sameiningu sveitarfélaganna. Fundurinn krefst þess að unnið sé að úrbótum á tengivegum sveitarfélaganna og að til þess komi aukið fé og um verði að ræða markvissari og varanlegri aðgerðir m.a. með lagningu bundins slitlags. Tengivegir eru mikið notaðir m.a. til aksturs skólabarna en foreldrar gera mikla kröfu á gæði vega og tengja það við búsetu. Viðhald og uppbygging safn- og tengivega hefur verið í lágmarki og þarf að auka verulega og eru mörgum óloknum verkefnum í uppsveitum Árnessýslu. Lagning Gjábakkavegar og brú yfir Hvítá er forsenda þess að hægt sé að mynda heilsteypt þjónustu og atvinnusvæði í uppsveitum Árnessýslu og því er það sérstakt ánægjuefni að nú liggur fyrir fjármagn vegna lagningu Gjábakkavegar. Brú yfir Hvítá er næsta stórverkefni og eru 180 millj. ætlaðar í hana á árunum 2007-2008. Sveitarfélögin óska eftir upplýsingum frá samgöngunefnd hvenær vænta megi lokafjármagns vegna brúarsmíðinnar en allar væntingar íbúa samkvæmt áætlun samgönguáætlunar eru þær að það verði hægt að aka yfir brúnna á árinu 2009 ef ekki næst inn nýtt fjármagn fyrr. 

Sameining sveitarfélaga

Samþykkt hafa verið ný lög á Alþingi um breytingu á sveitarstjórnarlögum sem fela í sér að kosið verður um sameiningu sveitarfélaga laugardaginn 8. október 2005. Samkvæmt lokatillögum sameingarnefndar sem félagsmálaráðherra skipaði 12. desember 2003 verður kosið um sameiningu eftirtalinna sveitarfélaga: Bláskógabyggðar, Hrunamannahrepps, Grímsnes-og Grafningshrepps og Skeiða- og Gnúpverjahrepps. Sveitarstjórnum er gert að tilnefna tvo fulltrúa í samstarfsnefnd sem annist undirbúning atkvæðagreiðslu um tillöguna og gerð kynningarefnis um áhrif hugsanlegrar sameiningar. Sveitarstjórn samþykkir að Gunnar Þorgeirsson og Margrét Sigurðardóttir verði fulltrúar Grímsnes-og Grafningshrepps. 

Dómur hæstaréttar um lögheimili

Á fundi sveitarstjórnar þann 20. apríl var tekinn fyrir dómur Hæstaréttar frá 14. apríl 2005 um lögheimili í frístundabyggð. Í málinu krafðist fjölskylda viðurkenningar á því að lögheimili þeirra væri í húsi á skipulögðu frístundarbyggðarsvæði. Dómurinn féll á grundvelli 2. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1990 um lögheimili. Sveitarstjórn telur málið alvarlegt og dóminn algjörlega á skjön við skipulags-og byggingarlög og alla þá vinnu sem sveitarfélagið hefur lagt í þar að lútandi. Greinilegt er að galli er í lögum nr. 21/1990 um lögheimili sem felst í því að fólki er heimilt að eiga lögheimili á skipulögðu frístundasvæði. Öll þjónusta verður ómarkviss og kostnaðarsöm með byggðir dreifðar um allt sveitarfélag. Einnig er ófyrirséð hvað þeir aðilar gera sem eiga sumarhús í frístundabyggðum ef þær breytast í íbúabyggð með fastri búsetu. Sveitarstjórn skorar á Alþingi að breyta lögum nr. 21/1990 á vorþingi þannig að skýrt sé kveðið á um að ekki sé löglegt að eiga lögheimili í skipulagðri frístundabyggð. 
 
Frumbyggjar Ásborga í Grímsnes-og Grafningshreppi

Skrifað var undir kaupsamning á dögunum við fyrstu kaupendur heilsárslóða í Ásborgum í landi Ásgarðs, Grímsnes-og Grafningshreppi. Það voru hjónin Ólafur Laufdal Jónsson og Kristín Ketilsdóttir sem keyptu lóðina af sveitarfélaginu og hyggjast þau hefja framkvæmdir við byggingu íbúðarhúss um leið og framkvæmdum við vegi og lagnir lýkur nú í haust. Sveitarfélagið er með lóðirnar til sölu og hefur eftirspurn verið talsverð enda um sérlega fallegar lóðir að ræða á bökkum Sogsins þar sem fólki er gefinn kostur á að flytja lögheimili sitt og búa á friðsælum stað.  

Steingrímsstöð

Eftirfarandi bókun sveitarstjórnar frá fundi 9. mars s.l. hefur fengið talsvert mikla athygli í fjölmiðlum: Umræður hafa verið um það undanfarið í fjölmiðlum að Steingrímsstöð í Efra-Sogi verði lögð af og jafnvel rifin til að tryggja vöxt og viðgang Þingvallaurriðans. Sveitarstjórn Grímsnes-og Grafningshrepps mótmælir þessum hugmyndum og öllum öðrum hugmyndum er gætu valdið því að mýbit myndi aukast á svæðinu. Það er stefna sveitarstjórnar að skapa sem heppilegust skilyrði fyrir frístunda- og íbúðabyggð í sveitarfélaginu og allar aðgerðir er leitt gætu til aukningar mýbits er í algjörri andstöðu við þær hugmyndir. Það er bagalegt þegar þingmenn Suðurlands tala ekki við þá aðila sem byggja og stýra sveitarfélaginu áður en hlaupið er í fjölmiðla með hástemmdar yfirlýsingar um svo veigamiklar breytingar sem niðurrif virkjunar er. 

Búrfellsvegur

Á fundi sveitarstjórnar þann 9. apríl s.l. var tekið undir áskorun félags sumarhúsaeigenda við Þórsstíg um mikilvægi þess að hefja þegar í stað undirbúning vegna uppbyggingar Búrfellsvegar og tryggja að fjárveitingar fáist til framkvæmdanna við næstu endurskoðun vegaáætlunar. 

Endurskoðun greinargerðar með aðalskipulagi sveitarfélagsins.

Í greinargerð með aðalskipulagi sveitarfélagsins 2002-2014, landbúnaðarsvæði, er gert ráð fyrir allt að þremur íbúðarhúsum á jörðum. Þar sem það er hagur sveitarfélagsins að fjölga íbúum og eftirspurn er eftir búsetu á bújörðum, telur sveitarstjórn rétt að endurskoða ofangreint ákvæði um lóðir sem yrðu staðsettar nærri bæjarhúsum og gætu nýtt vegtengingar og lagnaleiðir. Sveitarstjórn samþykkti því á fundi sínum þann 23. mars s.l. að stefna að því að gera breytingu á aðalskipulagi sem gerir ráð fyrir fjölgun íbúðarhúsa á bújörðum. 

Álagningarseðlar

Eigendur fasteigna í sveitarfélaginu hafa nú fengið senda álagningarseðla. Aftan á álagningarseðlunum eru upplýsingar um fasteignaskatt og önnur álögð gjöld s.s. sorphirðugjöld, vatnsgjöld og lóðarleigugjöld. Þar er einnig kynning á nýju gjaldi í þjónustuflokki, rotþróargjaldi. Það byggir á samþykkt sveitarstjórnar um að koma á hreinsun fráveituvatns og reglubundinni losun, vinnslu eða förgun seyru. Samþykktin er gerð á grundvelli laga um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerða um fráveitur og skólp ásamt reglugerð um meðhöndlun seyru. Samþykktin gerir ráð fyrir að sveitarfélagið sjái um hreinsun allra rotþróa í sveitarfélaginu á a.m.k. þriggja ára fresti. Sveitarfélaginu verður skipt í þrjú svæði og verður fyrsta svæðið hreinsað í sumar. Kostnaður greiðist af húseigendum með gjaldi sem er 4.900 kr. á ári. Í sumar verður hreinsað úr rotþróm við Kiðjabergsafleggjara, Haun meðtalið. Allar þrær þar fyrir austan að Brúará, Sólheimavegur meðtalinn.

Álagning fasteignaskatts er gerð samkvæmt II kafla laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995. Þar segir að leggja skuli árlega fasteignaskatt á allar fasteignir sem metnar eru í fasteignamati. Það er síðan Fasteignamat ríkisins sem metur fasteignirnar. Fasteignaskattur er lagður á í tveimur flokkum sem skiptast í eftirfarandi:

a-flokkur 0,50% af fasteignamati:
Íbúðir og íbúðarhús ásamt lóðarréttindum, erfðafestulönd í dreifbýli og jarðeignir, útihús og mannvirki á bújörðum sem tengd eru landbúnaði, öll hlunnindi og sumarbústaðir ásamt lóðarréttindum.
b-flokkur 1,45% af fasteignamati:

Allar aðrar fasteignir svo sem iðnaðar-skrifstofu- og verslunarhúsnæði, fiskeldismannvirki, veiðihús og mannvirki sem nýtt eru fyrir ferðaþjónustu.

Önnur álögð gjöld, svo sem sorphirðugjöld, rotþróuargjöld og vatnsgjöld hafa sömu gjalddaga og fasteignaskattur og er innheimtu þeirra hagað á sama hátt.
Þeir gjaldendur sem greiða 25.000 kr. og minna eru með einn gjalddaga, 1. maí ár hvert.
Þeir gjaldendur sem greiða 25.001 kr. –90.000 kr. greiða á þremur gjalddögum, 1. apríl, 1. maí og 1. júní ár hvert.
Þeir gjaldendur sem greiða 90.001 eða meira eru með fimm gjalddaga, 1. mars, 1. apríl, 1. maí, 1. júní og 1. júlí ár hvert.
Vakin er athygli á lið á heimasíðu, www.gogg.is sem heitir gjaldskrá og er undir stjórnsýslu þar sem fram koma allar gjaldskrár sveitarfélagsins. 

Vatnsgjald

Vatnsgjald frá vatnsveitu sveitarfélagsins er 0,2% af álagningarstofni fasteigna skv. 7. og 8. gr.laga um vatnsveitur sveitarfélaga nr. 81/1991 með síðari breytingum. Á þeim lóðum sem ekki hefur verið byggt á en hafa tengst vatni er innheimt fast árgjald kr.3.000. 

Námsstyrkur

Sveitarfélagið hefur undanfarin ár greitt námsstyrk til ungmenna á aldrinum 16-20 ára sem stunda nám við framhaldsskóla. Styrkurinn nemur 30.000 kr. á önn. Þeir aðilar sem hyggjast nýta sér þetta er bent á að skila inn vottorði um skólavist sem gildir sem umsókn. Styrkurinn er greiddur út 1. apríl á vorönn ár hvert og 1. nóvember á haustönn. 

Kynnisferð til Norðurlanda

Oddvitar, sveitarstjórar, skipulagsfulltrúi, byggingarfulltrúi og ferðamálafulltrúi uppsveita Árnessýslu fóru í námsferð 1.-7. mars til að kynna sér skipulags-byggingar-og ferðamál. Farið var til Noregs, Svíþjóðar og Danmerkur og skoðuð sumarhúsasvæði í dreifbýli í nágrenni þéttbýlis þar sem áhersla er lögð á menningartengda ferðaþjónustu. Sveitarstjórnarmenn þeirra svæða sem heimsótt voru tóku á móti hópnum og kynntu stjórnsýslu, skipulagsmál, ferðaþjónustu og margt fleira ásamt því að fara með hópinn í skoðunarferðir. Ferðin var vel heppnuð og skilaði hugmyndum og innsýn í hvernig nágrannar okkar haga sínum málum sem er dýrmætt fyrir okkur sem sinnum þessum sömu málum hér heima. 

Íbúafjöldi

Samkvæmt bráðabirgðatölum frá Hagstofu Íslands eru íbúar sveitarfélagsins 344 að tölu.
Karlar eru 185 og konur 159 

Fjárhagsáætlun 2005

Á fundi sveitarstjórnar Grímsnes-og Grafningshrepps þann 15. desember 2004 var fjárhagsáætlun sveitarfélagsins samþykkt eftir tvær umræður. Gert er ráð fyrir að rekstrarniðurstaða fjárhagsáætlunar 2005 A og B hluta verði 52.063 þús. Veltufé frá rekstri verði 58.675 þús., fjárfesting í varanlegum rekstrarfjármunum 80.900 þús. og afborganir langtímalána er áætluð 12.110 þús. Ekki er gert ráð fyrir nýjum lántökum á árinu. Stærstu fjárfestingaráætlanir eru: nýbygging gatna og stíga, 10 milljónir, framkvæmdir við nýtt frístundasvæði í Ásgarði, 38 milljónir, innbú og tæki í skóla 6 milljónir, framkvæmdir vegna aukinnar þarfar á heitu vatni á Borgarsvæðinu, 24 milljónir.
 

Ljósaborg

Fyrsta skóflustungan að nýjum skóla og stjórnsýsluhúsi var tekin föstudaginn 10. desember s.l. Það voru börn í 1-2 bekk Ljósafossskóla sem það gerðu. Hið nýja hús mun í heildina verða 772,7 fm á tveimur hæðum. Á neðri hæð verður kennslurými en á efri hæð er gert ráð fyrir stjórnsýslu, skrifstofu skólastjóra, vinnuaðsöðu fyrir kennara, geymslu og fundarherbergi. Framkvæmdir munu hefjast mjög fljótlega og er áætlað að taka húsið í notkun fyrir næsta haust. Það er teiknistofan Tröð sem hannaði útlit hússins og verkfræðistofan Línuhönnun hf hefur séð um verkfræðiþáttinn. Eins og kunnugt er mun fasteignafélagið Fasteign hf sjá um framkvæmdir og viðhald og sveitarfélagið leigir síðan húsið af þeim. Þeir hafa samið við JÁ verktaka um smíðaþáttinn. Það er Ingileifur Jónsson á Svínavatni sem sér um jarðvegsvinnuna fyrir JÁ verktaka. Undirbúningur skólans var með þeim hætti að foreldrar og skólafólk hittist í nokkur skipti í sumar og fór í gegnum skemmtilegt vinnuferli sem skipulagt var og framkvæmt af sérstakri nefnd um nýjan skóla. Haldnir voru fyrirlestrar, fólk vann mikla hugmyndavinnu og gerður var grunnur að starfi fyrir nýjan skóla. Kveikt var á jólaljósum á jólatréi og það voru börn í 3-4 bekk Ljósafossskóla sem sáu um að setja ljósin í samband.Börn úr Ljósafossskóla sungu fyrir viðstadda jólalag. Skógræktarfélag Árnessýslu gaf sveitarfélaginu myndarlegt tré úr skógrækt sinni á Snæfoksstöðum, um 8 metra hátt. Kynntur var verðlaunahafi í samkeppni sem efnt var til meðal skólabarna um nafn á nýjum skóla. Það var Inga-Lill Maríanna Björnsdóttir í 2. bekk Ljósafossskóla sem vann að mati fræðslunefndar með nafnið Ljósaborg. Ragnar Atli Guðmundsson framkvæmdastjóri Fasteignar hf og Margrét Sigurðardóttir sveitarstjóri skrifuðu formlega undir samning um leigu á skóla og stjórnsýsluhúsi. Kennsla í nýjum skóla mun hefjast haustið 2005. Skoða myndir 

Fræðslufundur um atvinnumál

Fimmtudaginn 18. nóvember var haldinn fræðslufundur um atvinnumál fyrir íbúa Grímsnes-og Grafningshrepps og Bláskógabyggðar að Borg í Grímsnesi. Á fundinn mættu starfsmenn Atvinnuþróunarsjóðs, atvinnu-og jafnréttisfulltrúi Suðurlandskjördæmis og ferðamálafulltrúi uppsveita Árnessýslu. Markmið fundarins var að gera íbúum grein fyrir þeirri faglegu ráðgjöf sem þeim býðst og að upplýsa um opinberan stuðning sem landsbyggðarfólki gefst. Fundinn sátu um 20 manns sem hlýddu á góða fyrirlestra um allt mögulegt sem viðkemur stofnun og s.s. hvar hægt sé að leita styrkja, hvernig skattaumhverfið er, leyfisveitingar og margt fleira.Skoða myndir 

Íbúafundur

Almennur fundur fyrir íbúa Grímsnes-og Grafningshrepps var haldinn þann 16. nóvember síðastliðinn. Rætt var um sameiningarmál, kynntar framkvæmdir við skóla og stjórnsýsluhús á Borgarsvæðinu og drög að fjárfestingaráætlun sveitarstjórnar. Sameiningarmál eru hitamál og spunnust líflegar umræður um þau. Samkvæmt tillögum nefndar um sameiningu er æskilegt fyrir uppsveitir Árnessýslu að kjósa um sameiningu, það er Grímsnes-og Grafningshreppur, Bláskógabyggð, Skeiða-og Gnúpverjahreppur og Hrunamannahreppur. Það var almenn skoðun fólks að ekki væri forsenda til slíkrar sameiningar miðað við þau viðamiklu verkefni sem sameiningarnefnd telur æskilegt að flytja til sveitarfélaga. Talsverðar umræður urðu um samþykkt sveitarstjórnar þess eðlis að fá einkaaðila til að byggja og eiga skóla og stjórnsýsluhús og sveitarfélagið leigi síðan af þeim gegn mánaðargreiðslu. Nánast allir voru sáttir við þessa ákvörðun og hvöttu sveitarstjórn til að stuðla að frekari framkvæmdum á svæðinu með sama fyrirkomulagi. Því er líklegt að fljótlega verði tekin til umfjöllunar í sveitarstjórn hugmyndir að byggingu íþróttahúss og sundlaugar og þannig stuðlað að enn frekari uppbyggingu á Borg og mun fjárhagsáætlun sveitarfélagsins taka mið af því. Leggja þarf hitaveitu á svæðið, byggja upp götur og fleira. 

Sameiningarmál

Sveitarstjórn hafa borist tillögur nefndar sem félagsmálaráðherra skipaði til að undirbúa og leggja fram tillögu um breytta sveitarfélagsskipan.

Í bréfi frá nefndinni segir að markmiðið sé að hvert sveitarfélag verði heildstætt atvinnu-og þjónustusvæði.

Samkvæmt tillögum sem liggja fyrir verður líklega kosið um sameiningu sveitarfélaga þann 23. apríl 2005. Sameining sveitarfélaga telst samþykkt ef íbúar allra sveitarfélaga samþykkja sameiningartillöguna og tekur þá gildi 9. júní 2006.
Ef tillaga sameiningarnefndar hlýtur ekki samþykki íbúa í öllum sveitarfélögum sem tillagan varðar en meiri hluti þeirra sem afstöðu taka í atkvæðagreiðslu um sameiningartillögu er hlynntur sameiningu verða atkvæði greidd aftur innan sex vikna í sveitarfélögum þar sem tillagan var felld. Skilyrði er að tillagan hafi verið samþykkt í a.m.k. tveimur sveitarfélögum. Eftir síðari atkvæðagreiðslu er sveitarstjórnum sveitarfélaga sem samþykktu sameiningartillöguna heimilt að ákveða sameiningu þeirra sveitarfélaga.

Tillaga sameiningarnefndar er að uppsveitir Árnessýslu, sveitarfélögin Grímsnes-og Grafningshreppur, Bláskógabyggð, Hrunamannahreppur og Skeiða-og Gnúpverjahreppur verði sameinuð. Alls búa 2.508 manns á svæðinu sem nær yfir 7.807 km2.

Tillögur nefndar um sameiningu liggja frammi á skrifstofu sveitarfélagsins til skoðunar. Sveitarstjórnum og almenningi gefst tækifæri til að skila inn rökstuddum athugasemdum við tillögurnar til 1. desember næstkomandi. Eftir umsagnartíma fer sameiningarnefnd yfir athugasemdir sem berast og metur hvort ástæða sé til að breyta einhverjum af tillögum eða draga þær til baka. 

Fréttir af skólabyggingu

Þessa dagana er í gangi undirbúningsferli vegna byggingar skóla og stjórnsýsluhúss á Borg. Verkfræðingar og arkitektar eru að hanna burðarþol, loftræstikerfi og lagnir. Húsið hefur stækkað talsvert síðan að fyrstu drög voru kynnt í haust, eða úr 683 fm í 783 fm. Ýmsar ábendingar komu frá íbúum, nefnd um byggingu nýs skóla og skólafólki sem tekið var tillit til.
Skipulagsmál þarf að klára áður en hægt er að hefja framkvæmdir og er breyting á deiliskipulagi í auglýsingu til 3. desember. Eftir að það liggur fyrir og allri undirbúningsvinnu er lokið, er hægt að hefja framkvæmdir. Áætlað er að þeim verði lokið og byggingin afhent sveitarfélaginu til leigu 15. ágúst 2005. Eins og fram kom í síðasta fréttabréfi mun eignarhaldsfélagið Fasteign hf sjá um allar framkvæmdir við undirbúning, byggingu og fjármögnun og leigja síðan sveitarfélaginu. Mánaðarleiga verður 0,685% af byggingarkostnaðarverði eignar. 

Félagsheimilið Borg

Það sem er helst á döfinni í félagsheimilinu á næstunni er eftirfarandi: Ungmennafélagið Hvöt er með sviðaveislu 13. nóvember. Tónleikar með Álftagerðisbræðrum verða 4. desember n.k. Búið er að bóka þorrablót 28. janúar 2005 og ráðgert er að fá leikritið Vodkakúrinn seinnipartinn í febrúar á næsta ári. Síðan er ætlunin að gera hagyrðingakvöld að árvissum atburði í mars eða apríl. Allt verður þetta væntanlega betur kynnt þegar nær dregur. 

Merktir bílar handa starfsmönnum uppsveita Árnessýslu

Oddvitar uppsveita hafa tekið á rekstrarleigu bíla fyrir sameiginlega starfsmenn sína, byggingarfulltrúa, skipulagsfulltrúa, ferðamálafulltrúa og félagsmálafulltrúa, tvo Hilux bíla og tvo Yaris bíla. Þau þurfa starfa sinna vegna að ferðast mikið en þó með misjöfnum hætti. Þannig þurfa byggingar-og skipulagsfulltrúi gjarna að fara um óbyggðar sumarhúsabyggðir en ferða-og félagsmálafulltrúar eru meira á þjóðvegunum. DV datt í hug að þarna væri verið að mismuna einstaklingum eftir kyni, en byggingar-og skipulagsfulltrúar sem báðir eru karlmenn, fengu jeppa en ferða-og félagsmálafulltrúar sem báðar eru konur, fengu fólksbíla. Vegna þessa samdi Margrét Baldursdóttir, Króki í Bláskógabyggð eftirfarandi vísu sem hér er birt með góðfúslegu leyfi hennar.

Bílakaup oddvitanna
Á starfsfólki gustuk við gerðum
gagnrýndir eflaust þó verðum
því jaxlar á jeppa
við jaris nú keppa,
hver verður fljótari í ferðum?

Við höfum jú krafta í kögglum
vér karlmenn- og aldrei við möglum,
í frosti og fönn
þó förum ei spönn
NEMA- á jeppa með nöglum.

En konur með ráð undir rifi
þær reddast á einu drifi,
í óbyggðir aka
og aftur til baka
Oddvitar lengi lifi!

 
 
Ljósafossstöð 25 ára

Frá Böðvari Pálssyni barst eftirfarandi saga.
Árið 1962 eða 1963, var haldið upp á 25 ára afmæli Ljósafossvirkjunar. Veisla var haldin í mötuneytinu við Ýrufoss. Gestir voru Borgarstjórn Reykjavíkur, rafmagnsstjóri, starfsfólk, vélstjórar og makar við Sogið. Einnig voru í veislunni hjónin á Efri-Brú, Guðmundur Guðmundsson og Arnheiður Böðvarsdóttir og þáverandi oddviti Grímsneshrepps, Páll Diðriksson og kona hans, Laufey Böðvarsdóttir frá Búrfelli.

Vel var veitt í mat og drykk eins og venja er til og þótti oddvitanum nóg um og orti:
Hér er óspart vínið veitt,
varla svo við torgum.
þó ber ekki að þakka neitt,
Það erum við sem borgum.

Páll hafði á orði að sér hefði ekki verið boðið oftar en þó fór það svo að sonur hans, Böðvar var oddviti þegar Ljósafossstöð var 50 ára og haldin var veisla í mötuneytinu við Ýrufoss. Þá var þessi saga rifjuð upp. 

Uppbygging á Borg

Á fundi sveitarstjórnar þann 15. september s.l. var samþykkt að hefja framkvæmdir við grunnskóla og stjórnsýsluhús á Borg. Samið var við fasteignafélagið Fasteign hf. um að framkvæma verkið fyrir sveitarfélagið sem mun síðan leigja af fasteignafélaginu. Félagið hefur mikla reynslu í þróun og rekstri fasteigna sem í flestum tilfellum skilar töluverðri hagræðingu. Þessi aðferð við uppbyggingu fasteigna sveitarfélaga er að verða sífellt algengari og má nefna sem dæmi að Reykjanesbær seldi allar sínar fasteignir til Fasteignar hf. og leigir síðan af þeim. Þannig gat sveitarfélagið greitt niður óhagstæð lán, eignast hlut í félaginu Fasteign hf og látið byggja fyrir sig fasteignir sem ekki hefðu rúmast á fjárhagsáætlun þeirra fyrr en eftir mörg ár. Fleiri sveitarfélög hafa valið þessa leið og má nefna að Garðabær hefur samið við félagið um byggingu nýs skóla, Sjálandsskóla sem opnaður verður næsta haust. Ávinningur sveitarfélaga er m.a. sá að rekstargjöld verða fyrirsjáanlegri og fjárhagsáætlanir þar með áreiðanlegri og svigrúm er til að takast á við ný verkefni. Sveitarfélagið gerir samning til þrjátíu ára við fasteignafélagið en samningur er uppsegjanlegur af hálfu sveitarfélagsins á fimm ára fresti. 

Skólamál

Samningur milli Grímsnes-og Grafningshrepps og Bláskógabyggðar um skólavistun nemenda úr sveitarfélögunum var undirritaður af sveitarstjórum í ágúst. Eins og allir vita hefur verkfall kennara staðið síðan 20. september s.l. og er óskandi að það leysist sem fyrst. Að sögn Arndísar Jónsdóttur skólastjóra grunnskólans í Bláskógabyggð hefur gengið afar vel með nemendur úr Grímsnes-og Grafningshreppi þær vikur sem kennsla stóð yfir, þeir aðlöguðust vel og virtust sáttir. Skólastarf í Ljósafossskóla byrjaði einnig vel. Við fengum gott starfsfólk í stað þess sem hætti s.l. vor. Það eru Sigurborg Kristjánsdóttir, leikskólastjóri sem annast kennslu 1. – 2. bekkjar, Ingileif Thorlacius sem kennir 3. – 4. bekk og Jórunn H. Jónsdóttir sem kennir 5. – 6. bekk, María Huld Hilmarsdóttir og Rósa Jónsdóttir skólaliðar og Elín Marrow Theódórsdóttir matráðskona. Halldór Maríasson, umsjónarmaður fasteigna hóf störf sem húsvörður við skólann síðasta vetur og er sími hjá honum 892-1684. Skólabílstjórar eru þeir sömu og undanfarin ár, Pálmar Sigurjónsson, Jón Haukur Bjarnason og Björgvin Sveinsson. Nýr bílstjóri bættist við, Guðmundur Jóhannesson, sími hjá honum er 868-4115. 

Borg í Grímsnesi

Teikningar af frumhönnun grunnskóla, stjórnsýsluhúss, sundhallar, íþróttahúss og verslunar sem staðsett verða á Borg eru nú til kynningar hér á heimasíðunni og á skrifstofunni Borg á opnunartíma. Í fyrsta áfanga er gert ráð fyrir að reisa skóla með skrifstofu fyrir sveitarfélagið á efri hæð. Teiknistofan Tröð ehf hannaði byggingarnar. Grunnskólinn var hannaður í samráði við þá íbúa sveitarfélagsins sem tóku þátt í undirbúningsvinnu við skipulag á nýjum grunnskóla. Arkitekt kom á fund með foreldrum og kynnti þeim sínar hugmyndir ásamt því að taka við hugmyndum foreldra. Teikningarnar eru til kynningar til 20. ágúst og gefst íbúum tækifæri til að koma með athugasemdir og tillögur. Stefnt er að því að samnýta skólann menningar- og frístundamiðstöð þannig að á veturna verði kennsla tengd einhverskonar safni, (byggða-skóla,skáldasafi) og á sumrin gefst ferðamönnum og íbúum tækifæri til afþreyingar á staðnum. Í öðrum áfanga verður byggður sundlaugargarður þar sem áhersla verður lögð á busllaugar og potta. Gert er ráð fyrir verslun, veitingasölu og bensínafgreiðslu sem tengd verður sundlaug þannig að sundlaugargestir geti fengið sér hressingu.

Sveitarstjóri 

Grímsævintýri

Grímsævintýri var haldið í Grímsnes-og Grafningshreppi á laugardaginn og heppnaðist í alla staði mjög vel. Fjölmenni var og góð stemning á svæðinu. Sterkustu menn landsins kepptu um titilinn Uppsveitarvíkinginn 2004 með því meðal annars að draga dráttarvélar og ýta heyrúllum. Það var Magnús Ver sem sigraði í ár og hlaut hann veglegan bikar frá Íslandsbanka, kjötskrokk frá Grímsnes-og Grafningshreppi og gistingu ásamt morgunverði á Hótel Heklu í boði Sigrúnar Hauksdóttur hótelstýru. Það var við hæfi að Uppsveitarvíkingurinn opnaði nýja og endurbætta vefsíðu Uppsveita Árnessýslu, www.sveitir.is. Til þess voru notaðar þráðlausar nettengingar sveitarfélagsins og var vefurinn opnaður utandyra. Tombóla kvenfélagsins var á sínum stað en þess má geta að hún hefur verið haldin síðan 1926 í Grímsnesi. Kvenfélagskonur voru einnig með flatkökubakstur og gestir kunnu vel að meta heitar flatkökur með smjöri. Á útimarkaði var fjölbreyttur varningur á boðstólum, handverk, lífrænt ræktað grænmeti, sultur, kökur og margt fleira og þar skapaðist sannkölluð markaðsstemning þegar seljendur komu vörum sínum á framfæri. Myndlistarsýning var haldin í félagsheimilinu þar sem íbúar sveitarfélagsins sýndu verk sín og skipulagsuppdrættir sveitarfélagsins voru til sýnis. Þar mátti m.a. sjá teikningar af fyrirhuguðum skóla sem byggður verður á Borg, skrifstofum sveitarfélagsins, sundlaugar-og íþróttahúsi ásamt verslunarhúsnæði. Hoppukastali og trampólín var á staðnum fyrir börnin, Um morguninn var Landsvirkjun með Írafossvirkjun opna fyrir almenning þar sem fólki gafst kostur á að skoða virkjunina og kynna sér sögu hennar undir leiðsögn starfsmanna og í Ljósafossvirkjun var málverkasýning.
Myndir frá Grímsævintýri 

17. JÚNÍ Í GRÍMSNES-OG GRAFNINGSHREPPI

17. júní var haldinn hátíðlegur í Grímsnes-og Grafningshreppi. Veðrið lék við hátíðargesti eins og aðra sunnlendinga. Dagskráin var nokkuð hefðbundin og hófst með skrúðgöngu frá verlsuninni Borg þar sem allir sem vildu fengu gefins blöðrur, fána og rellur. Frá versluninni var gengið að félagsheimilinu þar sem Ólafur Oddur Sigurðsson formaður æskulýðs-og menningarmálanefndar flutti hátíðarræðu og fjallkonan, Kolbrún Guðmundsdóttir flutti ávarp.   
 Að því loknu fóru gestir út í sólina og tóku þátt í fjölskylduhlaupi þar sem allir þátttakendur fengu verðlaunapening. Farið var í reipitog, pokahlaup og margt fleira. Nokkrir hundaræktendur og eigendur í sveitarfélaginu sýndu og kynntu hunda sína sem er skemmtileg nýjung í hátíðarhöldum íbúa. Sveitarstjórn bauð að venju upp á grillaðar pylsur og gos sem gestir kunna vel að meta. Flestir þyrpast svo í verslunina Borg til Hildar Magnúsdóttur og fá sér þjóðhátíðarís sem seldur er á 50 kr. í tilefni dagsins og í kaffihlaðborð til Lisu Thomsen á veitingastaðnum Gömlu Borg þar sem boðið er upp á heimabakaðar kökur og listsýningar.
Myndir 

Girðingar við Biskupstungnabraut

Eigendur jarða við Biskupstungnabraut eru minntir á viðhald á girðingum meðfram veginum. Mikil umferð er um Biskupstungnabrautina á sumrin og talsverð slysahætta er af sauðfé þar. Viðhald girðinga greiðist að jöfnu af veghaldara og landeiganda og er miðað við að viðhaldskostnaður nemi 4% af stofnkostnaði girðinga. Þannig greiðir Vegagerðin 2% af þeim stofnkostnaði. Þegar landeigandi hefur lokið árlegu viðhaldi girðinga með stofnvegum og tengivegum skal hann tilkynna það til sveitarstjórnar. Umsókn um nýjar girðingar þar sem þeirra er þörf liggur fyrir hjá Vegagerðinni sem vonandi fer í þá vinnu næsta sumar. 

Skólamál

Nefnd um nýjan skóla
Nefnd um byggingu nýs skóla á Borg hóf störf sín nú í maí. Ákveðið var að í nefndinni sætu foreldrar í sveitarfélaginu og er hún skipuð Kristínu Jóhannsdóttur, Guðrúnu Þórðardóttur, Sigurborgu Kristjánsdóttur og Birgi Sigurfinnssyni. Á fyrsta fund nefndarinnar kom Kristín Hreinsdóttir forstöðumaður Skólaskrifstofu Suðurlands. Nefndarfólk hefur komið miklu í verk á skömmum tíma. Farið var í Ljósafossskóla og börnin spurð hvernig þau vildu sjá nýjan skóla. Hugmyndir þeirra voru settar á blað og þau teiknuðu öll myndir af fyrirmyndarskólanum. Sýnishorn af þeim myndum hafa birst á fundarboðum síðustu funda. Boðað var til fundar á Borg 27. maí s.l. með öllum íbúum sveitarfélagsins þar sem haldnir voru fyrirlestrar um skólamál. Kristín Hreinsdóttir fjallaði um breytingar sem tækifæri, Hafdís Guðnadóttir lektor við Kennaraháskólann var með fyrirlestur um fjölbreytta kennsluhætti og Baldur I. Sveinsson úr Hraungerðishreppi var með kynningu á stefnumörkun Flóaskóla sem unnin var á svipaðan hátt og íbúar í Grímsnes-og Grafningshreppi eru að gera við skólann á Borg. Allir voru fyrirlestrarnir áhugaverðir og er öruggt að þeir sem þá sátu eru margs vísari um skólamál og hvernig haga má fræðslu og uppbyggingu skóla á margvíslegan hátt. Einnig kom fram að tækifæri íbúa á að hafa áhrif á uppbyggingu skóla væri mjög sérstakt. Þann 2. júní s.l. var síðan boðað til fundar með foreldrum þar sem þeim var skipt í hópa og hugarfluginu gefinn laus taumur. Lagðar voru fram eftirfarandi spurningar:

Hvernig nám viljum við sjá í nýjum skóla?
Hvað er mikilvægt fyrir nemendur (geta, kunna, vita)?
Hvaða væntingar hafa þáttakendur um nýjan skóla á Borg?
Hver á sérstaða skólans að vera?
Hvernig húsnæði vilja þátttakendur sjá?
Hvernig á umhverfi skólans að vera?

Margar hugmyndir komu fram sem allar voru settar á blað og hanga ásamt hugmyndum barnanna á veggjum félagsheimilisins. Á síðasta fund sem haldinn var að þessu sinni kom arkitekt hússins, Sigríður Magnúsdóttir, sem hafði fengið sendar til sín hugmyndir foreldra og barna til að vinna úr og fór yfir þær með fundargestum sem komu með athugasemdir. Fyrirhugað er að arkitektinn muni senda tillögu að húsi í júlí. Tillagan verður sett á heimasíðuna og mun einnig hanga uppi á skrifstofu sveitarfélagsins til kynningar í tvær vikur. Guðrún Þórðardóttir stjórnaði fundum fyrir hönd nefndarinnar. 

Eflum heimabyggð

Sveitarstjórn vill þakka 7.- 10. bekk í Ljósafosskóla fyrir hið skemmtilega verkefni „Eflum heimabyggð“ sem krakkarnir unnu nú í vetur með kennurum sínum, Lindu og Ingveldi. Hugmyndin var góð og verkefnið skilur eftir kunnáttu og þekkingu, ekki bara til þeirra sem það unnu heldur nýtist vonandi sem vitneskja til annara aldurshópa sem eiga eftir að stunda nám á Ljósafossi og seinna á Borg.
Verkefnið fól meðal annars í sér viðtöl við eldri sveitunga um drauga og kynjaverur, skráningu á markverðum stöðum sveitarfélagsins, undirbúning að félagsmiðstöð, skráningu á sögu ungmennafélagins og unnin var heimasíða um hraunið í Miðengi. Nemendur kynntu síðan vinnu sína á árshátíð skólans. 

Lestrarskimun

Á fundi sveitarstjórnar þann 5. maí s.l. var tekið fyrir bréf frá Kristínu Hreinsdóttur forstöðumanni Skólaskrifstofu Suðurlands þar sem gerð var grein fyrir breytingu á reglugerð um sérfræðiþjónustu skóla. Breytingin hefur það í för með sér að skylt er að gera reglulega lestrarskimanir til að fylgjast með lestrarnámi barna. Sveitarstjórn taldi eðlilegt að lestrarskimanir fari fram hjá Skólaskrifstofu Suðurlands en gerði athugasemdir við að ekki er reiknað með fjármagni til sveitarfélaga til að sinna verkefninu. 

Nýtt sumarhúsahverfi í Ásgarðslandi

Bráðlega fer í auglýsingu fyrir sveitarfélagið nýtt deiliskipulag frístundabyggðar í landi Ásgarðs. Svæðið er fyrir sunnan heilsársbyggðina á landi sem er um 34 ha. að stærð. Gert er ráð fyrir 32 sumarhúsalóðum 5.200 fm. til 9.500 fm.að stærð. Hönnuður skipulags er Pétur H. Jónsson arkitekt. 

Grenjavinnsla

Grenjavinnsla fer fram frá 1. júní til 31. júlí. Á þeim tíma má enginn nema ráðinn veiðimaður skjóta ref.
Veiðimaður í Grímsnesi er Gunnar Sigurðsson, sími 892-9320, netfang senjor@bakkar.is
Veiðimaður í Grafningi er Jón Matthías Sigurðsson, sími 897-8680, netfang jonmatti@mmedia.is 

Glímudrottning í Grímsnesinu

Þann 3. apríl sl. fór fram Héraðsmót HSK í glímu á Laugarvatni. UMF. Hvöt átti einn keppanda í mótinu en það var Auður Gunnarsdóttir. Auður tók þátt í Bergþóruglímunni (konur, 16 ára og eldri). Auður gerði sér lítið fyrir og vann flokkinn og fékk því afhent Bergþóruskjöldinn til varðveislu í eitt ár. Auður sem ekki hefur glímt í mörg ár byrjaði aftur að æfa í vetur og stóð sig vel á þeim mótum sem hún tók þátt í í vetur.

Skjaldarglíma Bergþóru, úrslit
1. Auður Gunnarsdóttir, Hvöt, 2,5 vinn.
2. Berglind Kristinsdóttir, Garpi, 2
3. Ólöf Anna Brynjarsdóttir, Bisk., 1,5
4. Hólmfríður Guðmundsdóttir, Dímon, 0
  

Góumót íþróttafélagana Suðra og Gnýs í Boccia

Góumót íþróttafélagana Suðra á Selfossi og Gnýs á Sólheimum í Boccia var haldið á Sólheimum fimmtudaginn 26. febrúar. Þrettán sveitir kepptu á mótinu, sex frá Suðra og sjö frá Gný. Mótið heppnaðist vel enda ekki við öðru að búast þegar stuðboltarnir frá Selfossi sækja Sólheima heim. Öllum keppendum var boðið í herlegt pylsupartí í kaffihúsinu Grænu könnunni í leikhléi. Voru það Sláturfélag Suðurlands á Selfossi og Guðnabakarí sem styrktu mótið um pylsur og pylsubrauð. Þakka keppendur og mótshaldarar þeim kærlega fyrir stuðninginn. Allir keppendur stóðu sig mjög vel og sýndu snilldartakta. Í fyrsta sæti var sveit Gnýs skipuð þeim Helgu Alfreðsdóttur, Sigurdís Sigurðardóttir og Hauki Þorsteinssyni. Í öðru sæti var sveit Gnýs skipuð Maríu Jacobsen, Halldóri Hartmannssyni og Rúnari Magnússyni. Í þriðja sæti voru þau Kristján Þór Steinþórsson, Erla Björk Sigmundsdóttir og Ólafur Benediktsson Sjá Nánar  

Vatnsgjald

Vatnsgjald frá vatnsveitu sveitarfélagsins er 0,2% af álagningarstofni fasteigna skv. 7. og 8. gr.laga um vatnsveitur sveitarfélaga nr. 81/1991 með síðari breytingum. Á þeim lóðum sem ekki hefur verið byggt á en hafa tengst vatni er innheimt fast árgjald kr.3.000.

Grímsnes- og Grafningshreppur hefur nú gengið frá samningi vegna kaupa á kaldavatnsveitu í Búrfellslandi. Keypt var vatnsveitan Blávatn í Ásgarðshrauni og jafnframt gerður samningur til 25 ára um vatnslindir. Þeir sem áður hafa greitt eigendum Búrfells vatnsgjald munu framvegis greiða Grímsnes- og Grafningshreppi gjald sem er það sama og vatnsgjald frá vatnsveitu sveitarfélagsins eða 0,2% af álagningarstofni fasteigna.  

Álagningarseðlar

Eigendur fasteigna í sveitarfélaginu hafa nú fengið senda álagningarseðla. Aftan á álagningarseðlunum eru upplýsingar um fasteignaskatt og önnur álögð gjöld s.s. sorphirðugjöld, vatnsgjöld og lóðarleigugjöld. Þar eru einnig upplýsingar um lyklakerfi að hliðum inn í frístundahúsahverfi ásamt upplýsingum um opnunartíma og símanúmer skrifstofu. Álagning fasteignaskatts er gerð samkvæmt II kafla laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995. Þar segir að leggja skuli árlega fasteignaskatt á allar fasteignir sem metnar eru í fasteignamati. Það er síðan Fasteignamat ríkisins sem metur fasteignirnar. Fasteignaskattur er lagður á í tveimur flokkum sem skiptast í eftirfarandi:

a-flokkur 0,50% af fasteignamati:
Íbúðir og íbúðarhús ásamt lóðarréttindum, erfðafestulönd í dreifbýli og jarðeignir, útihús og mannvirki á bújörðum sem tengd eru landbúnaði, öll hlunnindi og sumarbústaðir ásamt lóðarréttindum.
b-flokkur 1,45% af fasteignamati:
Allar aðrar fasteignir svo sem iðnaðar-skrifstofu- og verslunarhúsnæði, fiskeldismannvirki, veiðihús og mannvirki sem nýtt eru fyrir ferðaþjónustu.

Önnur álögð gjöld, svo sem sorphirðugjöld og vatnsgjöld hafa sömu gjalddaga og fasteignaskattur og er innheimtu þeirra hagað á sama hátt.
Þeir gjaldendur sem greiða 25.000 kr. og minna eru með einn gjalddaga, 1. maí ár hvert.
Þeir gjaldendur sem greiða 25.001 kr. -50.000 kr. greiða á þremur gjalddögum, 1. apríl, 1. maí og 1. júní ár hvert.
Þeir gjaldendur sem greiða 50.001 eða meira eru með fimm gjalddaga, 1. mars, 1. apríl, 1. maí, 1. júní og 1. júlí ár hvert.
Vakin er athygli á lið sem heitir gjaldskrá og er undir stjórnsýslu þar sem fram koma allar gjaldskrár sveitarfélagsins.
 
 
f.v. Sveinn Sæland, Arinbjörn Vilhjálmsson skipulagsfulltrúi, Gunnar Þorgeirsson,Sigurður Ingi Jóhannsson, Aðalsteinn Guðmundsson og Hilmar Einarsson byggingarfulltrúi.  Skipulagsnefnd uppsveita Árnessýslu.
Skipulagsnefnd uppsveita Árnessýslu hélt sinn fyrsta fund fimmtudaginn 12.febrúar 2004 á skrifstofu byggingarfulltrúa og skipulagsfulltrúa að Laugarvatni. Nefndin er samvinnunefnd Bláskógabyggðar, Grímsnes-og Grafningshrepps, Hrunamannahrepps og Skeiða-og Gnúpverjahrepps um skipulagsmál. Nefndin tekur fyrir mál er lúta að deiliskipulagi og gerir tillögur um afgreiðslu til sveitarstjórna. Sveitarstjórnir fara hinsvegar alfarið með aðalskipulagsmál og breytingar á þeim í samvinnu við skipulagsfulltrúa uppsveita, Arinbjörn Vilhjálmsson.

Í skipulagsnefnd uppsveita sitja Sveinn Sæland fyrir hönd Bláskógabyggðar, Gunnar Þorgeirsson fyrir hönd Grímsnes-og Grafningshrepps, Sigurður Ingi Jóhannsson fyrir hönd Hrunamannahrepps og Aðalsteinn Guðmundsson fyrir hönd Skeiða-og Gnúpverjahrepps.

Gunnar Þorgeirsson var kosinn formaður nefndarinnar en Sveinn Sæland varaformaður.

Þess er vænst að með stofnun nefndarinnar náist betri tök á skipulagsmálum í uppsveitum sem eru ört vaxandi málaflokkur. Sveitarstjórnir geta þannig miðlað reynslu til hvors annars og mótað heilstæð vinnubrögð í samvinnu við sameiginlegan skipulagsfulltrúa uppsveita. Laugarvatni 12.febrúar
Arinbjörn Vilhjálmsson skipulagsfulltrúi uppsveita.

 
Refa-og minkaveiðar 2004
Gunnar Þorgeirsson oddviti Grímsnes- og Grafningshrepps afhenti Siv Friðleifsdóttur innrammað bréf sveitarstjórnar til umhverfisráðherra þar sem mótmælt er niðurskurði á endurgreiðslum ríkisins til refa-og minkaveiða

  
Glímumaður ársins 2003
Ólafur Oddur Sigurðsson var kjörinn glímumaður ársins 2003 í hófi sem ÍSÍ og samtök íþróttafréttamanna stóðu fyrir á Grand Hótel 30. desember s.l. Hann var jafnframt kosinn glímukóngur Íslands s.l. sumar ásamt því að vera tvöfaldur Íslandsmeistari og skjaldarhafi Skarphéðins. Ólafur hefur verið einn af bestu glímumönnum landsins undanfarin ár og er honum óskað til hamingju með titilinn.

 
Skipulagsnefnd
Sveitarstórn hefur samþykkt fyrir sitt leyti að starfrækt verði sameiginleg skipulagsnefnd fyrir uppsveitir Árnessýslu. Nefndin verður fagnefnd og starfar með skipulagsfulltrúa uppsveita. Fulltrúi Grímsnes- og Grafningshrepps í skipulagsnefnd verður Gunnar Þorgeirsson oddviti og til vara Margrét Sigurðardóttir.

 
Bændur græða landið
Á fundi sveitarstjórnar þann 7. janúar s.l. var samþykkt að taka þátt í verkefninu Bændur græða landið sem er samstarfsverkefni Landgræðslunnar og bænda. Sveitarfélagið leggur til ákveðna upphæð og bændur sækja um aðild, annað hvort til umsjónarmanns verkefnis, Sigþrúðar Jónsdóttur eða til viðkomandi héraðsfulltrúa. Tilgangur verkefnisins er að styrkja bændur til landgræðslu á jörðum sínum. Skilyrði til þátttöku eru að það land sem á að græða sé lítt gróið eða ógróið og að beitarálag sé í hófi. Starfsmenn frá Landgræðslunni heimsækja bændur og meta hvort að landið fullnægi skilyrðum verkefnis og leiðbeina um uppgræðsluaðferðir. Landgræðslan greiðir síðan verulegan hluta af áburðarkostnaði og leggur til fræ ef á þarf að halda. Þetta verkefni sem fór af stað 1990 er hið stærsta sem Landgræðslan kemur að og eru þátttakendur um 600. Frekari upplýsingar eru á heimasíðu Landgræðslunnar, www.land.is
Sveitarstjóri

 
 Örbylgjusendir tekinn formlega í notkun
Sturla Böðvarsson samgönguráðherra og Margrét Sigurðardóttir sveitarstjóri tóku formlega í notkun háhraða internettengingu þriðjudaginn 2. desember s.l. Þetta er örbylgjusendir óháður símalínum sem gefur möguleika á sítengingu í gegnum háhraða netsamband og mun bjóða upp á ótal möguleika í framtíðinni fyrir stofnanir, fyrirtæki, íbúa og sumarhúsaeigendur. Stefnt er að því að allt sveitarfélagið hafi aðgang að útsendingum eigi síðar en vor 2004. 
Nýr formaður SASS
Á aðalfundi samtaka sunnlenskra sveitarfélaga var Gunnar Þorgeirsson Ártanga, Grímsnes- og Grafningshreppi kosinn formaður. Kosið var á milli Gunnars og Ragnheiðar Hergeirsdóttur, Árborg. +   
 Gæði og gestrisni
Þann 31. október s.l. var stefnumótun í ferðaþjónustu uppsveita Árnessýslu fyrir árin 2004-2008 kynnt undir einkennisorðunum Gæði og gestrisni. Kynningin fór fram í Þjóðveldisbænum, Þjórsárdal. Gestir fengu upplýsingar um þróun og stefnumótun ferðaþjónustu í uppsveitunum. Skugga-Sveinn mætti í öllu sínu veldi og nokkrir aðilar, þar á meðal sveitarstjórar uppsveitanna stigu á stokk og sungu. Boðið var upp á kúmenkaffi, flatkökur, kleinur og mjöð að fornum sið.
Fleiri myndir 

Háhraða Internet – loksins
Sveitarstjórn Grímsness og Grafningshrepps hefur samið við fjarskiptafyrirtækið eMax í Kópavogi um að setja upp senda fyrir háhraða internettengingar í sveitarfélaginu. Fyrsti sendirinn verður settur upp á Seyðishólum og munu íbúar sem sjá Seyðishóla geta tengst kerfinu og komist í háhraða netsamband. Kerfið sem sett er upp er örbylgjukerfi þannig að áskrifendur þurfa sérstakt loftnet til að taka á móti útsendingu. eMax annast uppsetningar og leggur til allan nauðsynlegan búnað fyrir áskrifendur. eMax hefur í samningi við sveitarfélagið skuldbundið sig til að setja upp þétt net senda til að tryggja að sem flestir íbúar nái sendingum. Kerfi eMax er óháð símalínum og hentar vel hvort sem er fyrir sumarbústaði eða heimili. Tengingin tryggir allt að 512 kbps gagnaflutningshraða til notanda og er um að ræða sama hraða til og frá notanda, eða ígildi ADSL. Verði er stillt í hóf og er upphafsgjald 16.900 kr. Boðið er upp á tvo áskriftarflokka fyrir heimili. Annars vegar 3.900 kr á mánuði og eru þá innifalin 100 MB af niðurhali erlendis frá og 2 netföng. Hins vegar er 4.900 kr á mánuði og þá eru innifalin 500 MB af niðurhali erlendis frá og þrjú netföng. Ef viðskiptavinur fer fram yfir umsamið magn í áskrift kostar hvert MB 2 krónur og 30 aura. Allt niðurhal innanlands er ókeypis. Allar frekari spurningar varðandi þetta mál er hægt að beina til eMax í síma 544-4454 eða senda tölvupóst á netfangið emax@emax.is. Sveitarstjóri

 
Breytingar á deiliskipulagi
Sveitarstjórn samþykkti á fundi sínum þann 15. október s.l. að innheimta skipulags- og auglýsingakostnað vegna einstakra breytinga á gildandi deiliskipulagi, 25.000 kr. Þetta var samþykkt vegna þeirrar aukningar sem hefur orðið á því að aðilar vilja gera breytingar á deiliskipulagi og þess kostnaðarauka sem fylgir hverri breytingu. Sveitarstjóri

 
Breytingar á aðalskipulagi
Breytingar á aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps verða teknar fyrir einu sinni á ári, í desember mánuði. Frestur til að skila inn breytingum á aðalskipulagi fyrir árið 2003 er til 10. desember og þurfa þær að vera á skipulagsuppdrætti.