Fundur nr. 2 Vinnuhópur v/Ljósuborgar

lindaFundargerðir, Sveitastjórn

Fundargerð vinnuhóps vegna húsnæðisþarfa skólanna á Borg.

Fundurinn haldinn í stjórnsýsluhúsinu Borg þriðjudaginn 2. mars 2010, kl. 16:00.

 

Á fundinn mæta nefndarmenn

Jón G. Valgeirsson, sveitarstjóri og ritari fundarins.

Hilmar Björgvinsson, skólastjóri grunnskólans Ljósuborgar.

Hallveig Ingimarsdóttir, skólastjóri leikskólans Kátuborgar.

Sigríður Magnúsdóttir arkitekt.

Páll Tryggvason, húsasmíðameistari.

Ágúst Gunnarsson, fulltrúi sveitarstjórnar.

Sverrir Sigurjónsson, fulltrúi sveitarstjórnar.

Gert er ráð fyrir að fundargerð verði færð í tölu og send fundarmönnum í tölvupósti.

1. Sveitarstjóri setti fund og bauð fundarmenn velkomna.

2. Sigríði var falið á síðasta fundi í kjölfar umræðna að setja upp nokkra möguleika á hví hvernig hægt væri að leysa húsnæðismál skólanna. Fór hún núna yfir 5 leiðir sem hún hafði tekið saman sem voru mismunandi upp settir, bæði varðandi byggingarmagn og útfærslu en möguleikar voru ekki kostnaðargreindir. Þessir kostir sem Sigríður setti fram voru byggðir að mestu á þeim þarfagreiningum sem lágu fyrir.

3. Fundarmenn ræddu um þá valkosti sem Sigríður hafði sett fram. Kom fram að það þyrfti að skoða fleiri valkosti og síðan yrði að skoða hvernig ætti að meta þær forsendur sem tillögurnar byggja á og þarfagreingar sem liggja fyrir. Jafnframt var rætt um þá óvissuþætti sem liggja fyrir vegna barnafjölda, uppbyggingu í sveitarfélaginu, sameiningarmál og framtíð stjórnsýslu í sveitarfélaginu o.fl.

4. Fundarmenn voru sammála um að fela Sigríði arkitekt að yfirfara þá kosti sem hún hafði sett fram og setja fram til viðbótar þá möguleika sem þyrfti einnig að skoða í þessu sambandi og komu fram á fundinum og senda fundarmönnum á tölvupósti. Var Páli jafnframt falið að vinna með Sigríði að rýna betur í útfærslur á þeim valkostum sem settir hafa verið fram fyrir næsta fund. Þá var einnig talið nauðsynlegt að koma með lauslegar kostnaðarhugmyndir vegna mismunandi möguleika fyrir næsta fund án þess þó að leggja í mjög mikla vinnu við að útfæra þær og var Páli og Sigríði að setja þær fram. Samþykkt var halda næsta fund nefndarinnar þriðjudaginn 16. mars nk. kl. 16:00 á Borg þar farið yrði yfir þessar vinnuhugmyndir.

Fleira ekki tekið fyrir, fundi slitið kl. 17:45.

Jón G. Valgeirsson, ritari,