Gengið á Mosfell

lindaFréttir

Nokkrar konur úr Grímsnesinu hafa það fyrir sið að ganga á fjöll á Jónsmessu og í ár var það Mosfell sem þær kíktu upp á.  Þær Guðrún og Anna Margrét á Stærri-Bæ auk Laufeyjar á Búrfelli buðu nokkrum vinum og vandamönnum með sér í gönguna í ægifögru veðri.

Gott  er að ganga á Mosfell og tekur uppgangan ekki mikið meira en 30 mínútur en þó er vert að staldra við og horfa yfir Grímsnesið þar sem bæirnir blasa við og árnar eru speglar almættisins.  

Gengið var upp Bótarskarð sem liggur fyrir ofan prestssterið en þaðan er gangan þægileg.  Þegar upp er komið blasir við nokkurt graslendi sem nefnist Hestadalur.   Uppi á Mosfelli er hægt að velja sér ýmsar hæðir til að þess að tylla sér á,  allt eftir því hvert maður vill horfa í það sinnið.  Og víst er um að vart var hægt að hugsa sér betri stað til að dvelja á, þetta undurfallega júníkvöld.

Gaman hefði verið að fara niður hjá Seli, niður svokallað Hakaskarð en grunur læddist að konunum að þar leyndist rafmagnsgirðing sem erfitt væri að komast yfir nema með nokkrum fórnarkostnaði og óhljóðum og því var farin sama leið niður og upp.  Síðar kom þó á daginn að greiðfært er niður Sels og Haga megin svo fullt  jafnræði er á með þeim Bót og Haka í þeim efnum en þau  voru þrælar Ketilbjarnar og voru send upp á Mosfell til að fela gull.  Ekkert  hefur spurst til þeirra né gullsins síðan og ekki fundust þau í þessari Jónsmessuferð frekar en öðrum. 

Mosfell er um 270 m hátt eða rétt rúmlega 200 m hærra en Apavatn.