Grímsævintýri 8. ágúst – Ingó í sundlauginni kl. 15:00

lindaFréttir

Við vekjum athygli á Grímsævintýrum sem haldin verða á Borg þann 8. ágúst og hefjast klukkan 13.00 með Uppsveitavíkingnum. Á Grímsævintýrum er einnig handverksmarkaður þar sem hagleiksfólk selur verk sín – ekki má heldur gleyma að þar  verður eitt og annað matarkyns til sölu sem gott er að grípa með sér í útileguna, bústaðinn eða bara heim!  Rúsínan í pylsuendanum er svo hin árlega Tombóla sem er  víðfræg,  en þar eru engin núll.
Ath breyttan tíma hjá Ingó – nú kl 15:00

Markaðurinn er í íþróttahúsinu á staðnum þannig að veðrið setur ekki strik í reikninginn þó heimamenn vonist að sjálfsögðu til að sama blíðan verði þá og verið hefur. Á markaðnum má kaupa listmuni, grænmeti, kökur, sultur, kaffi og pönnsur svo fátt eitt sé nefnt.

Tombóla Kvenfélagsins er árlegur stórviðburður í heimi tombólanna en  ágóði hennar rennur til góðgerðamála  en í gegnum áratugina hafa kvenfélög landsins lagt góðum málefnum  lið og eru enn að enda verkefnin næg nú sem fyrr.

Ingó verður á sundlaugarbakkanum klukkan 15:00.

Takið því daginn frá og lítið til okkar að Borg í Grímsnesi.  Aðstaðan á Borg er til fyrirmyndar en þar er rekinn Grunnskóli, Íþróttamiðstöð og félagsheimili.  Mikið starf hefur verið unnið í lóðarmálum í kringum byggingarnar og nú eru þær framkvæmdar langt komnar en þar má finna sparkvöll, körfuboltavöll og stéttar sem hægt er að nýta á dögum sem þessum.

Sveitarstjórn Grímsnes og Grafningshrepps, Landsvirkjun  og Kvenfélagið býður ykkur velkomin þann 8. ágúst og vonandi eigum við öll eftir að eiga góðan dag saman.

IE