Grímsævintýrin gerast enn

lindaFréttir

Kvenfélags Grímsneshrepps heldur uppi öflugu starfi hér í sveit og héldu kvenfélagskonur meðal annars utan um og skipulögðu Grímsævintýri sem eru árviss viðburður að Borg, helgina eftir Verslunarmannahelgina.

Í ár var margt um manninn þó ýmsar aðrar hátíðir væru nær og fjær en greinilegt er að fólk kann vel að meta það sem í boði er. Nú í ár var markaður – en aldrei hafa fleiri söluaðilar tekið þátt í honum. ,,Það er viss passi að allt sem er ætt selst vel” mælti einn sölumaðurinn. Og það voru orð að sönnu því nýveiddur silungur, grænmeti og harðfiskur runnu út eins og heitar lummur. Sulturnar og kökurnar frá kvenfélaginu seldust líka vel og ekki má gleyma hinum rammíslensku pönnukökum sem ætíð eru í boði þennan dag.

Halldóra á Stærri Bæ stóð við þriðja mann og bakaði flatkökur þannig að allra rafmagnsleiðslur loguðu – og mátti hafa sig alla við að anna eftirspurn, en ágóðinn af flatkökusölunni rann til Gömlu Borgar.

Ef til vill er það þó tombólan sem fær mesta athyglina ár hvert, enda mikið í hana lagt- 2200 vinninga tombóla er ekki hrist fram úr erminni si svona. Fjölmörg fyrirtæki styrktu tombóluna og eru þeim færðar bestu þakkir fyrir. Ágóðinn af tombólunni rennur til líknarmála – í ár til Hjartaheilla.

Uppsveitarvíkingarnir litu við og skemmtu sér og öðrum með því að draga landbúnaðrtæki á eftir sér, sveifla lurkum og grýta grjóti – öllu sem fis væri.

Ingó veðurguð gerði stormandi lukku á sundlaugarbakkanum og náði upp einstaklega góðri stemmningu.

Það er alveg víst að Grímsævintýri eiga eftir að vaxa og dafna enn. Aðstaðan á Borgarsvæðinu er alltaf að batna og vonir standa til að svæðið umhverfis nýbyggingarnar og Félagsheimilið verði tilbúið þegar næstu ævintýri gerast.