Grímsævintýrin tókust vel

lindaFréttir

Nú er að baki stærsta verkefni Kvenfélags Grímsneshrepps, Grímsævintýrin.  Umsvif hátíðarinnar vex með hverju ári og hefur hún nú skipað sér fastan sess í ,,bæjar“hátíðum landans.  Meðal viðburða í ár var tombólan síunga sem kvenfélagið hefur staðið að allt frá stofnun þess eða í 90 ár,  kraftakeppni, markaður með yfir 40 söluaðila, tónlistaratriði og afþreying fyrir börnin. 

Kvenfélag Grímsneshrepps er ekki fjölmennt kvenfélag og því eru mörg handtökin sem unnin eru í aðdraganda ævintýranna og þann dag sem þau eru haldin.  Fjölmargir hafa stutt við kvenfélagið og Grímsnes og Grafningshreppur styður dyggilega við bakið á félaginu á hverju ári.  Þeir Pálmar og Dóri hafa svo sannarlega fengið að finna til tevatnsins og Áslaug húsvörður í Félagsheimilinu er betri en engin!

Þrátt fyrir að margt var um að vera þennan dag annars staðar í nágrenninu – og veðurspáin ekki nema hæfilega björt, var góð aðsókn, miðar á tombóluna seldust upp, sölumenn voru margir ánægðir með daginn og góður andi sveif yfir vötnum!

Kvenfélag Grímsneshrepps þakkar kærlega öllum þeim sem aðstoðuðu okkur, komu til okkar og gerðu þennan dag svo ánægjulegan sem raun bar vitni.

Sérstakar þakkir fá fyrirtækin öll, stór og smá sem gáfu vinninga á Tombóluna en sérstaklega ánægjulegt var hve vel kvenfélagskonum var vel tekið þegar þær báðu um vinninga!  Vinningshafar á tombólunnu kunnu vel að meta þegar fallegir og nytsamir munir komu upp úr pokunum!