Grunnskólinn Ljósaborg settur

lindaFréttir

Þann 22. ágúst var Grunnskólinn Ljósaborg settur í þriðja sinn.  Í ár markar skólasetningin ákveðin tímamót því nú er umsjón skólamála komin á hendur Grímsnes og Grafningshrepps á ný en síðustu ár hefur  Bláskógarbyggð farið með skólamálin í umboði hreppsins.  Þessir tveir hreppar eiga þó enn í ágætu samstarfi þvi nemendur í 8. – 10. bekk stunda nám í Grunnskóla Bláskógarbyggðar,  í Reykholti.  Hilmar Björgvinsson var ráðinn skólastjóri síðasta vor en hann var áður aðstoðarskólastjóri.  Mannaráðningar gengu vel við skólann í vor og sumar og þar er nú mættur til starfa kraftmikill hópur starfsfólks og nemenda sem í ár eru þeir eru nú 39 talsins.

Við skólann stunda auk barna úr Grímsnes og Grafningshreppi einnig börn úr Þingvallasveit en á árum áður áttu þessir  þrír hreppar áratuga samstarf um rekstur skóla á Ljósafossi.

Grunnskólinn Ljósaborg hefur að leiðarljósi í ár að auka veg umhverfismenntar og nýta sér frábært umhverfi skólans og náttúrufyrirbærin sem eru þar allt um kring.  Skólinn starfar í anda einstaklingsmiðaðs náms þar sem áherslan er lögð á að nálgast hvern og einn nemanda út frá hans forsendum, áhugasviði og þörfum. 

Kraftmikið starf hefur verið á Borgarsvæðinu undanfarin ár og nýtur Ljósaborg góðs af því.  Íþróttamiðstöðin Borg býður upp á glæsilega aðstöðu til íþróttaiðkunar og sundlaugin hefur svo sannarlega slegið í gegn í sumar.  Í haust verður vígður sparkvöllur við skólann sem lagður er í samstarfi við KSÍ og má búast við því að hann verði tekinn í notkun um miðjan mánuðinn. 

En það er ekki bara iðkun íþrótta sem gert er hátt undir höfði á Borg heldur býður Félagsheimilið Borg býður einnig upp á mikla möguleika hvað varðar leiklist og skemmtanahald en þar er einnig mötuneyti nemenda.

Þessi góða aðstaða er öll til þess fallin að styrkja skólastarfið.

Við skólasetninguna var opnuð vefsíða Grunnskólans en hana má fínna á www.ljosaborg.is.