Grunnskólinn Ljósaborg tilnefndur til Menntaverðlauna Suðurlands

lindaUncategorized

Fimmtudaginn 13. janúar var Grunnskólanum Ljósaborg veitt viðurkenning í tilefni Menntaverðlauna Suðurlands árið 2010.  Það var Menntanefnd SASS sem veitti viðurkenninguna við hátiðlega athöfn á hátíðarfundi Fræðslunets Suðurlands og Háskólafélags Suðurlands.  

Eydís Þ. Indriðadóttir, formaður menntamálanefndar SASS gerði grein fyrir tilnefningunni og afhenti Hilmari Björgvinssyni viðurkenningarskjal frá Menntanefnd SASS. Í máli hennar nefndi hún m.a. þau þróunarverkefni sem skólinn hefur unnið að síðastliðin ár varðandi einstaklingsmiðað nám og námsmat, lestrarstefnu skólans, útikennslu og þróunarverkefnið; Til móts við náttúruna. 

Það vakti athygli á fundinum að tveir skólar úr Grímsnes- og Grafningshreppi hlutu viðurkenningar því Sesseljuhús á Sólheimum fékk einnig viðurkenningu fyrir háskólastarf sitt. Katrín Magnúsdóttir forstöðumaður Sesseljuhúss tók á móti viðurkenningunni. Í máli Eydísar nefndi hún m.a. samstarf Sesseljuhúss við Grunnskólann Ljósuborg, en nemendur í 8. bekk sækja þangað fræðslu.

Það var Fjölbrautarskóli Suðurlands sem hlaut Menntaverðlaun Suðurlands fyrir árið 2010. Það var Ólafur Ragnar Grímsson sem afhenti Örlygi Karlssyni skólameistara skólans verðlaunin.

Tilnefningin beindist að fjórum verkefnum sem eru samtvinnuð: Olweusar-áætlunin gegn einelti, bættur skólabragur, dagamunur og heilsueflandi framhaldsskóli.