Guðrún Gunnars að Gömlu Borg

lindaTilkynningar og auglýsingar

Guðrún Gunnars syngur ljóð og lög eftir Cornelis Vreeswijk á tónleikum á Gömlu Borg í Grímsnesi sunnudaginn 26. júlí kl. 21 Á tónleikunum á Gömlu Borg flytur Guðrún Gunnars ásamt valinkunnum hljóðfæraleikurum ljóð og lög eftir sænska söngvaskáldið Cornelis Vreeswijk í íslenskum búningi Aðalsteins Ásbergs Sigurðssonar, en geisladiskur með efninu er nýkominn út.

Ásamt Guðrúnu koma fram á tónleikunum þeir Tomas „Limpan“ Lindberg, gítar, mandóla, búsúkí, Magnus „Storis“ Holmström, nyckelharpa og kontrabassaharpa, Dan Berglund, kontrabassi, Valgeir Skagfjörð, píanó, harmónikka, Pétur Grétarsson, slagverk og Aðalsteinn Ásberg, kynningar og söngur.

Cornelis Vreeswijk (1937-1987) var söngvaskáld, ljóðskáld og leikari, fæddur í IJmuiden í Hollandi, en fluttist 12 ára gamall ásamt foreldrum
sínum til Svíþjóðar. Hann ætlaði sér að verða blaðamaður, en tónlistin varð fljótlega helsta viðfangsefni hans. Biturt háð og samfélagsádeila í verkum hans aflar honum sífellt nýrra aðdáenda. Á ferli sínum sendi hann frá sér nokkrar ljóðabækur og á fimmta tug LP platna í Svíþjóð og Hollandi. Auk þess að vera vinsæll tónlistarflytjandi lék hann við góðan orðstír í leikhúsum og kvikmyndum. Cornelis Vreeswijk er jafnan talinn meðal helstu söngvaskálda Svía.

Tónleikarnir á Gömlu Borg hefjast kl. 21:00.  Miðaverð kr.2000