Heim úr öllum áttum

lindaFréttir, Tilkynningar og auglýsingar, Viðburðir

Heim úr öllum áttum

er heiti dagskrár sem flutt verður í Listasafni Árnesinga laugardaginn 3. júní kl. 15.00.

Þá flytja ljóðskáldin Anna Mattsson, Axin Welat, Kristín Bjarnadóttir og Louise Halvardsson ljóð á fimm tungumálum; arabísku, ensku, íslensku, kúrdísku og sænsku. Þær Anna, Axin, Kristín og Louise eru allar meðlimir í sænska ljóðahópnum PoPP sem stendur fyrir Poeter orkar Poetiska Projekt og þýða mætti, Ljóðskáld valda ljóðrænum verkefnum.

Nánar um ljóðskáldin í stafrófsröð.

 Anna Mattsson

er rithöfundur og þýðandi. Fyrsta rit hennar kom út árið 1988 en síðan hafa komið út fjölmörg ljóðasöfn og skáldsögur og má þar nefna Alexandras rum (1994), De ensammas hus (2004) og Ljusgatan (2013). Árið 2009 hlaut hún menningarverðlaun Sälskapet Gnistans og árið 2014 hlaut hún verðlaunin Rithöfundur ársins fyrir ljóðabókina Ljusgatan.

Anna er með BA-gráðu í norðurlandamálum, bókmenntum og heimspeki frá Gautaborgarháskóla, prófgráðu í norrænum tungumálum frá Fróðskaparsetri Færeyja og hún nam einnig Khmer fyrir erlenda stúdenta við Háskólann í Phnom Penh í Kambódíu.

Hún hefur verið virk innan sænsku Rithöfundamiðstöðvarinnar í vestri, á þar sæti í stjórn og verið þar lektor frá árinu 2014. Anna hefur skipulagt skipti á menningarviðburðum milli Svíþjóð og Kambódíu frá árinu 2004. Hún situr líka í stjórn sænsku PEN samtakanna og kom á fót PEN miðstöð í Gautaborg og í Phnom Penh. Frá árinu 2014 hefur Anna verið í forsvari fyrir Politisk Poesifestival sem er samstarfsverkefni milli félagsins Kambódía-Svíþjóð og bókasafnsins í Gautaborg. Hún á sæti í vinnuhóp á vegum Menningarráðs sænska ríkisins um stuðning við bókmenntir.

Anna hefur verið þátttakandi í ljóðahópnum PoPP frá stofnun hans árið 2015.

Axin Welat

kemur frá sýrlenska hluta Kúrdistan. Hún er ljóðskáld og skrifar bæði á kúrdísku og arabísku, og nú einnig á sænsku. Gefnar hafa verið út nokkrar ljóðabækur á kúrdísku og arabísku eftir Axin af bókaútgáfum í Líbanon, Egyptalandi, Sýrlandi og Istanbúl. Fyrsta ljóðasafn hennar á sænsku, En aprikos två körsbär, kom út árið 2013 og er þýðing úr kúrdísku og arabísku.

Axin nam arabískar bókmenntir við Háskólann í Aleppo í Sýrlandi, þar sem hún starfaði einnig sem tungumálakennari. Hún starfaði líka sem blaðamaður, hafði eigin dálk í kúrdísku tímariti í Líbanon í þrjú ár og var ritstjóri stafræns tímarits um kúrdískra bókmenntir á arabísku. Hún tók þátt í fjölda menningarhátíða í Líbanon, Sýrlandi, Tyrklandi og Kurdistan, þar sem hún las úr ljóðum sínum á arabísku og kúrdísku. Axin flutti til Svíþjóðar árið 2004 þar sem hún hefur lært sænsku allt að framhaldsskólastigi. Hún nam ritlist við lýðháskólann í Angered og list og hönnun við ABF og þar lagði hún einnig stund á þýðingar úr arabísku á sænsku og öfugt og fæst nú við þýðingar á bókum úr og í kúrdísku, arabísku og sænsku.

Axin Welat er meðlimur í rithöfundasambandinu sænska og Rithöfundamiðstöðinni í vestri og hefur í gegnum það tekið þátt í nokkrum bókmenntahátíðum eins og Textival, Merci ljóðahátíðinni, Peace and poetry og Festival illegal. Hún er einnig félagi í Fenix klúbbnum og Poesiwerken samtökunum.

Kristín Bjarnadóttir

er skáld og ritgerðasmiður sem skrifar bæði á sænsku og íslensku. Hún ólst upp á Íslandi en hefur verið búsett í Gautaborg frá árinu 1985. Frá áttunda áratugnum hafa ljóð Kristínar birtst í tímaritum og safnritum, og upplestur þeirra verið á dagskrá RÚV. Hún hefur einnig átt þátt í að framleiða röð útvarpsþátta um norræna samtíma ljóðlist. Meðal birtra texta á síðari árum eru Timing the tango – The Queer Tango Book, antologi – E-bok (2015 og á spænsku 2017), Kokosclown, Lost in migration, (2011), Åtta dikter úr Ty landskapet är ditt / Því að þitt er landslagið (Ariel 2-3 2001), Jag lutar mig mot dig och flyger (Staka 2009), Ég halla mér að þér og flýg (2007); Heimsins besti tangóari/El mejor tanguero del mundo, (2005).

Kristín stundaði nám í leiklistarskólaum við Odense Teater í Danmörku, 1971-1974, og nam bókmenntir og heimspeki við Háskólann í Gautaborg 1989 -1994. Árin 2014 -2015 sótti Kristín kúrsa í Valand listaháskólanum; Að mæta því nýja (í Ritlistardeild) og kynningarnámskeið í samtímalist og heimspeki.

Á árunum 1974-90 var Kristín virk í leikhúsum í Danmörku, á Íslandi og í Svíþjóð, fyrst og fremst sem leikari, en einnig sem leikskáld og þýðandi. Hún hefur þýtt leikrit úr íslensku á dönsku fyrir Konunglega leikhúsið í Kaupmannahöfn og leikhúsið í Óðinsvéum og einnig ljóð úr dönsku og sænsku yfir í íslensku. Kristín starfaði sem menningarblaðamaður á Morgunblaðinu á árunum 1985 – 2008 og á tímaritinu DANS – tidningen för rörlig scenkonst í Stokkhólmi frá árinu 2001. Hún er meðlimur í íslenska rithöfundasambandinu og einnig því sænska. Hún hefur verið stjórnarmaður í Rithöfundamiðstöðin í vestri í Svíþjóð frá árinu 2010, varaformaður frá 2012 og formaður frá árinu 2017. Hún hefur tekið þátt í fjölmörgum ljóðahátíðum í Svíþjóð, Íslandi, Kambódíu og víðar. Hún hefur tvisvar áður komið að ljóðadagskrá í Listasafni Árnesinga og dvalið í listamannahúsinu Varmahlíð í Hveragerði.

Kristín er einn frumkvöðla að stofnun ljóðahópsins PoPP árið 2015.

Louise Halvardsson

er rithöfundur, fyrirlesari og sjálfstætt starfandi blaðamaður. Hún ólst upp í Nässjö í Svíþjóð, bjó síðar tíu ár í Englandi, en býr nú í Gautaborg. Hún nam ritlist við Jakobsbergs lýðháskólann, lauk BA gráðu í blaðamennsku frá JMG háskólanum í Gautaborg og hefur líka stundað rannsóknir í þjóðfræði við Gautaborgarháskóla.

Árið 2007 hlaut hún debutantverðlaun sænska rithöfundasambandins Slangbellan, fyrir frumraun sína sem var Punkindustriell hårdrockare med attityd. Árið 2015 kom út bókin Svenglish – en 30-årings resa genom vardagen og var tilnefnd til Selmu verðlaunanna. 2017 kom ljóðabókin Hejdå tonårsångest – 35 dikter innan 35.

Louise er virk á vettvangi hins talaða orðs; kemur oft fram á bókmenntahátíðum og einnig upplestrarsamkomum í skólum eða á bókasöfnum. Hún hefur m.a. tekið þátt í Winter Word Festival í Strömstad og einnig North Sea Writer‘s Exchange. Hún er líka einn stofnenda ljóðafélagsins Poesiwerken og félagi í Poetry Slam Gautaborgar.