Heldriborgaraferð 2017

lindaFréttir, Tilkynningar og auglýsingar

Sjá myndir hér: Myndir sumarferð 2017

Fimmtudaginn 22. júní síðastliðinn bauð Kvenfélag Grímsneshrepps íbúum 60 ára og eldri í árlega dagsferð. 25 manns mættu í ferðina í ár. Lagt var af stað frá Borg kl. 10.00 og bættum við okkur nokkrum farþegum á Selfossi.

Fyrsta stopp var í Þingborg þar sem ullarvinnslan og galleríið var skoðað. Ókum því næst sem leið lá austur og vegna þess hve góðan tíma við höfðum renndum við inn Fljótshlíðina fallegu og Unnur Halldórsdóttir, okkar yndislegi fararstjóri, sá til þess að tekið var lagið. Við komum svo tímanlega að Þorvaldseyri og hinkruðum aðeins eftir bíómyndinni um Eyjafjallagosið, mynd um fjölskylduna á Þorvaldseyri og aðstæður þeirra á gostímanum, mynd sem segir meira en mörg orð.

Þá lá leið okkar að Skógum, eins og allir hinir ferðamennirnir fórum við inn í Skógasafn, snæddum þar kjötsúpu og brauð sem fólk gerði góð skil. Margir skoðuðu sig um á safninu eða nutu góða veðursins og samverunnar. Næsta stopp var Vík. Á leiðinni tókum við í rútuna annan leiðsögumann Þórir, sem tók við af Unni og sagði frá meðan ekið var um Vík og nágrenni og út í Hjörleifshöfða. Við fengum okkur kaffi á Icelandair hótel í Vík og þar sýndi Þórir okkur ljósmyndir sem teknar hafa verið í Vík og nágrenni ásamt norðurljósamyndum hans, glæsilegar myndir og þökkum við honum kærlega fyrir hans innlegg í ferðina.

Eftir gott kaffistopp í Víkinni var haldið heim á leið, Unnur sá til þess alla ferðina að allir hefðu gaman af hvort sem sagðar voru gamansögur, gamlar, nýjar eða tilbúnar, sögur af fólkinu sjálfu eða hennar eigin upplifun, einstök hún Unnur og ómetanlegt að njóta krafta hennar í þessari ferð, takk kærlega Unnur Halldórsdóttir fyrir þitt framlag þennan góða dag. Eftir stutt stopp í sjoppunni við Landsvegamót var ekið heim.

Kvenfélag Grímsnes þakkar öllum þeim er þátt tóku fyrir góða ferð og hlakkar til að njóta með ykkur að ári.

Bestu kveðjur,

Inga Kristín Ingadóttir og Sigríður Björnsdóttir