Hollvinir Grímsness

lindaFréttir

Félagið Hollvinir Grímsness var stofnað 17. janúar síðastliðinn að frumkvæði Guðmundar Guðmundssonar frá Efri-Brú.

Tilgangur félagsins er að standa vörð um menningarverðmæti úr sveitinni, meðal annars með því:

· Að stuðla að varðveislu gamalla muna sem geyma hluta af menningarsögu sveitarinnar.

· Að safna upplýsingum, myndum og frásögnum úr sveitinni og annast skráningu þeirra.

· Að efna til a.m.k. eins viðburðar á ári að Borg þar sem verkefni félagsins verði kynnt með viðeigandi hætti, s.s. með fyrirlestrum, sýningum og annarri skemmtun.

· Að opna og halda við vefsíðu þar sem safnað verður myndum og fróðleik úr sveitarfélaginu.

Nú þegar er unnið hörðum höndum að viðgerð Massey Ferguson dráttarvélar sem áætlað er að sýna að Borg í sumar, en þá er fyrirhuguð menningardagskrá dagana 20.-22. júní sem nánar verður kynnt síðar.

Þeir sem luma á einhverju áhugaverðu; myndum, munum, frásögnum, ljóðum eða einhverju öðru góðu, eru vinsamlegast beðnir að hafa samband við einhverja úr stjórninni.

Allir sem gerast félagar fyrir 1. júní 2008 teljast stofnfélagar Hollvina Grímsness, fyrrum sveitungar jafnt sem núverandi íbúar Grímsnesshrepps eru hvattir til að ganga í félagið og leggja þannig sitt af mörkum.

Skráning og upplýsingar hjá:

Guðmundi í síma 8993267, gudgu@simnet.is,

Magnúsi í síma 8941780, goam@simnet.is

Laufeyju síma 630163 lab1@hi.is

Stjórn félagsins skipa Guðmundur Guðmundsson frá Efri-Brú, formaður, Magnús Björgvinsson frá Klausturhólum, ritari, Laufey Böðvarsdóttir frá Búrfelli, gjaldkeri og meðstjórnendur Eiríkur Ásmundsson frá Ásgarði og Örn Tyrfingsson frá Sogsstöðvum.

Mynd frá Stofnfundinum

Á myndinni eru Magnús J. Björgvinsson frá Klausturhólum, Guðmundur Guðmundsson frá Efri- Brú, Laufey Böðvarsdóttir frá Búrfelli, Guðrún Björgvinsdóttir frá Klausturhólum, Björgvin Magnússon frá Klausturhólum, Eiríkur Ásmundsson frá Ásgarði, Örn Tyrfingsson frá Sogsstöðvum og Sigurjón Guðjónsson frá Sogsstöðvum. Á myndina vantar Björn Ó. Björgvinsson frá Klausturhólum