Hugleiðingar Lísu Thomsen

lindaFréttir

Þeir vita það sem reyndu að það var líf og fjör í kringum Lísu Thomsen þegar hún gegndi formannsstörfum í Ungmennafélaginu Hvöt fyrir tveimur áratugum eða svo.  Hún taldi það ekki eftir sér að hendast um allar sveitir og smala krökkum og unglingum með á mót og þar gitli hið fornkveðna – minna skipti að bera sigur úr býtum en þess mikilvægara var að vera með.  Í desemberhefti Hvatarblaðsins má finna hugleiðingar hennar í tilefni af 100 ára afmæli Hvatar sem verður nú síðar í mánuðinum og fer hann hér á eftir.

Hugleiðing Lísu Thomesen

Þegar ég sat í 100 ára afmæli Ungmennafélagsins Hvatar s.l. laugardag var mér hugsað til þess tíma sem ég var formaður.

Ég datt inn í það sæti þegar Unnur Halldórsdóttir flutti til Svíþjóðar að mig minnir og var ég formaður í 7 ár.

Þetta var skemmtilegur tími, þó að mikið væri að gera. Ég var þá einnig formaður kvenfélagsins og hugsaði stundum: “Er ég að gera of mikið fyrir kvenfélagið og gleyma Hvöt” eða öfugt.

Það var svo gefandi að vera með unga fólkinu, við fórum á mörg íþróttamót og fyllti ég skólabílinn sem við Böðvar áttum þá, stundum komum við heim með verðlaunapeninga og stundum ekki, aðalatriðið var “að vera með” eins og Ingveldur sagði í afmælinu.

Við fórum í ferðalög, oftast tveggja daga, ógleymanlega ferð á skauta á Slauku við Ormsstaði þar sem Tommi og Karen buðu okkur í heitt kakó og eplaköku. Við fórum oft á skíði, í Bláfjöll, Skálafell og Laugarvatn, alltaf 20-30 manns.

Við áttum góða glímumenn í Hvöt hér áður fyrr. Mig langaði að endurvekja glímuna og leitaði um alla Reykjavík að saumastofu sem myndi sauma búninga fyrir Hvöt. Ég fann loks nærfatasaumastofu á Víðimel sem saumaði búningana. Það var stoltur formaður sem fór með sína menn austur að Goðalandi í Fljótshlíð að keppa í glímu og voru þeir í fallegum bláum búningum með Hvatarmerkið í vinstra barmi, en strákarnir að austan voru í hvítum síðum nærbuxum og bolum, enda stóðum við okkur vel og höfum unnið marga glímuna síðan.

Á þessum árum voru viðburðir sveitarinnar boðaðir í síma eftir ákveðnu kerfi. Það var eins og þessi boð kæmust aldrei alla leið til skila og datt mér þá í hug hvort ekki væri upplagt að gefa út fréttabréf mánaðarlega sem ég gerði og sá um á meðan ég var formaður. Þetta fréttabréf var ósköp fátæklegt miðað við þau sem nú koma út, enda véritaði ég

þauá ritvél og klippti út myndir sem ég fann og límdi á milli textanna, fór á Selfoss og ljósritaði hjá Þjóðólfi. Nú er fréttabréfið komið í hendur sveitarstjórnar og unnið í tölvu.

Annað sem við gerðum var að hreinsa meðfram vegum og man ég eftir fyrsta árinu, þá fundum við 25 hljóðkúta við vegina og segja þeir sína sögu um ástand vega í þá daga.

Já það er mikil gæfa fyrir börn og unglinga að hafa virkt ungmennafélag í sinni sveit, það heldur þeim frá óreglu, þau kynnast á öðrum vettvangi en í skólanum og stíga kannski sín fyrstu spor á framabraut t.d. í íþróttum. Það er nauðsynlegt að foreldrar séu dugleg að aka börnum sínum þegar þörf er á.

Að lokum minni ég á hvað söngur er mikilvægur í öllu tómstundastarfi og legg til að við syngjum (hver í sínu horni) “Fyrr var oft í koti kátt” eins og við gerðum í lok funda.

Megi Ungmennafélagið Hvöt dafna og lengi lifa.

ÍSLANDI ALLT.

Lísa Thomsen