Tilkynning frá Sveitarfélaginu Grímsnes- og Grafningshrepp

lindaFréttir, Tilkynningar og auglýsingar

Í morgun birtist færsla á facebook síðu sveitarfélagsins þar sem verið var að leita að eiganda/eigendum tveggja hunda sem handsamaðir voru í sumarhúsahverfi í sveitarfélaginu eftir ítrekaðar kvartanir um lausagöngu. Vill sveitarstjóri árétta að lausaganga hunda er bönnuð í sveitarfélaginu og var það staðfest síðast með samþykkt 60/2012 um hundahald í Grímsnes- og Grafningshreppi þann 13. janúar 2012.
Yfirvöldum sveitarfélagsins ber að auglýsa handsömun á hundum líkt og var gert og var því ekkert athugavert við það þar sem verið var að framfylgja áðurnefndri samþykkt.
Færslan vakti talsverða athygli og fékk mikla umfjöllun. Hún varð til þess að eigendur hafa fundist og samkvæmt okkar upplýsingum verður þeirra vitjað fyrir þann tíma sem gefinn var upp.
Því miður varð að fjarlægja áðurnefnda færslu vegna hótana í garð starfsfólks sveitarfélagsins og annarra og munu þær hótanir verða tilkynntar til lögreglu.
Það má vissulega deila um orðalag bæði í færslunni og í tilgreindum samþykktum um hundahald og verður hvort tveggja skoðað í kjölfar þessa máls.
Við þökkum allar þær ábendingar sem við fengum um orðalag og önnur úrræði sem beita má þegar upp koma svipuð mál.