Í skammdeginu

lindaFréttir

Kæru foreldrar.

Það er hjá mörgum tregablandin tilfinning þegar sumarið kveður og fer að hausta. Við getum jafnvel, ef við gefum því gaum, enn fundið heitt sólskinið á hörundinu og mjúka sumargoluna leika um vanga og hár. Sumarið var hlítt og veðursælt og mörg okkar “hlóðu batteríin” og komum tvíelfd til vinnu að loknu sumarleyfi. Fyrir það ber að þakka. En nú lækkar blessuð sólin á lofti og með örlítilli eftirsjá fögnum við vetri konungi og gerum okkur klár í slaginn. Við drögum fram vetrarfatnað og könnum hvað er enn mátulegt á ungana okkar og endurnýjum ef þeim hefur tekist að vaxa upp úr gallanum frá í fyrra. Svo er að huga að því að láta sér líða vel , líka í dimmunni og kuldanum. Hér í Kátuborg er beðið með spenningi eftir snjónum og spurt með eftivæntingu í augunum hvenær við getum farið að renna okkur á snjóþotunum og búið til snjókalla.

Við bendum börnunum á að þau koma í myrkrinu í leikskólann að morgni og vekjum athygli þeirra á hvenær sólin kemur upp og að dagurinn styttist jafnt og þétt. Í desember leggjum við síðan áherslu á að skapa rólegt andrúmsloft í samverustundum milli þess sem við vinnum að hinni árlegu jólagjöf til foreldra, æfum jólalögin og leikum úti og inni.

Með bestu kveðjum,

Skólastjóri og starfsfólk.