Íbúafundur/verkfundur um framtíðarskipan skólamála

lindaFréttir

Á fundi sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps þann 13. mars síðastliðinn var ákveðið að hefja vinnu við gerð tillagna um framtíðaskipan í skólamálum sveitarfélagsins. Þessi vinna fer af stað í ljósi þeirra breytinga sem hafa orðið á íbúaþróun í sveitarfélaginu á undanförnum árum.

Vinna við gerð tillagna um framtíðarskipan mun hefjast þann 5. júní nk. Þann dag er öllum íbúum sveitarfélagsins boðið að taka þátt í vinnufundi þar sem áherslan verður að draga fram þá valkosti í framtíðarfyrirkomulagi sem eru til staðar, sem og hvað þurfi að skoða til að meta styrkleika og veikleika hvers kosts. Fundurinn verður haldinn kl. 17.00 til 19.00 í Félagsheimilinu Borg, og eru allir íbúar hvattir til að mæta og hafa þannig áhrif á skólafyrirkomulagið í framtíðinni. Hrönn Pétursdóttir, verefnisstjóri hefur verið fengin til að stjórna verkinu og mun stýra vinnu á fundinum.

Dagskrá:

Opinn íbúafundur – vinnufundur

· Kynning á verkefninu – markmið, tímasetning, verklag, þátttaka.

· Hvaða valkostir eru til staðar fyrir sveitarfélagið, þegar kemur að aðgengi íbúa og rekstri sveitarfélagsins á menntun á leik- og grunnskólastigi.

· Hvað þarf að skoða eða leggja mat á fyrir hvern valkost, til að hægt sé að taka upplýsta ákvörðun.

Sveitarstjóri