Fara í efni

Kvenfélag Grímsneshrepps

Kvenfélag Grímsneshrepps mun halda aðlafund sinn næsta laugardag, 15. febrúar í  Félagsheimilinu Borg kl. 11:00 - allar konur velkomnar.
Eftir fundinn kl. 13:30 verður opinn fyrirlestur fyrir konur 20 ára og eldri þar sem Kristín Þórsdóttir, ACC markþjálfi og verðandi kynlífsmarkþjálfi verður með fyrirlestur sinn Skynfæraveisla.

Fyrirlestrinum er ætlað að vekja konur til umhugsunar um sína eigin sjálfsmynd, staldra við og skoða hvar við erum staddar sem kynverur.

Verð kr 1.500.- og mun allur ágóðinn renna til fjáröflunarverkefnisins Gjöf til kvenna sem KÍ startaði í tilefni 90 ára afmælis sambandsins.

Kvenfélagskonur safna fyrir tækjum og hugbúnaði honum tengdum, sem kemur til með að gagnast öllum konum um landið allt. Um er að ræða mónitora og ómtæki, nýja eða uppfærða eftir því sem við á og rafrænar tengingar á milli landsbyggðar og Kvennadeildar Landspítalans.

Þau munu nýtast öllum konum á Íslandi, hvort sem er við meðgöngu og fæðingu, eða skoðana vegna kvensjúkdóma. Tækin sem safnað verður fyrir geta aukið öryggi í greiningum og í mörgum tilfellum komið í veg fyrir að senda þurfi konur á milli landshluta vegna ýmissa óvissuþátta.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur tileinkað árið 2020 hjúkrunarfræðingum og ljósmæðrum og það er okkur því sérstakt gleðiefni að safna tækjum sem nýtast þessum starfsstéttum.

Kvenfélagskonur hafa verið bakhjarl Landsspítalans frá stofnun hans og staðið fyrir söfnunum á peningum og tækjum sem hafa komið sér vel fyrir fjölmarga þegna landsins. 

Á meðan söfnuninni stendur munu kvenfélagskonur út um allt land meðal annars selja falleg armbönd sem í eru grafin gildi sambandsins,  Kærleikur – Samvinna – Virðing og Ég er kvenfélagskona. Í samvinnu við Omnom verður líka selt súkkulaði frá Omnom þrjár plötur í pakka.  


Verið velkomnar

Getum við bætt efni síðunnar?