Fara í efni

Buxnadragt - Lóa H. Hjálmtýsdóttir

Buxnadragt

Buxnadragt er sýning á málverkum, myndasögum, þrívíðum verkum og bókum þar sem lista- og tónlistarkonan Lóa H. Hjálmtýsdóttir leitast við að svara spurningunni: Hvernig er hægt að vera stórkostlegt sköpunarverk en á sama tíma svona hallærisleg manneskja með ranghugmyndir? Buxnadragtin, kvenkynsútgáfan af klassísk­um jakkafötum karla, er sett fram sem tákn um þá trú manneskjunnar, sem henni klæðist, að hún hafi stjórn á raunveruleikanum. Líkt og feminískt ævintýri falla málverk af hinum ýmsu konum í hversdagsleg­um senum saman eins og púsluspil.

Konurnar í verkunum virðast vera hluti af stærri epískri sögu um þetta tímabil á jörðu. Þrátt fyrir að myndirnar lýsi venjulegri rútínu daglegs lífs sem virðist allt að því tilgangslaus, eru persónurnar engu að síður alltaf að reyna; reyna að róa sig, reyna að komast lengra í samfélaginu, reyna að áorka meiru… en enginn veit hvar eða hvers vegna þau eru að þessu. Þessu hversdagslega drama er gerð skil á gamansaman og lifandi hátt með málverkum, þrívíðum verkum og bókum.

Buxnadragtin átti raunverulegan þátt í sögu kvennahreyfinga, að vísu á fjölbreyttari máta en skopmyndin af viðskiptakonu níunda áratugarins með axlapúða. Upphafið var breyting á reiðjakkanum snemma á tuttugustu öld, sem hjálpaði Súffragettunum að koma skilaboðum sínum áleiðis. Flíkin varð hentugur fatnaður fyrir vinnandi konur (og konur sem stóðu fyrir óeirðum.) Allt til ársins 1993 börðust kvenkyns þingmenn í Bandaríkjunum gegn banni sem gerði konum óleyfilegt að klæðast buxum í þingsal.

Lóa er myndasöguhöfundur og sögur hennar, af tilfinningalegu ástandi og innri einræðum, kallast á við þann einstaka skýrleika sem tilheyrir myndasöguforminu. Við erum vön að lesa texta og lesa myndmál en lesturinn á báðum miðlum í einu, snýst ekki eingöngu um að afla þekkingar heldur snýr þetta einnig að minninu og hvernig það virkar. Hvaða upplýsingar tökum við með okkur? Hvaða sögur fylgja okkur og hvaða upplýsingum miðlum við áfram? Hvaða hlutverki þjónar bókin sem boðleið upplýsinga á milli fólks og hugmynda, hinu almenna og hinu sértæka, hinu hversdaglega og hinu stórbrotna.

Á sýningartímanum, mun listakonan sýna og búa til úrval handgerðra bóka á gangi safnsins og þar með mun sýningin vaxa.

Lóa H. Hjálmtýsdóttir (1979, Reykjavík) er listamaður, teiknari, myndasögu- og rithöfundur og söngkona. Hún nam myndlist og ritlist við Listaháskólann og Háskóla Íslands og teikningu í Parson’s New School for Design í New York. Fyrsta myndasögubók Lóu kom út árið 2009 og frumraun hennar í barnabókaskrifum, Grísafjörður, var tilnefnd til Barna- og ungmennabókaverðlauna Norðurlandaráðs árið 2021. Allt frá 2005 hefur hljómsveit hennar samið og flutt tónlist og farið á tónleikaferðalög víða um heim. 

 

 

Getum við bætt efni síðunnar?