Fara í efni

RÓSKA – ÁHRIF OG ANDAGIFT

Listakonan og aðgerðasinninn Róska var engum lík. Listin kraumaði innra með henni og undiraldan í listsköpun hennar var persónuleg, framúrstefnuleg og súrrealísk. Hún hét fullu nafni Ragnhildur Óskarsdóttir og var fædd í Reykjavík árið 1940. Róska hikaði hvergi í sköpunarferlinu og var óhrædd við að tjá sig um allt milli himins og jarðar. Hún lét verkin tala og tókst á við nýja og framúrstefnulega miðla á seinni hluta síðustu aldar. Persónulegt og súrrealískt myndmál hennar blandaðist andstöðu gegn abstraktlistinni og borgaralegum hugmyndum þess tíma. Konan var Rósku alla tíð hugleikin sem viðfangsefni og hún endurspeglaði eigin hugarheim og hugarheim kvenna í mörgum af verkum sínum. Hún var kona meðal karla í karllægu samfélagi myndlistar á sjöunda og áttunda áratugnum og hafði óbilandi trú á að konur væri jafnvígar körlum og þyrftu ekki að lúta karllægum lögmálum borgarastéttar þess tíma. Teikningar hennar bera vott um ofurnæman frásagnarstíl og einlægni, og baráttuplaköt, málverk, ljósmyndir, skúlptúrar, skissur og gjörningar sýna að hún lét sig allt varða, hvort er kom að pólitík eða persónulegum málefnum. Fyrir Rósku var lífið og listin samtvinnaður þráður.

Sýning á verkum eftir Rósku verður opnuð í Listasafni Árnesinga þann 5. júní næstkomandi. Þar gefur að líta valin verk frá ferli Rósku sem endurspegla sköpunarflæði, hæfileika og framúrstefnu Rósku, sem og persónulega, ögrandi og einlæga nálgun í lífi og listsköpun. Til stendur að sýna fjölbreyttan og einstakan myndheim Rósku og hvað einkenndi hana sem listamann, aktívista og manneskju, og varpa frekari ljósi á hversu mikilvæg listsköpun Rósku var og er í listsögulegu samhengi og hvaða áhrif hún hafði og hefur enn á einstaklinga, samfélag og samtíma.

Verk Rósku verða sýnd í samtali við verk eftir íslenska samtímalistamenn sem þykja ríma við einstaka næmni og nálgun Rósku og búa yfir álíka orku og eldmóð, framúrstefnu eða
einlægni. Samtímalistamennirnir eiga það sameiginlegt að hafa í teikningu sinni eða nálgun fengist við hugarheim kvenna í ólíkum miðlum, miðlum sem Róska var óhrædd við að tileinka sér þó þeir hefðu verið framúrstefnulegir upp úr miðri síðustu öld.

Getum við bætt efni síðunnar?