Fara í efni

Siðareglur sveitarstjórnar

Siðareglur kjörinna fulltrúa í Grímsnes- og Grafningshreppi

1. gr.
Markmið.
Markmið þessara reglna er að skilgreina það hátterni og viðmót sem ætlast er til að kjörnir fulltrúar sýni af sér við störf sín fyrir hönd Grímsnes- og Grafningshrepps. Reglurnar ná til kjörinna sveitarstjórnarfulltrúa og annarra sem kjörnir eru til setu í nefndum og ráðum sveitarfélagsins.

2. gr.
Starfsskyldur kjörinna fulltrúa.
Kjörnir fulltrúar skulu í störfum sínum fylgja lögum, reglum og samþykktum Grímsnes- og Grafningshrepps, sem og sannfæringu sinni. Þeim ber að starfa fyrst og fremst í þágu íbúanna og ber því að setja almannahagsmuni ofar sérhagsmunum, hvort heldur er sínum eigin, annarra einstaklinga eða einstakra hópa. Þeim ber að hafa í heiðri ýtrustu kröfur um ráðvendni, heiðarleika og réttlæti í störfum sínum í þágu sveitarfélagsins.
Kjörnir fulltrúar skulu ávallt hafa í heiðri grundvallarreglur góðrar stjórnsýslu í störfum sínum, þ.m.t. gagnsæja og upplýsta ákvarðanatöku, og framkvæma ekkert það sem er til þess fallið að vekja grunsemdir um að annað en lögmæt og málefnaleg sjónarmið ráði för við stjórn Grímsnes- og Grafningshrepps.

3. gr.
Valdmörk.
Kjörnir fulltrúar skulu gæta þess að fara ekki út fyrir umboð sitt í störfum sínum og virða verkaskiptingu í stjórnkerfi Grímsnes- og Grafningshrepps. Þeir skulu sýna störfum og réttindum annarra kjörinna fulltrúa og starfsmanna Grímsnes- og Grafningshrepps virðingu.

4. gr.
Hagsmunaárekstrar.
Kjörnir fulltrúar nýta sér ekki stöðu sína í þágu einkahagsmuna sinna eða annarra sem eru þeim tengdir, hvort sem ávinningur af slíku kemur fram strax eða síðar, þ.m.t. eftir að störfum fyrir Grímsnes- og Grafningshrepp lýkur. Kjörnir fulltrúar skulu forðast hagsmunaárekstra í störfum sínum. Um hæfi þeirra við meðferð einstakra mála fer eftir 20. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.

5. gr.
Ábyrgð á fjármálum.
Kjörnum fulltrúum ber að virða fjárhagsáætlun og grundvallarreglur um fjármálastjórnun til að tryggja réttmæta og ábyrga meðferð á almannafé. Við störf sín skulu kjörnir fulltrúar ekki aðhafast neitt sem getur falið í sér misnotkun á almannafé.

 6. gr.
Gjafir og fríðindi.
Kjörnum fulltrúum er óheimilt að þiggja greiðslur, gjafir eða önnur hlunnindi frá viðskiptamönnum ef túlka má það sem endurgjald fyrir greiða.

7. gr.
Trúnaður.
Kjörnum fulltrúum ber að virða trúnað um það sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og gæta ber trúnaðar um. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi. Kjörnum fulltrúum ber jafnframt að virða trúnað um ummæli einstakra fundarmanna á lokuðum fundum í nefndum og ráðum Grímsnes- og Grafningshrepps, sem og um innihald skjala eða annarra gagna, sem þeir fá aðgang að vegna starfa sinna og trúnaður skal vera um, enda byggi hann á lögmætum og málefnalegum rökum.

8. gr.
Að virða hlutverk starfsmanna.
Kjörnir fulltrúar skulu í störfum sínum virða hlutverk starfsmanna Grímsnes- og Grafningshrepps. Þeir mega ekki hlutast til um að starfsmenn geri neitt það sem hefur þann tilgang að verða kjörnum fulltrúum á beinan eða óbeinan hátt til hagsmunalegs ávinnings, né heldur aðila nátengdum þeim eða ákveðnum hópum eða fyrirtækjum.

9. gr.
Stöðuveitingar.
Kjörnum fulltrúum ber að koma í veg fyrir að einstaklingum sé veitt starf eða stöðuhækkun hjá sveitarfélaginu á öðrum forsendum en hæfni til að rækja starfið.

10. gr.
Miðlun siðareglna til kjörinna fulltrúa, starfsfólks og almennings.
Kjörnir fulltrúar undirgangast þessar siðareglur með undirskrift sinni og lýsa því þar með yfir að þeir ætli að hafa þær að leiðarljósi. Siðareglurnar skulu vera aðgengilegar starfsfólki sveitarfélagsins, almenningi og fjölmiðlum á heimasíðu Grímsnes- og Grafningshrepps eða á annan þann hátt sem sveitarstjórn ákveður til að þessir aðilar geti gert sér grein fyrir meginreglum þeirra.

Síðast uppfært 25. september 2019
Getum við bætt efni síðunnar?