Jólapistill 2013

lindaFréttir

Aðventan hefur gengið í garð, jólin að nálgast og glittir í nýtt ár. Minningarnar um hið liðna eru okkur nærri og í hugum okkar gerum við upp atburði liðins árs.  Samhliða því förum við yfir með hvaða hætti við ætlum að taka á móti nýju ári. Það liggja fyrir mörg verkefni í sveitarfélaginu og í fjárhagsáætlun næsta árs verður mesta áherslan lögð á að ljúka skólabyggingunni þannig að hægt verði að taka hana í notkun næsta haust.

Við gerð fjárhagsáætlunar næsta árs voru nokkur atriði höfð til hliðsjónar sem vert er að nefna. Fyrst skal nefna að útsvarsprósentan mun lækka úr 14,48% í 12,44% sem er úr hámarki í lágmark. Þá voru viðmið hækkuð verulega vegna afsláttar af fasteignaskatti íbúðarhúsa til fasteignaeigenda sem eru 67 ára og eldri eða 75% öryrkjar eða meira og eiga lögheimili í viðkomandi fasteign. Jafnframt verður frá og með 1. janúar 2014 íbúum með lögheimili í sveitarfélaginu boðið upp á að kaupa árskort í Íþróttamiðstöðinni Borg á lágu verði eða kr. 8.000 fyrir fullorðna og kr. 3.500 fyrir börn. Árskort þetta gildir í alla þá þjónustu sem veitt er í íþróttamiðstöðinni, sund, þreksal og íþróttasal. Vil ég hvetja sem flesta til að nýta sér þetta og þá þjónustu sem er til staðar í sveitarfélaginu okkar til að létta andann og þjappa sér saman. Allt það sem verið er að gera er gert með það fyrir augum að gera sveitarfélagið okkar að ákjósanlegum stað til að búa á. Fjárhagsáætlun ársins 2014 og áranna 2015-2017 er svo hægt að skoða inn á heimasíðu sveitarfélagsins, www.gogg.is

Um seinustu mánaðarmót var loksins gengið frá kaupum sveitarfélagsins á eignum í Eignarhaldsfélaginu Fasteign ehf. Kaupverð húsanna voru rúmlega 755 milljónir króna og var tekið lán á móti frá Lánasjóði sveitarfélaga ohf. að fjárhæð 730 milljónir króna. Er þar með leigu sveitarfélagsins lokið og byggingarnar í eigu Grímsnes- og Grafningshrepps.

Síðast liðin ár hefur heldri borgurum í sveitarfélaginu staðið til boða að borða í mötuneyti Kerhólsskóla virka daga gegn vægu gjaldi. Hægt er að koma og borða einn dag í viku upp í fimm daga vikunnar, allt eftir hentugleika hvers og eins. Einnig hefur sundlaugin verið opin fyrir heldri borgara á fimmtudagsmorgnum milli 10 og 12. Nokkrir hafa nýtt sér þessa þjónustu og vil ég hvetja sem flesta til að nýta sér þetta þó ekki sé nema til að borða saman og hittast.

Eins og undafarin ár vil ég minna á að við jól og áramót er gott að gleyma ekki ferfætlingunum okkar. Þeir eru ekki allir jafn hrifnir af áramótunum og við mannfólkið. Girðingar þurfa að vera í lagi svo búpeningur sé ekki á vegunum og valdi okkur ekki slysum í myrkrinu. Huga ber að því að þau dýr sem ekki eru tekin á hús hafi aðgang að góðu skjóli og nægt fóður og að okkur ber skylda til að láta vita ef við verðum þess var að einhver hafi það ekki gott.

Að lokum vil ég þakka öllum starfsmönnum sveitarfélagsins fyrir samstarfið á árinu og óska öllum sveitungum mínum og velunnurum Grímsnes- og Grafningshrepps gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.

 Ingibjörg Harðardóttir, sveitarstjóri