Jólapistill sveitarstjóra

lindaFréttir

Í desemberhefti Hvatarblaðsins má finna pistil  frá sveitarstjóra Grímsnes og Grafningshrepps.  Helsta viðfangsefni hans í þessum stuttal pistli er mikilvægi þess að íbúar standi vel við bakið á því félagsstarfi sem unnið er í sveitarfélaginu.  Það er enda löngu vitað að maður er manns gaman og ljóst er að það hafa Grímsnesingar vitað lengi þar sem Ungmennafélagið Hvöt er með allra elstu ungmennafélögum og starf kvenfélagsins í Grímsnesi hefur veirð öflugt í gegnum tíðina sem og kvenfélagið í Grafningi á sínum tíma.  Pistil Jóns G. Valgeirssonar fer hér á eftir.

  Jólapistill

Nú þegar aðventan hefur gengið í garð og jólaljósin eru að komast á sinn stað er gott að setjast niður og hugleiða tilgang jólanna og þeirra hugsunar sem býr bak við slíka hátíð. Fyrir utan að minnast fæðingar Jesúbarnsins er það í mínum huga mannrækt í víðasta skilningi þess orðs, þ.e. að láta almennt gott af sér leiða, hugsa um fjölskylduna og náungann ekki síður en sjálfan sig. Í þessu sambandi vil ég sérstaklega benda fólki á að gleyma ekki því fólki sem leggur á sig mikla vinnu til að sinna félagsstarfi og menningu hér í sveitarfélaginu. Ég bendi á félagasamtök eins og Kvenfélagið, Ungmennafélagið, Tintron o.fl. félög sem gegna lykilhlutverki við að skapa gott og lifandi samfélag og Sólheima sem hafa staðið myndarlega að margsháttar menningarstarfsemi. Ég vil því hvetja alla til að taka virkan þátt í samfélaginu og því sem þar er um að vera því án þátttöku verður ekki til gott samfélag. Hvað varðar mín stuttu samskipi við þetta góða fólk vil ég sérstaklega minnast á Kvennfélagið sem stóð myndarlega að því að halda utan um Grímsævintýrið hjá okkur sem var þeim til mikils sóma og Ungmennafélagið sem tók þátt í uppbyggingu sparkvallarins og það að hafa yfirleitt starfað í 100 ár. Þar sem þetta er mitt fyrsta starfsár sem sveitarstjóri í þessu sveitarfélagi vil því þakka fyrir góðar móttökur, bæði fyrir mig og fjölskylduna, því það er óhjákvæmilega mikil breyting og rask að flytjast búferlum á nýjan stað. Á nýju ári liggja fyrir næg verkefni, því að stjórna sveitarfélagi er eins og keppa í maraþonhlaupi, verkefnið virðist vera endalaust en maður gleðst þó yfir hverju skrefi sem tekst að klára. Sveitarstjóri og sveitarstjórn vilja þakka öllum starfsmönnum sveitarfélagsins fyrir samstarfið á árinu og óska öllum íbúum og velunnurum í Grímsnes- og Grafningshreppi gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.

Jón G. Valgeirsson, sveitarstjóri.