Kvenfélag Grímsneshrepps 90 ára

lindaFréttir

Í upphafi síðustu aldar voru miklir umbrotatímar í íslensku þjóðfélagi. Fólk um allt landa vaknaði til vitundar um mikilvægi þess að leggja rækt við það sem þjóðlegt var, landið sjálft og fólkið sem bjó þar.

Ungmennafélögin voru stofnuð hvert á fætur öðru og skemmst er að minnast stórafmæla ungmennafélaganna hér í Grímsnesi, Laugardal og uppi í Tungum. Um svipað leyti sameinuðust konur krafta sína í kvenfélögunum og einbeittu konur sér vítt og breitt um landið að því að huga að þeim sem minna máttu sín.

Fyrsti formaður félagsins var Soffía Skúladóttir, Kiðjabergi en hún átti frumkvæði að því að félagið var stofnað með henni í fyrstu stjórn þess var Sesselja Ásmundsdóttir, Apavatni og Sigríður H. Guðmundsdóttir, Ormsstöðum.

Í tilefni af 90 ára afmælinu bauð félagið félagskonum sínum til glæsilegs málsverðar í Lindinni á Laugarvatni. Þar flugu sögur frá fyrri tíð, söngur hljómaði og Unnur Halldórsdóttir orti vísu til hverrar konu sem mætti þetta kvöld.

Umgjörðin öll var hin vinalegasta og góður andi ríkti í hópnum því líkt og við stofnun þess eru verkefnin brýn sem bíða kvenfélaganna í landinu. Líknarstofnanir, sjúkrahús og mannrækt eru allt verðug viðfangsefni nú þegar svo margir þurfa stuðning samfélagsins.

Formaður Kvenfélags Grímsneshrepps er Kristín Karlsdóttir, Stærri Bæ en hún tók við af Guðrúnu Þórðardóttur, Svínavatni nú í vor.