Menningarveisla Sólheima helgina 7. – 8. júlí

lindaFréttir

Menningarveisla Sólheima er enn í fullum gangi og nú á laugardaginn 7. júlí heldur söngparið Ellen Kristjáns og Eyþór Gunnarsson tónleika kl. 14:00 í Sólheimakirkju. Hjónakornin ætla að flytja fjölbreytta dagskrá af gömlum og nýjum lögum sem enginn ætti að láta framhjá sér fara.

Margar sýningar eru í gangi í tilefni af menningarveislunni. Í Ingustofu er sýningin „Svona gerum við“ en það er samsýning vinnustofa Sólheima. Í Íþróttaleikhúsinu er sýningin „Svona erum við“ en Pétur Thomsen ljósmyndari myndaði íbúa Sólheima í raunstærð við leik og störf. Í Sesseljuhúsi er sýningin „Vistvænt skipulag“ sem meistararnemar í byggingaverkfræði og skipulagsfræði við Háskólann í Reykjavík gerðu. Loks er að finna sérkennileg tröll upp í trjám hjá versluninni Völu þetta er sýningin „Tröll í trjám“ eftir Lárus Sigurðsson.

Sýningarnar, verslunin Vala og kaffihúsið Græna kannan eru opin alla daga vikunnar 9 – 18 á virkum dögum og 12 – 18 um helgar og það er ókeypis á alla viðburði og sýningar menningarveislunnar.

Verið velkomin.