Nemendur grunnskólans í fjallgöngu

lindaFréttir

Á föstudagsmorgun gengu nemendur í 1. – 7. bekk Grunnskólans  Ljósuborgar upp á Mosfell.  Áður en lagt var að stað var litið inn í kirkjuna á Mosfelli og Hörður leiðsögumaður frá Haga sagði ferðalöngunum frá merkilegri sögu hennar.  Á leiðinni upp fjallið komu skúrir en vel útbúnar fjallageitur létu það nú lítið á sig fá. Á sama tíma voru 8. bekkingar að koma heim úr sólarhringsferð í Þórsmörk. Þegar upp á toppinn var komið var skrifað í gestabókina sem var tekin í notkun á fimmtudag í göngu Hsk á fjallið,  en þá gekk 55 manna hópur upp á fjallið. Talsvert hvasst var á toppnum og það þurfti einn starfsmann til að halda gestabókinni, annan til að rétta penna og þann þriðja til að sjá til þess að allt gengi vel fyrir sig.

Síðan var fengið sér að drekka og þóttu sumum nemendum undarlegt að sjá starfsmenn drekka kaffi úr nestisboxum og mjólkurfernum. En í alvöru fjallaferðum eru menn ekki með neitt pjatt.

Þegar komið var niður hjá Seli tók Halldóra á móti göngugörpunum og leyfði hópnum að skoða kindurnar og lömbin. Ein ær var nýbúin að bera og biðu nemendur spenntir að sjá hvort að  seinna lambið kæmi á meðan við vorum á staðnum.

Nemendur og starfsmenn skemmtu sér vel í ferðinni og þakka Herði frá Haga fyrir góða leiðsögn og Halldóru fyrir að taka á móti þeim og trufla sauðburð.