Nýtt göngukort á fjöllin í Grímsnesinu

lindaFréttir

Nú í sumar kemur út göngukort á fjöllin Mosfell, Hestfjall og Búrfell.  Hér er á ferðinni frábært framtak afkomenda Tómasar Guðmundssonar en kveikjan að útgáfu kortsins er hið ógleymanlega ljóð Fjallganga.  Hér á eftir fer fréttatilkynning þeirra vegna útkomu kortsins. 

Hamri, 14. júlí 2010.

Fréttatilkynning:

Við kynnum til sögunnar nýtt göngukort á fjöll í Grímsnesi. Fjöllin eru Búrfell, Mosfell og Hestfjall með hinu sígilda ljóði Tómasar Guðmundssonar „Fjallganga“.

Tómas er landsmönnum kunnur sem ljóðskáld, en fáir vita að hann var mikill útivistarmaður og einn af stofnendum Ferðafélags Íslands. Í Morgunblaðinu 1. ágúst 1926 ritar hann grein sem hann nefnir „Fjallaför“ þar sem hann lýsir ferð sem hann fór í sumarið 1926 á hestbaki ásamt sjö öðrum auk fylgdarmanna. Ferðinni var heitið upp í Þjófadali og norður á Hveravelli og þaðan heimleiðis um Kerlingarfjöll til Þingvalla. Það var í þessari ferð sem hugmyndin af ljóðinu „Fjallgang“ kviknaði.

Kortið er samstarfsverkefni nemanda og kennara Ljósuborgar, ferðamálafulltrúa uppsveita Árnessýslu og handhafa höfundarréttar Tómasar Guðmundssonar skálds, þeirra Tómasar Guðmundssonar og Ragnars Guðmundssonar. Auk þess kom að verkinu Rúnar Gunnarsson hjá Þríbrot ehf sem sá um útlit og grafíska hönnun kortsins.

Það var um síðustu áramót að sú hugmynd kviknaði hvort ekki væri grundvöllur að vinna að göngukorti á þrjú fjöll í Grímsnesi, átthaga Tómasar með ljóðinu hans „Fjallganga“ í forgrunni í samvinnu við Grunnskólann Ljósuborg og ferðamálafulltrúa.

Efnt var til teiknisamkeppni meðal nemanda Ljósuborgar. Allir nemendur skólans teiknuðu myndir og var erfitt að velja mynd. Myndin sem prýðir bakgrunninn við ljóðið „Fjallganga“ er teiknuð af Katli Árna Laufdal Ingólfssyni og hlaut hann ljóðabókina Fögru veröld í viðurkenningu fyrir myndina, sem afhent var við skólaslit Ljósuborgar 4. júní sl.. Aðrir nemendur skólans fengu einnig viðurkenningarskjal fyrir þátttökuna.

Það er von okkar sem að þessu göngukorti standa , að það komi að góðum notum og að notendur þess njóti þess að ganga á þessi fjöll og rifja upp ljóðlínur Tómasar þar sem hann segir svo fallega „ landslag yrði lítils virði, ef það héti ekki neitt“.

Göngukortið er hægt að nálgast á heimasíðu Grímsness – og Grafningshrepps http://www.gogg.is/

og http://www.sveitir.is/ auk þess sem það mun liggja frammi á helsu ferðamannastöðum í hreppnum.

Teikningarnar sem nemendur Ljósuborgar gerðu verða til sýnis á Grímsævintýri að Borg Grímsnesi laugardaginn 7. ágúst nk.

Vil ég þakka Ásborgu Arnþórsdóttur ferðamálafulltrúa, Ingveldi Eiríksdóttur kennara við Ljósuborg og Rúnari Gunnarssyni hönnuði fyrir samstarfið við þetta skemmtilega verkefni með von um áframhaldandi samstarf á komandi árum, því án þeirra hefði þetta verkefni ekki orðið að veruleika.

Njótið vel.

Guðrún Ásgeirsdóttir.

Göngukortið

Mynd Ketils Árna og ljóðið Fjallganga – tilvalið að lesa – með tilþrifum þegar upp er komið!

Pdf skjal er væntanlegt.