Öskudagur með pompi og prakt

lindaFréttir

Það var líf og fjör í Grunnskólanum Ljósuborg á öskudag en þá mættu nemendur og starfsfólk skólans í grímubúningum og slógu síðan köttinn úr tunnunni.

Krakkarnir voru hæstánægðir með daginn og þó suma hefði kitlað undan búningunum eða átt svolítið erfitt með að borða grjónagrautinn með andlitin hulin grimu þá skyggði það ekki á ánægjuna. 

Það að slá köttinn úr tunnunni vakt mesta lukku – þó tunnan hafi e.t.v. ekki verið alveg nógu sterkbyggð í þetta sinn þá tafði hún að minnsta kosti ekki fyrir því að krakkarnir kæmust í nammið – en það var það allra besta við daginn:  Borða nammið var langbest!

Það er e.t.v. ekki auðvelt að bera virðingu fyrir kennara sem gengur um með augnlepp og bjúgsverð og segist vera frænka Jack Sparrow eða kennara með smábarnahúfu á kollinum sem sagðist vera norskur hawai-cowboy en krakkarnir stóðu sig vel og kennslan gekk afbragðsvel.

Kannski var það vegna þess að um gangana sveimaði fjólublá galdranorn sem hefði geta galdrað einhvern óþægðargaldur – það var því bara best að vera sömu stilltu og prúðu börnin og vant er þó klæðnaðurinn væri annar.