Skerðing á tekjum sveitarfélagsins

lindaFréttir

Á fundi sveitarstjórnar í morgun var eftirfarandi mál tekið fyrir undir lið nr. 9 og eftirfarandi bókun gerð:

9.  Beiðni Umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis um umsögn á frumvarpi til laga um tekjustofna sveitarfélaga (hlutverk Jöfnunarsjóðs), 291. mál.

Fyrir liggur beiðni Umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis, dagsett 7. desember 2012 um umsögn á frumvarpi til laga um tekjustofna sveitarfélaga (hlutverk Jöfnunarsjóðs), 291. mál.

Ljóst er að frumvarpið mun skerða tekjur sveitarfélagsins um allt að 35 milljónir árlega.

Sveitarstjórn mótmælir því harðlega að umsagnarfrestur var aðeins 5 virkir dagar fyrir jafn viða miklar breytingar á tekjustofnum sveitarfélaga eins og frumvarpið felur í sér.

Í ljósi alvarleika málsins var lögmanni sveitarfélagsins, Óskari Sigurðssyni hrl. falið að gera umsögn fyrir Grímsnes- og Grafningshrepp í samstarfi við Skorradalshrepp, Fljótsdalshrepp, Hvalfjarðarsveit og Ásahrepp.

Sveitarstjórn staðfestir umsögnina og krefst þess að fullt tillit verði tekið til þeirra athugasemda sem fram koma í innsendri umsögn sveitarfélagsins.

Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis hélt fund þann 14. desember s.l. þar sem teknar voru fyrir þær athugasemdir sem nefndinni höfðu borist. Samkvæmt fundargerð nefndarinnar barst aðeins ein athugsemd, þ.e. frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Umsögn Óskars Sigurðssonar lögmanns f.h. sveitarfélagsins var send nefndinni á tilsettum tíma. Gerðar eru alvarlegar athugsemdir við að umsögnin hafi ekki verið tekin til umfjöllunar í nefndinni og óskar sveitarstjórn skýringa á þeim vinnubrögðum.

Sveitarstjórn samþykkir að fela Óskari Sigurðssyni, lögmanni að gæta hagsmuna sveitarfélagsins.

Umsögn Óskars Sigurðssonar lögmanns