Skólalóðin við Grunnskólann Ljósuborg

lindaFréttir

Framundan eru spennandi tímar á Borgarsvæðinni en mikil uppbygging hefur verið í kringum byggingu Stjórnsýsluhúss og skóla og Íþróttamiðstöðvarinnar.  Nú er komið að því að ganga frá lóðinni í kringum þessar byggingar.  Hilmar Björgvinsson skólastjóri kynnir  hér á eftir, hvernig málin standa nú um þessar mundir

Í vetur hefur verið starfrækt skólalóðanefnd grunnskólans. Í henni eru; Jón G. Valgeirsson sveitarstjóri, Hilmar Björgvinsson skólastjóri, Ragna Björnsdóttir fulltrúi starfsmanna, Birna Guðrún Jónsdóttir fulltrúi foreldra og Hörður Óli Guðmundsson fulltrúi UMF Hvatar. Einnig hafa Birkir Einarsson landslagsarkitekt og hönnuður lóðarinnar, Kjartan Garðarsson verkfræðingur og Halldór B. Maríasson umsjónarmaður fasteigna mætt á fundi.

Nú er búið að hanna lóðina að mestu leyti og panta leiktæki. Á næstu dögum verður verkið boðið út. Malbika á stóran hluta af lóðinni þar sem m.a. verður körfuboltavöllur með tveimur hæðanstillanlegum körfum og sparknet fyrir yngri nemendur. Fleiri leiktæki verða síðan sett á lóðina s.s. rólur, jafnvægisslá, trésúlur og stórt klifurleiktæki. Hluti af skólalóðinni verður með fínni möl þar sem aðal leiktækin verða staðsett. Það svæði tengist hinu náttúrulega svæði með öllum trjágróðrinum. Tvö borð með áföstum setbekkjum verða jafnframt sett á skólalóðina. Helluleggja á í kringum skólann og framan við skóla- og stjórnsýsluhúsið. Auk framkvæmda við sjálfa skólalóðina á að ganga frá bílastæðum og stéttum fyrir framan Íþróttamiðstöðina, Félagsheimilið og Stjórnsýsluhúsið.

Fyrir framan Stjórnsýsluhúsið verður stórt torg en ekki verðu lokið við það í sumar.

Það er óhætt að segja að spennandi tímar eru framundan varðandi umhverfi skólans. Áætlanir gera ráð fyrir að skólalóðin verði tilbúin þegar nemendur mæta til starfa næsta haust.

Hér má finna teikingu af lóðinni (pdf skjal) en fyrirkomulag torgsins er einungis tillaga enn sem komið er. (hlekkur).