Sparkvöllurinn á Borg vígður

lindaFréttir

Sparkvöllurinn sem settur var upp á Borgarsvæðinu í haust,  í samstarfi KSÍ og Grímsnes og Grafningshrepps var vígður á föstudaginn.   Þá öttu nemendur Grunnskólans Ljósuborgar  kappi við starfsfólk skólans, stjórnarmenn Ungmennafélagsins Hvatar og sveitarstjórnarmenn. 

Skemmst er frá því að segja að leikmenn gáfu ekkert eftir og hart var barist.  Úrslitin skipta e.t.v. ekki öllu máli eftir á að hyggja því ískakan sem var í boði Hvatar og boltarnir sem KSÍ færðu skólanum og Hvöt – að ógleymdum vellinum sjálfum, er það sem skiptir máli. 

Sveitarstjórinn varð þó að lúta í lægra haldi fyrir syni sínum en hvor um sig voru sókndjarfastir í sínu liði þar sem yngri nemendur skólans knésettu sveitarstjórnina.  Starfsfólk skólans lagði hins vegar eldri nemendurna sem þó sýndu fádæma keppnishörku og einbeitingu. 

Eldir nemendur skólans hyggja áreiðanlega á hefndir í árlegum fótboltaleik starfsfólks og nemenda sem haldinn er í Þrastarskógi síðasta skóladaginn ár hvert.