Ungmennafélagið Hvöt 100 ára

lindaFréttir

Nú 22. desember eru 100 ár liðin frá því Ungmennafélagið Hvöt var stofnað af framsýnum Grímsnesingum sem vildu vinna sveitinni sinni og Íslandi allt.  Upp á þessi merku tímamót var haldið í lok nóvember að Borg í Grímsnesi en Hvöt átti sinn stóra þátt í því að það féalgsheimili var reist og haft svo myndarlegt að enn er sómi að.Ungmennafélagið bauð félagsmönnum, sveitungum öllum sem og velunnurum félagsins til kvöldverðar en veislustjóri var Ingveldur Eiríksdóttir.

Guðmundur Jóhannesson bauð gesti velkomna og fór stuttlega yfir sögu félagsins.  Formaður Ungmennafélags Íslands Helga Guðjónsdóttir tók einnig til máls og hvatningarorð hennar er gott veganesti í upphafi næstu 100 ára í sögu félagsins.

Formenn nágrannafélaganna okkar tóku einnig til máls þeir Kári Jónsson á Laugarvatni og Guttormur Bjarnason frá Ungmennafélagi Biskupstungna.  Voru þeir sammála Guðmundi að efla þyrfti samstarf félaganna á nýjan leik m.a. með því að taka upp þriggja félaga mótið sem haldið var á sumardaginn fyrsta í mörg ár en legið hefur niðri síðustu tvö eða þrjú árin.

Sveitarstjórn Grímsnes og Grafningshrepps færði félaginu höfðinglega peningagjöf að upphæð 1 miljón króna sem ætluð er til þess að ráða til félagsins þjálfara.

Guðrún Þórðardóttir færði félaginu árnaðaróskir frá Kvenfélagi Grímsneshrepps og auk bikars sem félagið hugsar sem viðurkenningu til kvennaíþrótta innan Hvatar. 

Fjölmargir aðrir tóku til máls svo sem eins og Böðvar Pálsson á Búrfelli og Guðmundur Guðmundsson frá Efri Brú en báðir gegndu formennsku innan Hvatar og saman eiga þeir hugmyndina að merki Hvatar.

Aðstaða öll til íþróttaiðkunar hefur stórbatnað í sveitarfélaginu hin síðari misseri og von er á grasvelli næsta sumar við Íþróttamiðstöðina en nú þegar er sparkvöllur, sundlaug og íþróttahús á staðnum auk þess sem félagsheimilið býðir upp á fjölbreytta möguleika til félagsstarfa.  Það er því ekki eftir neinu að bíða.  Ungmennafélaginu Hvöt ætti því ekki að verða skotaskuld úr því að hefja nýja öld í sögu þess af krafti við kjöraðstæður.  Vonandi ná félagsmenn að mynda breiðfylkingu um starfið því verkefnin eru engu minni nú en fyrir 100 árum.