Upplit kynnir þessa dagana fjölbreytta dagskrá sumarsins 2010.

lindaUncategorized

Viðburðirnir taka á sig annað snið yfir sumarmánuðina og verða þeir margir hverjir undir beru lofti, enda tími útiveru og ferðalaga runninn upp.

Næst á dagskrá er gönguferð í Gránunes laugardaginn 19. júní kl. 13.

Til að komast í Gránunes þarf að vaða Svartá og verða þátttakendur því að vera vel búnir til fótanna. Leiðsögumenn verða bændurnir Loftur Jónasson á Myrkholti og Jón Karlsson í Gýgjarhólskoti. Gránunes er einstakur staður frá náttúrunnar hendi, þar er gömul fjárrétt og staðnum tengjast ótal sögur allt frá dögum Reynisstaðabræðra. Nánari upplýsingar um gönguna er að finna á http://www.gljasteinn.is/ og í síma 895 9500.

Tveir viðburðir eru á dagskrá í júlí. Sunnudaginn 11. júlí standa Hollvinir Grímsness fyrir málþingi um rithöfundinn Ólaf Jóhann Sigurðsson frá Torfastöðum í Grafningi. Málþingið verður í tvennu lagi; á Torfastöðum og Borg í Grímsnesi, þar sem opnuð verður sýning á ritverkum Ólafs Jóhanns, myndum og munum. Málþingið er hluti af sumarhátíðinni BRÚ TIL BORGAR 10.-11. júlí. Nánari upplýsingar á www.hollvinir.blog.is/blog/hollvinir

.

29. júlí er síðasta fimmtudagskvöldganga sumarsins á vegum Þjóðgarðsins á Þingvöllum. Viðfangsefnið er mannlíf og menning í Þingvallasveit á 20. öld. Margrét Sveinbjörnsdóttir frá Heiðarbæ segir frá því hvernig Þingvellingar þess tíma gerðu sér dagamun. Nánari upplýsingar á http://www.thingvellir.is/.

Í ágúst eru fjórir viðburðir á dagskránni: 10. ágúst verður farið í göngu sem ber yfirskriftina Gróðurfar við Laugarvatn. Þá segir Jóna Björk Jónsdóttir líffræðikennari frá helstu plöntutegundum sem vaxa við Laugarvatn. Nánari upplýsingar á http://www.sveitir.is/.

Gullkistan, dvalarstaður fyrir skapandi fólk, verður með dagskrá á Laugarvatni 14. ágúst. Á málþingi um listamenn á Laugarvatni fyrr og nú verður lögð sérstök áhersla á málarann Þórarin B. Þorláksson.

Ennfremur verður í boði námskeið í landslagsmálun og í Eyvindartungu verður opið hús alla helgina. Nánari upplýsingar á http://www.gullkistan.is/.

Tveir viðburðir í ágúst hafa ekki verið dagsettir en verða kynntir nánar síðar. Dagsganga með leiðsögn niður með Stóru-Laxárgljúfri er yfirskrift fyrri viðburðarins. Ekið er inn í afrétt og gengið niður með gljúfri Stóru-Laxár, undir fararstjórn Önnu Ásmundsdóttur. Nánari upplýsingar og skráning á http://www.fludir.is/.

Kolgrímur kolagerðarmaður – hver var hann? er yfirskrift fræðslugöngu sem farin verður frá Úthlíð. Að göngu lokinni verður Skúli Sæland með erindi um Kolgrím og kolagerð í uppsveitum. Nánari upplýsingar á http://www.uthlid.is/

og http://menningarmidlun.wordpress.com/.

Viðburðirnir eru ýmist alfarið skipulagðir af Uppliti eða í samstarfi við hin ýmsu félög og hátíðir sem þegar hafa unnið sér sess í menningarlífi uppsveitanna. Þannig var t.d. Landnámsdagurinn í Skeiða- og Gnúpverjahreppi á dögunum í samstarfi við Upplit og á döfinni eru viðburðir á vegum Hollvina Grímsness, Gullkistunnar, Þjóðgarðsins á Þingvöllum o.fl. sem eru í samfloti við Upplit um kynningu.

Upplit er með síðu á Facebook og þeir sem gerast aðdáendur þar fá reglulega sendar tilkynningar um viðburði framundan. Ennfremur má nálgast upplýsingar um dagskrána á vef uppsveitanna; http://www.sveitir.is/.