Upplýsingar um breytta sorphirðu

lindaFréttir

Mikil breyting varð á sorphirðu í sveitarfélaginu 1. október.  Meðal annars kemur blátunnan svokallaða til sögunnar.  Ávinningur af henni er umtalsverður og flokkun sorps er mikið framfaraspor.

Blátunnan

Blátunnan með bláu loki til aðgreiningar frá Grátunnunni sem er með gráu loki. Í Blátunnuna á að flokka pappírsúrgang, þ.e. dagblöð, hvítan prentpappír, sléttan pappa eins og fernur og morgunkornskassa. Blátunnan er losuð á átta vikna fresti og innihaldinu ekið til SORPU sem annast böggun og útflutning á efninu til endurvinnslu.

Hagræðing af blátunnu

Með því að flokka allan pappír frá heimilissorpinu og safna honum sér til afsetningar sparast umtalsverðir fjármunir þar sem afsetning hvers kg. hjá Sorpu er allt að 60% ódýrari úr Blátunnunni en afsetning á hverju kg. af heimilissorpi.

Annar ávinningur af Blátunnu

Sorp er í raun hráefni á villigötum, en með þessari tilhögun í sorphirðu er reynt að ná pappír úr straumi blandaðs úrgangs sem er á leið til urðunar. Með því að endurnýta pappírinn sparast hráefni, kemísk efni og orka sem annars þarf í meira mæli þegar pappír er unnin úr trjám. Nýlegir útreikningar sem verkfræðistofan Línuhönnun gerði fyrir Sorpstöð Suðurlands sýnir að flokkun og endurvinnsla á dagblöðum og pappír sem fellur til á Suðurlandi leiðir til sparnaðar útblástur á sem nemur 130 persónueiningum (pe) af gróðurhúsalofttegundum. Þetta magn jafngildir yfir 1.1 milljón kílóum af koltvísýringi (CO2) árlega. Bláatunnan er aukin þjónusta við íbúa þar sem ekki þarf að safna blöðum og öðrum pappír innandyra milli ferða út í grenndargámana. Blátunnan tekur við fleiri pappírsflokkun en grenndargámakerfið gerir sem hefur verið starfrækt í sveitarfélaginu.

Hvað á að flokka í Blátunnuna?

Pappír og sléttur pappi er endurvinnanlegur pappi og pappír, svo sem dagblöð, tímarit, auglýsingapóstur, prentpappír, hreinar og tómar umbúðir úr sléttum pappa, fernur, morgunkornspakkar, eggjabakkar og pakkningar utan af matvælum s.s kexi og pasta. Svo ekki komi ólykt við geymslu skal skola fernurnar vel áður en þeim er skilað

Athugið: Mikilvægt er að fjarlægja allar matarleifar eða plastumbúðir sem kunna að leynast í pappaumbúðum. Losið því blöðin úr plastpokum eða öðrum umbúðum og setjið þau í lausu í Blátunnuna. Pressið umbúðirnar vel saman – það kostar að flytja loft.

Hvað verður um flokkaða pappírinn ?

Allur flokkaður pappírs- og pappaúrgangur endar í móttökustöð SORPU í Gufunesi. Hann er síðan sendur erlendis þar sem hann er endurunninn í margvíslegar afurðir, s.s. eldhúspappír, salernispappír o.fl. Umbúðir úr sléttum pappa eru sendar til endurvinnslu og úr hverjum fimm kössum er hægt að búa til fjóra nýja.

Auglýsing um Blátunnuna

Framkvæmd sorphirðu eftir breytingar

Móttökustöðvar úrgangs